Öndvert því sem margir virðast telja nýtur aðild að Evrópusambandinu enn sem fyrr yfirgnæfandi stuðnings meðal almennings í öllum sambandslöndunum nema einu, auk þess sem evran nýtur einnig yfirgæfandi stuðnings í öllum evrulöndum án undantekningar. Þetta liggur fyrir þar eð Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat) fylgist gerla með skoðunum almennings í álfunni og birtir reglulega skýrslur um þær.
Evran: Tilraun sem tókst
Í haust leið sögðust 76% íbúa evrulandanna telja að evran hefði reynzt sambandinu vel en 16% töldu hana hafa reynzt illa. Þessi mikli munur hefur haldizt nokkurn veginn óbreyttur frá 2010. Stuðningur við evruna hefur aldrei farið niður fyrir 67% og andstaðan gegn henni hefur aldrei farið upp fyrir 24%. Með líku lagi töldu 65% íbúa evrulandanna að evran hefði reynzt löndum þeirra vel en 26% töldu hana hafa reynzt illa. Þetta er mesti stuðningur við evruna sem mælzt hefur í evrulöndunum síðan evran var tekin upp 1999. Fjórir af hverjum fimm telja að evran auðveldi þeim viðskipti við önnur lönd. Stuðningurinn var minnstur í Litháen (49% með, 37% a móti) og næstminnstur á Ítalíu (55% með, 36% á móti) og Kýpur (55% með, 34% á móti). Stuðningurinn við evruna var mestur á Írlandi (88% með, 7% á móti).
Takið eftir Írlandi. Þetta er landið sem margir töldu að hefði verið betur í sveit sett án evrunnar eftir hrun því þá hefði gengi írska pundsins getað fallið líkt og gengi íslenzku krónunnar. Írland náði þó bata eftir hrun án þess að kasta evrunni fyrir róða meðan Ísland náði sér á strik að mestu með stórauknum straumi ferðamanna sem fylgdi 50% gengisfalli krónunnar og gerði Ísland um tíma að miklu ódýrari áfangastað en áður. Bæði löndin þáðu dýrmæta aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Kaupmáttur þjóðartekna á mann var hinn sami á Írlandi og Íslandi 2005 en hann var 2018 orðinn röskum fimmtungi meiri á Írlandi en á Íslandi. Aðild Írlands að ESB með evrunni og öllu saman gerði greinilega meira en að vega upp á móti getu Íslands til að fella gengi krónunnar með gamla laginu.
Stuðningur við evruna meðal íbúa evrusvæðisins er mismikill eftir hópum. Karlar (70% með, 22% á móti) eru hlynntari evrunni en konur (61% með, 29% á móti). Ungt fólk á aldrinum 15-24ra ára (84% með, 12% á móti) er hlynntara evrunni en eldra fólk 55 ára og þar yfir (62% með, 27% á móti). Þau sem sátu í skóla fram yfir tvítugt (73% með, 19% á móti) eru hlynntari evrunni en hin sem luku skólagöngu sinni 15 ára eða yngri (42% með, 41% á móti). Allra mestur er stuðningurinn við evruna meðal námsmanna (86% með, 10% á móti).
Evran skiptir máli. Hún er gjaldmiðill 340 milljóna manna í 19 löndum. Henni var ætlað að gagnast fólki og fyrirtækjum með því að stuðla að stöðugu verðlagi, lægri viðskiptakostnaði, verndun sparifjár gegn verðbólgu, gegnsæi á samkeppnismörkuðum, blómlegri viðskiptum og auðveldari ferðalögum milli landa og betri lífskjörum. Allt hefur þetta tekizt bærilega á heildina litið. Um 60 lönd víðs vegar um heiminn binda gjaldmiðla sína við evruna með einum eða öðrum hætti.
Mikill stuðningur almennings við ESB
Kannanir Hagstofu Evrópusambandsins á stuðningi almennings við aðild að sambandinu ber að sama brunni. Í fyrra, 2019, sögðust 61% af íbúum ESB-landanna telja að aðildin að ESB hefði reynzt vel en 10% töldu aðildina hafa reynzt illa meðan 27% sögðu hvorki af né á. Þetta er einnig býsna mikill munur og hefur haldizt nokkurn veginn óbreyttur frá 2007. Stuðningur við ESB-aðild hefur aldrei farið niður fyrir 47% og andstaðan gegn henni hefur aldrei farið upp fyrir 18%. Stuðningurinn við aðild er 51% eða meira í 22 aðildarlöndum af 28 og liggur undir 50% í sex löndum: Austurríki (46%), Grikklandi (46%), Bretlandi (43%), Ungverjalandi (40%), Ítalíu (36%) og Tékklandi (33%). Í þessum löndum er andstaðan gegn aðild mest á Bretlandi (22%) og Ítalíu (21%).
