Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Bauhaus: Listaháskólinn sem bjó til nútímann

Í goð­sagna­kennda hönn­un­ar­skól­an­um Bauhaus sam­ein­uð­ust tækni og list, en póli­tík­in reyndi að ganga af hon­um dauð­um.

Bauhaus-listaháskólinn var stofnaður í þýsku smáborginni Weimar á vormánuðum ársins 1919. Í ár hefur 100 ára afmæli skólans verið fagnað, reyndar ekki aðeins í Weimar, heldur um allan heim. Áhrif skólans verða seint ofmetin. Stofnandi hans, Walter Gropius, er án nokkurs vafa einn mikilvægasti arkitekt allra tíma, en það var ef til vill nálgun hans á skapandi greinar og hugmyndafræði listaháskóla sem eiga mestan þátt í að umbylta skapandi greinum og þeirri þýðingu sem sköpun hafði fyrir allt fólk, ekki aðeins hinar efnameiri stéttir. Markmið Gropius voru að nýta nútíma tækni til að færa gjörvallri alþýðu góða og fallega hönnun. Allt fólk átti að geta búið í hreinu, björtu og góðu húsnæði og fengið að njóta þess besta sem tæknin hafði skapað. Björn Teitsson stundar nám við endurstofnaðan Bauhaus-háskóla í Weimar og stiklar hér á stóru í stuttri sögu hins upprunalega skóla sem starfaði aðeins í 14 ár, frá 1919 til 1933.

Árið 1919 var mikið örlagaár í sögu Þýskalands. Um sumarið það ár voru Versalasamningarnir undirritaðir sem markaði um leið formleg endalok fyrri heimsstyrjaldar, eða Stríðsins mikla eins og það var þá kallað. Um svipað leyti, eða frá 6. febrúar, var samankomið þýskt þjóðþing í Weimar, menningarborginni í Thüringen, höfuðborg þýskra bókmennta og fyrrum heimaborg Göthe og Schiller. Það var einmitt í húsi Ríkisleikhússins í Weimar, sem var stofnað af fyrrnefndum bókmenntalegu sálufélögum, sem þingið kom saman. Þar var samin Weimar-stjórnarskráin, sem er enn talin ein framsæknasta stjórnarskrá allra tíma. Í öðrum hluta hennar, í efnisgreinum 109 til 134, er fjallað um rétt einstaklinga og samfélagsins. Þar var meðal annars kveðið á um lögbundið jafnrétti kynjanna, jafnrétti allra Þjóðverja fyrir lögum óháð stéttarstöðu, prent- og tjáningarfrelsi, kosningarétt allra sem náð höfðu 20 ára aldri, og, sem skiptir máli í tilviki Bauhaus, rétt fólks til að eiga heimili. Lýðveldið sem þarna var stofnað, þar sem stjórnarskráin var hornsteinn, hefur síðan verið kennt við Weimar.

Rætur til Íslandsvinar

Það var því við hæfi að á sama tíma og stjórnmálamenn sömdu nýja framsækna stjórnarskrá í Weimar, var þar einnig stofnaður framsæknasti listaháskóli heims fram til þess tíma, Staatliches Bauhaus, eða Ríkisskólinn Bauhaus. Upphaf skólans má reyndar rekja til 1860 þegar fyrst var stofnaður listaháskóli í Weimar. Árið 1907 til 1915 var belgíski listamaðurinn og arkitektinn Henry van de Velde skólameistari þess hluta skólans sem var kenndur við veraldlegar listir, eða samruna handverks og lista. Það var hann sem teiknaði skólabygginguna sem varð síðan fyrsta heimili Bauhaus, og það var van del Velde sem mælti sérstaklega með arftaka sínum sem skólameistari. Átti það að vera Walter Gropius, ungur arkitekt sem hafði vakið mikla athygli fyrir formfastar byggingar á borð við Fagus-verksmiðjuna í Alfeld (1911–1913), sem og verksmiðjubyggingu sem var hönnuð fyrir sýningu Deutscher Werkbund, Þýska listiðnaðarfélagið, í Köln árið 1914. 

