Snjóflóðið sem féll úr Skollahvilft yfir Flateyri í gærkvöldi og olli tjóni á bátaflota bæjarins „virðist hafa verið mjög stórt“, að mati Veðurstofu Íslands.
Hitt snjóflóðið sem féll, úr Innra-Bæjargili og lenti hinum megin í bænum, og fór yfir snjóflóðavarnirnar, veldur því að Veðurstofan mun fara yfir gögn og matsferla, þar sem veður þótti ekki gefa tilefni til þess að rýma svæðið.
Aðstæður ekki metnar hættulegar
Unglingsstúlka grófst undir í flóðinu, en var bjargað af heimamönnum í björgunarsveitinni Sæbjörgu. Húsið er illa farið, eins og sést af meðfylgjandi myndum.
„Snjóflóðavakt Veðurstofunnar mat snjóflóðahættuna í gær ekki svo að aðstæður væru þannig“
„Snjóflóðavakt Veðurstofunnar mat snjóflóðahættuna í gær ekki svo að aðstæður væru þannig. Veðurhamurinn í þessari snjóflóðahrinu var ekki jafn mikill og í hrinunni árið 1995 og því voru aðstæður metnar skárri nú. Þegar þessari hrinu slotar þarf að greina veðuraðdraganda hennar og upplýsingar um þessi og önnur flóð sem fallið hafa í henni til þess að geta sagt nánar til um ástæður þess að svo stór flóð féllu nú.“
Legið fyrir að flætt geti yfir varnargarða
Legið hefur fyrir í skýrslum og mati á snjóflóðahættu að flóðin geti náð yfir varnargarða þegar þau eru stærst.
„Flóðið úr Innra-Bæjargili kallar á mat á virkni varnargarðsins og ýtarlegar mælingar á flóðunum sem féllu í gær. Mæla þarf hversu mikið rann yfir garðinn og hvernig flóðtungan þar liggur til þess að sjá betur hvernig flóðið féll á garðinn og hversu stór hluti þess rann yfir hann. Einnig þarf að mæla þykkt og rúmmál flóðsins og kanna hvort flæddi yfir garðana ofar í hlíðinni. Þetta verður gert strax og aðstæður leyfa,“ segir í greiningu snjóflóðavaktar Veðurstofu Íslands.
Eyðileggingin blasir við
Stundin birtir hér myndir af eyðileggingunni eins og hún blasir við eftir snjóflóðin. Myndirnar tók Önundur Pálsson, íbúi á Flateyri.
Á myndunum sést bátafloti Flateyringa liggja í höfninni, en snjóflóðavarnir miðuðust við að verja byggðina en ekki höfnina. „Varnargarðurinn beindi því frá byggðinni og til sjávar, en garðurinn er ekki miðaður við að verja hafnarsvæðið.“
Enn snjóflóðahætta
Hér eru nýjustu fréttir frá Almannavörnum:
Uppfært kl. 15.15: „Enn er snjóflóðahætta á Vestfjörðum og óvissustig á norðanverðum Vestfjörðum og hættustig á Ísafirði. Flateyrarvegur og vegurinn um Súðavíkurhlíð eru lokaðir vegna snjóflóðahættu. Í undirbúningi er flutningur á hjálparliði almannavarna vestur til að styðja við heimamenn. Athugað verður með flug til Ísafjarðar nú í eftirmiðdaginn. Hvasst hefur verið á Vestfjörðum í morgun og gert er ráð fyrir að smá saman dragi úr ofanhríðinni. Gert er ráð fyrir 15-17 m/s á fjallvegum síðdegis og enn er skafrenningur. Lægir enn frekar í kvöld og horfur eru á skaplegu veðri á morgun, 5-10 m/s og verður að mestu éljalaust. Frekari upplýsingar um veður og færð má nálgast á vefsíðu Veðurstofunnnar vedur.is og hjá Vegagerðinni.“
Faðir stúlkunnar á leið vestur
Uppfært kl. 16:00.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í sjúkraflug vestur á Flateyri og Ísafjörð. Til stóð að sækja allt að þrjá á Flateyri til að koma þeim undir læknishendur. Vegna ófærðar síðustu daga hafa þeir ekki komist frá bænum. Um leið átti að sækja einn til Ísafjarðar og flytja hann á sjúkrahús í Reykjavík.
Á leið vestur var faðir stúlkunnar sem grófst undir í snjóflóðinni einnig um borð í þyrlunni. Honum var boðið að fara með svo hann gæti hitt dóttur sína. Gert er ráð fyrir að þyrlan lendi fyrir vestan á fimmta tímanum í dag.
Athugasemdir