Stuðningur við ESB-aðild hefur aldrei farið niður fyrir 47% og andstaðan gegn henni hefur aldrei farið upp fyrir 18%.
Jafnvel í Bretlandi, þar sem úrsögn úr ESB var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 2016 með 52% atkvæða gegn 48% og gekk í gildi fyrir viku, voru andstæðingar aðildar helmingi færri en stuðningsmenn þegar könnun Eurostat var gerð 2019. Hvað skýrir þennan mun? Kannski skýringin felist að einhverju leyti í því að skoðanakannanir Eurostat fara fram í friði fyrir ábyrgðarlausum áróðri og endalausum ósannindum eins og þeim sem bornar voru á borð fyrir kjósendur í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2016.
Ungt fólk í ESB-löndum á aldrinum 15-24ra ára (68% með, 7% á móti) er hlynntara ESB-aðild en eldra fólk 55 ára og þar yfir (60% með, 11% á móti). Þau sem sátu í skóla fram yfir tvítugt (72% með, 7% á móti) eru hlynntari aðild en hin sem luku skólagöngu sinni 15 ára eða yngri (51% með, 13% á móti).
Þegar lykilspurningin um reynsluna af ESB-aðild er orðuð aðeins öðruvísi og spurt er hvort löndin hafi haft ávinning af aðildinni segjast 68% íbúanna telja land sitt hafa notið góðs af aðild að ESB en 23% segjast ekki telja land sitt hafa notið góðs af aðild. Hlutfall þeirra sem telja land sitt hafa hagnazt fór lægst í 52% 2011 og er nú hærra en nokkru sinni síðan 1983. Hlutfall þeirra sem telja land sitt ekki hafa hagnazt fór hæst í 37% 2011 og 2013. Eina landið þar sem þau sem telja land sitt ekki hafa notið góðs af aðild eru fleiri en hin er Ítalía þar sem 49% telja landið ekki hafa notið góðs af aðild og 41% telja landið hafa notið góðs af aðild. Jafnvel á Bretlandi eru þau fleiri sem telja landið hafa hagnazt á aðild (54%) en hin sem telja landið ekki hafa hagnazt (30%).
Ein spurning enn var lögð fyrir íbúa ESB-landanna 2019: Væri kosið um áframhald aðildar á morgun, hvernig myndir þú kjósa? Meirihlutinn sagðist mundu kjósa að vera áfram í sambandinu í öllum 28 aðildarlöndunum, einnig Bretlandi þar sem svörin voru 45% með og 37% á móti. Til samanburðar voru svörin á Ítalíu 49% með og 19% á móti. Fyrir aðildarlöndin 27 án Bretlands voru svörin 68% með og 14% á móti. Munstrið er skýrt.
Bretland: Hikandi bandamaður
Enginn hefur nokkurn tímann þurft að efast um heilindi Frakklands og Þýzkalands í samstarfinu innan ESB. Höfuðmarkmið sambandsins var og er að tryggja frið og framfarir í álfunni og þá um leið frið milli þessara tveggja stórvelda sem höfðu háð þrjár miklar og mannskæðar styrjaldir hvort gegn öðru 1870-1871, 1914-1918 og 1939-1945. Bretland var annar handleggur og gekk með semingi í ESB 1973 ásamt Danmörku og Írlandi. Þar voru fyrir stofnríkin sex frá 1957: Frakkland, Þýzkaland, Ítalía, Belgía, Holland og Lúxemborg.
Báðir stærstu stjórnmálaflokkar Bretlands voru frá öndverðu klofnir í afstöðu sinni til aðildar að ESB. Ríkisstjórn Íhaldsflokksins undir forustu Edwards Heath leiddi Bretland inn í sambandið 1973. Ríkisstjórn Verkamannaflokksins undir forustu Harolds Wilson hélt þjóðaratkvæðagreiðslu um málið 1975 þar sem 67% kjósenda lögðu blessun sína yfir inngönguna eftir á. Wilson var hikandi í stuðningi sínum við aðild og nokkrir ráðherrar í ríkisstjórn hans lögðu til að aðildin yrði afturkölluð, en þeir urðu undir. Hikið gagnvart ESB í báðum flokkum stafaði öðrum þræði af ótta við að viðskipti Breta við Bandaríkin og samveldislöndin, einkum Ástralíu, Kanada og Nýja-Sjáland, myndu líða fyrir aðild Breta að sameiginlegri viðskiptastefnu ESB gagnvart löndum utan ESB. Auk þess lágu sumir brezkir stjórnmálamenn undir grun um að líta óþarflega stórt á sig sem handhafa gamals heimsveldis án þess að gera sér fulla grein fyrir að heimsveldið var liðið undir lok og hafði raunar hegðað sér svívirðilega gagnvart heimamönnum á Indlandi, í Afríku og annars staðar.