Hús Walters GropiusEitt meistarahúsanna í Dessau, hönnuð fyrir kennaralið Bauhaus. Þetta hús var fyrir Gropius sjálfan en það eyðilagðist síðan í seinna stríði og stendur ekki lengur

Það var einmitt í þeim félagsskap þar sem van de Velde komst í kynni við Gropius og varð heillaður af ástríðu hans fyrir sameiningu fagur- og nytjalista, listiðnar, sem við þekkjum venjulega undir enska heitinu „arts & crafts“, sem var upphaflega gert frægt af Íslandsvininum, skáldinu og þúsundþjalasmiðnum William Morris upp úr miðri 19. öld. Byggingar Gropius þóttu sérstaklega eftirtektarverðar vegna áherslunnar sem hann lagði á þarfir fólksins sem notuðu þær. Í verksmiðjubyggingum hafði fram til þessa verið lítið um birtu, þar voru þröng rými og loftgæði af afar skornum skammti. Í Fagus-verksmiðjunni, sem var byggð úr hinni heilögu þrenningu steypu, stáli og gleri, var hátt til lofts, þar voru stórir gluggar sem hleyptu inn náttúrulegri birtu og þar leið starfsfólki vel. Gropius var undir miklum áhrifum frá lærimeistara sínum, Peter Behrens, sem hafði einmitt teiknað AEG-verksmiðjuna í Berlín, sem byggir á sömu áherslum og fyrrnefnd Fagus-verksmiðja. Á teiknistofu Behrens á árunum fyrir stríð var mikil gerjun, en á einum eða öðrum tíma störfuðu þar þrír af áhrifamestu arkitektum 20. aldar, auk Gropius þeir Ludwig Mies van der Rohe og Charles Edouard Jeanneret, betur þekktur sem Le Corbusier.

Fallegasta hugsjón módernismans

Á Íslandi var mikið rætt um „uppsafnaðan íbúðaskort“ fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Til að skilja Bauhaus, og módernisma í byggingarlist, þarf að skilja þær áskoranir sem arkitektar stóðu frammi fyrir í upphafi 20. aldar. Tækniframfarir á seinni hluta 19. aldar voru svo hraðar að slíkt hafði aldrei áður sést. Með tilkomu alþýðumenntunar, lestrarkunnáttu, fjölda dagblaða og bóka var fólk upplýstara en nokkru sinni fyrr. Lestarsamgöngur og útbreiðsla reiðhjólsins færði fólki áður óþekkt ferðafrelsi innan þéttbýlis og með tilkomu stéttarfélaga sem börðust fyrir réttindum verkamanna fékk fólk jafnvel að njóta frítíma, afþreyingar á borð við tónleika, leikhús eða bíósýninga. Heimurinn var að breytast hratt og íbúum fjölgaði í borgum þar sem hin nýja miðstétt hafði fundið sitt heimili.

Ný tækni, undir áhrifum fjöldaframleiðslu, þar sem notast var við steypu, stál og gler, umbylti byggingaraðferðum.

Í Weimar sá Gropius tækifæri til að koma sýn sinni í verk. Að endurskapa hlutverk listaháskóla með það markmið að sameina fagur-og nytjalistir til að þjóna hagsmunum fólksins þar sem „lokamarkmið allra skapandi greina væri byggingin“ (þ. das Endziel aller bildnerischen Tätigkeit ist der Bau), kjörorð úr stefnuyfirlýsingu skólans. Námsgreinar, rétt eins og nemendurnir sjálfir, áttu að njóta jafnræðis, mjög í anda stjórnarskráarinnar sem þá var verið að semja í næsta nágrenni í Ríkisleikhúsinu. Og einmitt í anda hennar, með áherslu á rétt allra til að eiga heimili, vildi Gropius starfa að því markmiði að finna lausnir á húsnæðisvanda. Ný tækni, undir áhrifum fjöldaframleiðslu, þar sem notast var við steypu, stál og gler, umbylti byggingaraðferðum. Byggingartíminn varð styttri og efniskostnaður varð minni. Með þessu móti var draumurinn, hugsjónin, að skapa nýjan heim þar sem allt fólk gæti átt kost á góðu heimili loksins innan seilingar.

