Þegar setja þarf 250 börn, sum hver aðeins 6 eða 7 ára gömul í sóttkví, í bæjarfélagi sem í búa 2.700 manns er augljóst að afleiðingarnar eru gríðarlegar. Þetta neyddust Hvergerðingar til að gera um miðjan þennan mánuð þegar í ljós kom að starfsmaður við grunnskólann í bænum reyndist smitaður af COVID-19 kórónaveirunni.
Allt í allt má áætla að um 500 manns hafi verið í sóttkví á sama tíma í bænum, sóttkví sem ekki var aflétt fyrr en síðastliðinn mánudag. Þrátt fyrir það haga íbúar Hveragerðis sér enn að mörgu leyti eins og þeir séu enn í sóttkví. Fólk vinnur heima ef kostur er, fer lítið um, hittir fáa, heldur fjarlægð.
Konan látin og maður í lífshættu
Hveragerði hefur orðið illa fyrir barðinu á kórónaveirufaraldrinum. Þetta litla sveitarfélag sem helst hefur verið þekkt fyrir gróðurhús, jarðhita, ísgerð, tívolí og apana í Eden í gegnum tíðina varð fyrsta samfélagið til að missa manneskju af völdum COVID-19 veirunnar þegar 71 árs gömul kona lést síðastliðinn mánudag. Konan hafði búið í Hveragerði áratugum saman.
„Það ríkir meiri náungakærleikur núna en áður og við þurfum að reyna að finna leiðir til að halda í hann þegar þessum ósköpum öllum líkur“
Á sama tíma lýsa íbúar því að samhugur og eindrægni sé það sem einkennir bæjarbraginn, og ekki síst eftir þetta mikla högg sem fráfall konunnar var. Hvergerðingar biðja til góðra vætta og senda baráttukveðjur til eftirlifandi eiginmanns konunnar sem liggur alvarlega veikur á gjörgæslu og berst þar við sömu veiru.
Þrátt fyrir þessi áföll öll ríkir baráttuhugur í Hveragerði og íbúar ætla sér að komast út úr brimskaflinum saman. Hvergerðingar vísa í því samhengi í listaverk listamannanna Elísabetar Jökulsdóttur og Matthíasar Rúnars Sigurðssonar sem stendur á bakka Varmár og segja: Þetta líður hjá. Því einnig þessir erfiðleikar líða hjá. „Það ríkir meiri náungakærleikur núna en áður og við þurfum að reyna að finna leiðir til að halda í hann þegar þessum ósköpum öllum líkur,“ segir íbúi í Hveragerði.
Síðasta mánuðinn hafa Íslendingar tekist á við COVID-19 veirufaraldurinn af síauknu afli, með tilheyrandi breytingum á þjóðlífinu. Þó flestir sem hafa smitast séu búsettir á höfuðborgarsvæðinu, og sömuleiðis flestir þeir sem hafa þurft að fara í sóttkví, þá hitta afleiðingar faraldursins landsmenn alla fyrir, með samkomubanni, röskun á ferðum milli landa, tímabundnu hruni ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar og efnahagslegum afleiðingum sem ekki sér fyrir endann á.
Allt að fimmtungur íbúa í sóttkví á sama tíma
Hveragerði hefur orðið fyrir víðtæku raski vegna faraldursins. 14. mars voru á milli 250 og 300 nemendur við grunnskólann í bænum skipaðir í sóttkví til 23. mars, samkvæmt tilmælum lögreglu, sóttvarnaryfirvalda og almannavarna, eftir að í ljós kom að starfsmaður við skólann var smitaður af COVID-19 veirunni. Nemendur allra bekkja, utan 3., 8. og 9. bekkja urðu því að fara í sóttkví auk þess sem að hluti starfsmanna og kennara við skólann urðu einnig að gera slíkt hið sama vegna samskipta við umræddan starfsmann.
„Ég hugsa að það hafi vel ríflega 500 manns verið í sóttkví á einum og sama tímanum“
„Þetta hafði eðlilega mjög mikil áhrif á bæjarbraginn. Kannski urðu áhrifin af veirufaraldrinum hvað fyrst og mest hér í Hveragerði, af landinu öllu. Það hefur svolítið gleymst í umræðunni að þegar þarf að setja 250 börn í sóttkví, stóran hluta af þeim ung börn, þetta 6, 7 eða 8 ára, þá geta þau ekki verið ein heima. Þar af leiðandi þurfti stór hópur foreldra líka að fara í sóttkví með börnunum, og jafnvel yngri systkini þeirra líka. Samfélagið hér fór bara meira og minna í sóttkví. Ég hugsa að það hafi vel ríflega 500 manns verið í sóttkví á einum og sama tímanum, á meðan að þessi skólasóttkví varði,” segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði.
Athugasemdir