Vera Breta í ESB olli snemma deilum heima fyrir, deilum sem leiddu m.a. til þess að hennar eigin flokksmenn veltu Margréti Thatcher úr stóli forsætisráðherra 1990 vegna ummæla hennar um væntanlegt myntsamstarf ESB-þjóðanna. Þjóðrembutal járnfrúarinnar var þó frekar léttvægt borið saman við það sem síðar varð þegar Sjálfstæðisflokkur Bretlands (UKIP, stofnaður 1993) byrjaði að berja bumbur sínar fyrir alvöru eftir 2014 og náði þá mönnum inn á þing. Við þetta greip um sig þvílík skelfing í herbúðum íhaldsmanna í ríkisstjórn landsins að David Cameron forsætisráðherra afréð að reyna að skáka þjóðrembunum í Sjálfstæðisflokknum með því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit. Hann mælti sjálfur ákveðið gegn úrsögn úr ESB og taldi víst að hann og samherjar hans myndu hafa sigur, en svo fór þó ekki. Margir flokksmenn hans, þar á meðal Boris Johnson, nú forsætisráðherra, snerust á sveif með útgöngusinnum og beittu ýmsum brögðum. Þeir nefndu Írland ekki á nafn í málflutningi sínum þótt vita mætti eins og kom á daginn að landamæri Norður-Írlands, sem er hluti Bretlands, og Írlands yrðu torvelt og viðkvæmt úrlausnarefni. Meirihluti íbúa Norður-Írlands og einnig Skotlands greiddi atkvæði gegn úrsögn. Atkvæði Englendinga réðu úrslitum, einkum í dreifðum byggðum þar sem sumu fólki finnst það hafa setið á hakanum eins og Gylfi Zoëga prófessor hefur lýst. Verkamannaflokkurinn gekk einnig klofinn og dofinn til leiks enda var formaður hans, Jeremy Corbin, gamall ESB-andstæðingur. Cameron sagði af sér sem forsætisráðherra daginn eftir atkvæðagreiðsluna.
Nýr raunveruleiki
Bretar standa nú frammi fyrir nýjum og ögrandi raunveruleika utan ESB eins og írski hagfræðingurinn Kevin O’Rourke, prófessor í Oxford-háskóla, lýsir vel í nýrri bók, A Short History of Brexit. Útgöngusamningurinn tryggir óbreytt ástand í reynd út þetta ár sem nota þarf til að ganga frá flóknum viðskiptasamningum. Óvíst virðist hvort það mun takast þar eð reynslan sýnir að slíkir viðskiptasamningar eru jafnan margra ára verk eigi vel að vera. Spurningunni um hvernig farið verður til langframa með landamæri Norður-Írlands og Írlands, landamæri sem kostuðu mörg þúsund mannslíf þar til samið var um frið 1998, er ósvarað enn.
Stuðningsmenn útgöngunnar benda á Sviss sem hefur vegnað vel utan ESB og EES. En þá þarf að gæta að því að Svisslendingar hafa á löngum tíma gert aragrúa samninga við ESB sem að miklu leyti koma í reyndinni í sama stað niður og aðild enda hefur aldrei gætt nokkurs verulegs ósættis milli Sviss og ESB. Í Sviss er að vísu svolítilli þjóðrembu fyrir að fara, einkum innan stærsta stjórnmálaflokksins, en hennar verður samt ekki verulega vart í landsstjórninni svo sem við er að búast um fjölmenningarsamfélag með fjórar opinberar þjóðtungur. Þar er því enginn meiri háttar hljómgrunnur fyrir vígorð á borð við Sviss fyrir Svisslendinga, Þýzkaland ofar öllu, Ameríka númer eitt eða Íslandi allt.
Hann er alræmdur lygalaupur líkt og Trump Bandaríkjaforseti og hefur oftar en einu sinni verið rekinn úr starfi þess vegna.
Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar á Bretlandi 2016 hljómuðu vígorð í þessum stíl af vörum enskra Brexit-sinna, þar sem Boris Johnson, sem er nú orðinn forsætisráðherra Bretlands, fór fremstur í flokki. Hann er alræmdur lygalaupur líkt og Trump Bandaríkjaforseti og hefur oftar en einu sinni verið rekinn úr starfi þess vegna. Undir slíkri forustu virðist ósennilegt að Bretar taki sér Sviss til fyrirmyndar. Hitt virðist nú líklegra að Bretar lendi í ítrekuðum útistöðum við nágranna sína á meginlandi Evrópu líkt og Bandaríkin hafa gert í forsetatíð Donalds Trump. Og þá munu aukast líkurnar á að Skotland taki sér sjálfstæði til að halda aðild sinni að ESB og Norður-Írland sameinist Írlandi í sama skyni.
Fari svo mun England eitt standa utan ESB, með eða án Wales.
Athugasemdir