Dessau-heimavistBakhlið Gropius-bygginarinnar var nemendavistin í Dessau, fullkomið dæmi um hrein form og notagildi í hugmyndafræði Bauhaus.

New York, París … Weimar?

Margt kom heim og saman fyrir Gropius árið 1919. Hann hafði sinnt herskyldu og rúmlega það í Stríðinu mikla. Hann hlaut til að mynda í tvígang Þýska járnkrossinn, æðstu orðu þýska hersins, fyrir hugprýði í skotgröfunum við vesturvígstöðvarnar. Þá var hjónaband Gropius og Ölmu Mahler, fyrri eiginkonu Gustavs Mahlers, í andarslitrunum þótt þau hafi ekki skilið formlega fyrr en 1920. Hann gat því beitt öllum sínum kröftum í Bauhaus og þar var fyrsta verkefnið að skipa kennaralið skólans, sem reyndist alls ekkert slor. 

Það er furðulegt að hugsa til þess að í Weimar árið 1919, sem var þá borg sem hafði um 40 þúsund íbúa, hafi verið listamannanýlenda sem taldi marga af áhrifamestu og frambærilegustu listamönnum sögunnar. Að smáborg í Thüringen sé nefnd í sömu andrá og París á millistríðsárunum er ekkert minna en ótrúlegt. Í kennaraliði skólans mátti finna nöfn á borð við Paul Klee, Josef og Anni Albers, László Moholy-Nagy, Lyonel Feininger, Marcel Breuer, Hannes Mayer, Herbert Bayer og umdeilanlegan föður abstrakt-listarinnar, Wassily Kandinsky. Áhrifamesti kennarinn til að byrja með skar sig þó nokkuð úr, og átti sérstakan þátt í að skapa goðsögnina um Bauhaus í Weimar, sem varð að lokum til þess að skólinn var hrakinn þaðan á brott. Sá kennari var Johannes Itten. 

Bauhaus-sýningin auglýstUpprunaleg auglýsingaspjöld fyrir Bauhaus-sýninguna í Weimar 1923. Höfundar: Fritz Schleifer, Joost Schmidt, Lázló Moholy-Nagy og Oskar Schlemmer.

Úrkynjun og svall

Miðað við það sem hér hefur komið fram mætti ímynda sér Weimar árið 1919 sem frjálslynda vin í eyðimörk skorts og bugunar Þýskalands í kjölfar stríðsloka. En málið er ekki svo einfalt. Weimar hefur vissulega verið miðpunktur menningarstarfs um margar aldir, þar hafa dafnað bókmenntir, fagurlistir og tónlist svo eftir var tekið. En þar var um að ræða listamenn á framfæri velgjörðamanna, þá sérstaklega stórhertogaættarinnar við Saxe-Weimar. Þetta átti við um helstu nöfn þýskrar menningarsögu, þá Göthe og Schiller, enn fremur um Johann Sebastian Bach á sínum tíma og síðar Franz Liszt. 

Í þetta sinn var stofnaður listaháskóli sem var á framfæri borgarinnar, greiddur með skattfé. Alþjóðlegt kennaralið var flutt til borgarinnar, nemendur komu úr öllum áttum, jafnvel voru stúlkur farnar að ganga í listaháskóla, sem þótti afar róttækt. Veislurnar sem haldnar voru í hverri viku fóru heldur ekki framhjá bæjarbúum. Ímyndið ykkur 40 þúsund manna borg, sem er þéttbyggð með eindæmum, þar sem er engin bílaumferð og alger þögn meirihluta sólarhringsins. Nema frá van de Welde-byggingu Bauhaus, þar sem dunaði djass- og sígaunatónlist langt fram á nótt. Kennari þeirra var síðan Johannes Itten, sem með útliti sínu hræddi góðborgara upp úr skónum. Itten var enda grænkeri (vegan), stundaði hugleiðslu, var með höfuð rakað og gekk um borgina í kufli líkt og munkur. 

Hugleiðsla og samsöngur hluti námsJohannes Itten: Johannes Itten var einn áhrifamesti kennari Bauhaus frá stofnun 1919 til ársins 1922. Hann stjórnaði fornáminu, sem allir nemendur þurftu að klára, þar sem stunduð var hugleiðsla og samsöngur. Útlit Itten þótti mjög framandi á þriðja áratug síðustu aldar.

Sögurnar sem gengu um á meðal borgarbúa voru á eina leið, Bauhaus-nemendurnir, die Bauhäuslers, stunduðu við skólann ekkert nema svall og svínarí, þar grasseraði kommúnismi, femínismi og alþjóðahyggja, fyrir utan að öll listsköpun sem þar fór fram var úrkynjuð (minnir um margt á Jónas frá Hriflu og listamannadeiluna á Íslandi um 20 árum síðar). Allt var þetta síðan í boði yfirvalda, í óþökk borgaranna. Í dagblöðum birtust reglulega skoðanapistlar þar sem Bauhaus var úthrópað sem óæskilegt syndabæli en þar var einn helsti gagnrýnandi jafnan Elizabeth Förster-Nietzsche, systir Friedrichs Nietzsche, sem hafði sest að í Weimar til að sinna skjalasafni bróður síns heitins. Hún var yfirlýstur þjóðernissinni og rasisti, og átti síðar eftir að gegna lykilhlutverki í áróðursstríði nasista til að hrifsa völd í Þýskalandi. 

List og tækni – ný eining

Það var því ekki síst vegna áhyggjufullra góðborgara sem stjórnvöld í Thüringen fóru beinlínis fram á það að Bauhaus myndi sanna tilverurétt sinn. Frá ágúst til loka september árið 1923 var því haldin Bauhaus-sýningin, þar sem afurðir skólans mátti sjá, allt frá barnaleikföngum til híbýliseininga, allt frá húsbúnaði til grafíkverka. Einkunnarorð sýningarinnar voru „List og tækni - ný eining.“ Hýbíliseiningin vakti mesta athygli, hið ferhyrnda einbýli Haus am Horn, teiknað af Georg Muche, með húsgögnum eftir nemendur og kennara skólans, til að mynda Marcel Breuer og Ölmu Siedhoff-Buscher. 

Um 15 þúsund gestir sóttu sýninguna sem þótti vel heppnuð. Þar voru fyrirlestrar og tónleikar haldnir fyrir utan hefðbundnar sýningar á verkum skólans, en auk þess voru flutt inn verk, teikningar og uppdrættir eftir móderníska arkitekta á borð við Frank Lloyd Wright, áðurnefndan Le Corbusier og Ludwig Mies van der Rohe, sem átti síðar eftir að verða skólameistari Bauhaus. 

Nokkur dæmi um klassíska Bauhaus-iðnhönnun fyrir heimiliðEfri röð: Lampi eftir Victor Wagenfeld (1924). Vagga eftir Peter Keler (1922). Neðri: Kaffikanna og tekatlar auk fylgihluta eftir Marianne Brandt (1924). Skáksett eftir Josef Hartwig (1924). Hartwig var einn fárra kennara við Bauhaus sem varð meðlimur Nasistaflokksins eftir að skólanum var lokað. Sem er ekki gott fyrir neinn.

En sýningin var ekki nóg. Um leið og sósíaldemókratar misstu völdin í Thüringen í ríkiskosningum árið 1924 til Þýska þjóðarflokksins, var ljóst að örlög skólans í Weimar voru ráðin. Fjárstuðningur var skorinn í tvennt og skömmu síðar var hann alveg horfinn. Þegar vetrarönn 1924-1925 lauk í mars var ævintýri Bauhaus lokið í Weimar, eða í öllu falli uns skólinn var endurstofnaður um 70 árum síðar. Nú voru ný ævintýri í sjónmáli, um 100 kílómetrum norðar, í iðnaðarborginni Dessau í Anhalt. 

Bauhaus Dessau 

Fyrir tilstilli framsýnna og frjálslyndra stjórnmálamanna og velgjörðamanna í Dessau varð til einstakur samruni listsköpunar og iðnaðar við opnun Bauhaus-skólans. Má þar helst nefna Fritz Hesse, borgarstjóra, sem hafði einmitt sem þingmaður Þýska lýðræðisflokksins (DDP) verið einn höfunda Weimar-stjórnarskráarinnar. Þá má ekki gleyma þáverandi milljónamæringnum, flugvélasmiðnum og friðarsinnanum Hugo Junkers, sem lagði persónulega til fé svo Bauhaus fengi að dafna í Dessau. Og nú í glænýrri byggingu sem má segja að sé flaggskip byggingarlistar Gropius. 

Dessau-byggingin

Bauhaus-byggingin í Dessau er, líkt og van de Welde-byggingin í Weimar, á heimsminjaskrá UNESCO. Hún er einstök, framúrstefnuleg og nútímaleg, og það jafnvel enn í dag. Byggingarefnin eru hin heilaga þrenning; steypa, stál og gler, formin eru hrein og notagildið í fyrirrúmi. Nemendavistin bauð upp á vistleg herbergi sem voru einnig hugsuð sem vinnuaðstaða nemenda, þar er samkomusalur og matsalur, fyrirlestrarsalir og verkstæði. Skammt frá skólanum var síðan einstök götumynd húsa sem Gropius hannaði fyrir kennaralið skólans, meistarahúsin svokölluðu, sem mörg hver standa enn í dag og hafa fengið nauðsynlega andlitslyftingu. 

Í Dessau varð talsverð stefnubreyting í kennsluháttum. Itten var horfinn á braut og meiri áhersla var lögð á praktískt gildi skólans, að hann kæmi því í verk það sem hann predikaði. Iðnhönnun varð áberandi, ekki síst vefnaðarverkstæðið sem var stýrt af Guntu Stölzl, sem var ein af fáum kvenkyns meisturum sem fengu að kenna við skólann (þótt Bauhaus hafi boðað jafnrétti kynjanna í orði, var raunin sorglega önnur á borði). Stölzl vildi færa vefnaðarlistina frá þeirri staðalímynd að hún væri einungis „kvenáhugamál“ og gerði hana að órjúfanlegum hlut húsgagnahönnunar, ekki síst í stólahönnun, þar sem samstarf hennar og Marcels Breuer varð víðfrægt. 

Grímuball BauhausSkemmtanalífið við Bauhaus var einstakt. Þar stóðu veislur jafnvel í marga daga, húsbandið spilaði djass og sígaunatónlist sem borgarbúar Weimar töldu frá djöflinum sjálfum. Hápunktur hvers árs voru grímuböllin, hér er mynd frá einu slíku frá árinu 1923.
Haus am HornHaus am Horn var eitt flaggskipa Bauhaus-sýningarinnar í Weimar 1923. Teiknað af Georg Muche undir handleiðslu Gropius, með húsgögnum eftir nemendur og kennara skólans. Ef til vill eins og hvert annað einbýlishús á Flötunum en á þeim tíma alveg einstakt.

Upphaf endalokanna 

En þótt vel gengi að skapa vörur og hönnun, kraumaði undir pólitísk óvissa sem gerði skólanum erfitt fyrir. Gropius sagði starfi sínu lausu árið 1928, álagið sem fylgdi því að lægja pólitískar öldur hafði tekið sinn toll. Þótt Gropius hafi aldrei verið pólitískur, að öðru leyti en að trúa á jafnrétti og tilverurétt hönnunar og skapandi greina, gat hann ekki sætt sig við fasisma eða óréttlæti. Þegar Þýska listiðnaðarfélagið fór að segja upp félögum sínum sem voru gyðingar, hætti Gropius í félaginu. Þegar skrifstofustjóri Bauhaus mætti eitt sinn til vinnu í nasistabúningi, rak Gropius hann á staðnum. 

Hannes Mayer tók við af Gropius sem skólameistari en varð ekki langlífur í starfi. Honum tókst ekki að feta í fótspor Gropius sem mannasættir og hafði ef til vill ekki sömu vigt til að standa í hári íhaldsafla. Gropius var auðvitað erfiður viðureignar fyrir pólitíska andstæðinga Bauhaus því hann var ekki aðeins frjálslyndur listamaður, hann var líka stríðshetja sem hafði barist í skotgröfunum fyrir þjóð sína. Mayer var aftur á móti róttækur kommúnisti. Hann rak Herbert Bayer og Marcel Breuer úr kennaraliðinu því þeir voru ekki nægilega róttækir að hans mati. Mikil óeining myndaðist við skólann sem endaði með því að borgarstjórinn Hesse rak Mayer úr stöðu sinni árið 1930. Við tók Mies van der Rohe, sem fékk sérstaklega góð meðmæli frá Gropius. 

En rétt eins og í Weimar, var Bauhaus hrakinn á brott af pólitískum öflum. Nasistar náðu völdum í borgarstjórn Dessau árið 1931, og um leið var skólinn óvelkominn. Mies van der Rohe flutti skólann í verksmiðjubyggingu í Berlín en krafturinn var að mestu farinn úr starfinu sem hafði reynst svo gjöfult. Framlag Mies, og samferðakonu hans Lilly Reich, má þó ekki vanmeta, þá sérstaklega þegar kom að húsgagnahönnun en þau höfðu þá þegar hannað hina heimsfrægu stóla kennda við Barcelona annars vegar og Brno hins vegar. Bauhaus, í sinni upprunalegu mynd, var lokað árið 1933 eftir 14 ára starf. Það sama má segja um Weimar-lýðveldið sem leið undir lok á sama tíma. Hitler komst til valda árið 1933 og nýr veruleiki blasti við Þýskalandi. 

Bauhaus-háskólinnAðalbygging Bauhaus í Weimar var teiknuð af Henry van de Welde í art nouveau-stíl og var reist á árunum 1904 til 1911. Hún er enn notuð í dag sem aðalbygging Bauhaus-háskólans.

Bauhaus í dag

Arfleifð Bauhaus-háskólans er enn lifandi í dag og er haldið á lofti í Weimar. Borgin hefur þurft að fara í gegnum mikið uppgjör vegna sambands síns við skólann, en eftir að hann var endurstofnaður í borginni árið 1996 má segja að hann hafi loksins verið tekinn í sátt. Nýtt Bauhaus-safn var opnað á vordögum afmælisársins en safnbyggingin sjálf á einmitt að minna á hrein og skýr fagurfræðileg form, í anda Bauhaus, en einnig lokað og kalt pólitískt viðmót sem skólinn þurfti að glíma við á millistríðsárunum. Í núverandi skóla er síðan enn er lögð áhersla á samtvinnun tæknigreina, iðnhönnunar og lista. Kennaraliðið er alþjóðlegt og nemendahópurinn einnig, rétt eins og fyrir 100 árum. Og gott ef viðmótið er ekki orðið aðeins hlýlegra frá yfirvöldum, þótt aldrei megi sofna á verðinum eins og sagan sannar. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár