Skotland í upphafi 20. aldar. Peter Baird Reid, sem var þá unglingur, stígur um borð í skip ásamt fjölskyldu sinni og kveður að eilífu föðurlandið þar sem grænar grundir, hálendið, kastalar og skotapils hafa orðið efni í mörg ævintýrin. Siglt var yfir Atlantshafið og sest að í Kanada. Þar hitti Peter mörgum árum síðar Jean McWilliam og kvæntist henni. Faðir hennar hafði flutt frá Skotlandi og móðir hennar frá Englandi. Jean fæddist í Kanada. Peter var prestur og eignuðust þau hjónin þrjú börn. Eitt þeirra var sonurinn Hugh.
Betty Nicolson var tveggja ára þegar hún flutti ásamt fjölskyldu sinni frá Skotlandi til Kanada. Þau voru frá bænum Wick í Caithness-sýslu í norðurhluta landsins þar sem fólk er sagt vera afkomendur víkinga, enda vísar nafnið „Wick“ í norræna orðið vík og víking. Árin liðu og þegar Betty var 28 ára giftist hún George King Brown sem fæddist í Kanada en foreldrar hans höfðu flust þangað frá Skotlandi. Hann var verkfræðingur og ólst upp í Winnipeg eins og Betty og þekktu þau marga af íslenskum ættum sem bjuggu þar. Betty er 98 ára. Betty og George eignuðust þrjú börn og er eitt þeirra dóttirin Allison.
Hugh kennari og Allison, sem er húsmóðir, gengu í hjónaband árið 1973. Þau eiga þrjú börn, Eliza, Ewan og Iain. Ewan er verkfræðingur og Iain er rithöfundur.
Vinsæl sem myndefni
Reykjavík í lok júní 2016. Kaffiterían í Perlunni.
Sólin skín, fuglarnir syngja og flugurnar suða.
Bessastaðir blasa við út um gluggana. Þangað flytur Eliza og fjölskylda eftir nokkrar vikur.
Erlendir ferðamenn flykkjast út á svalir Perlunnar þar sem útsýni er til allra átta. Esjan, Akrafjall og Skarðsheiði. Bláfjöll. Fjöllin á Reykjnesi. Snæfellsjökull. Hafið bláa hafið.
Lyftudyrnar opnast og tilvonandi forsetahjón Íslands birtast. Glæsileg. Þau heilsa hlýlega og segir Eliza að Guðni sé að fara í viðtal hjá rússneskum blaðamanni.
Hjónin eru rétt komin inn þegar fólk - bæði Íslendingar og útlendingar - flykkist að þeim og vill fá að taka myndir.
Við Eliza setjumst síðan við borð þar sem útsýni er til Bessastaða. Guðni sest þar rétt hjá og eftir smástund er annar hópur ferðamanna kominn til hans til að taka myndir.
„Má ég taka mynd af þessu?“ spyr Eliza og stendur upp og mundar símann. „Mér finnst þetta vera svo fyndið. En þetta er bara frábært.“
Alþjóðasamskipti
Eliza fæddist í Ottawa í maí árið 1976. Hún var þriggja ára þegar fjölskyldan flutti til Englands í eitt ár þegar faðir hennar, Hugh, var í doktorsnámi í enskum bókmenntum.
Fjölskyldan bjó eftir það í rúmlega 150 ára gömlu húsi í útjaðri Ottowa, sem Eliza segir að hafi verið eins og uppi í sveit, og var með íslenskar kindur, hænur og endur. Þá vissi hún ekki að landið, þaðan sem kindurnar voru, átti eftir að skipta hana miklu máli.
Sumrin voru hlý og veturnir kaldir og systkinin léku sér eins og enginn væri morgundagurinn hvort sem það voru feluleikir eða að renna sér á sleðum á nýfallinni mjöllinni.
Hún lærði á trompet og var í stórhljómsveit skólans, söng í kór og var félagslynd; hún var meðal annars um tíma í skólaráðinu og sá ásamt fleirum um árbók skólans.
„Mig langaði til að verða lögfræðingur um tíma vegna þess að sjónvarpsþátturinn LA Law var vinsæll. Ég var ekki viss hvað ég ætti að velja þegar kom svo að því að velja háskólanám. Ég talaði við vin minn sem var búinn að vera í alþjóðasamskiptum í eitt ár en fannst það ekki skemmtilegt og fór í tölvunarfræði. Ég held að hann hafi viljað selja mér bækurnar sínar sem hann las í náminu í alþjóðasamskiptum en hann var að reyna að selja mér þá hugmynd að fara í alþjóðasamskipti. Mér þótti alþjóðasamskipti vera áhugavert og fór í það nám í Toronto-háskóla. Ég skemmti mér næstum því of mikið á háskólaárunum. Ég var þá líka mikið í félagslífinu, bjó á stúdentagarði og átti marga góða vini. Ég á góðar minningar frá þessum tíma.“
My name is Guðni
Draumurinn um lögfræðinám var enn á bak við eyrað. Eliza segir að hún hafi hins vegar ekki viljað fara í fjögurra ára lögfræðinám eftir BA-próf í alþjóðasamskiptum. „Ég átti ekki pening til þess og vildi bara fara í eins árs framhaldsnám. Ég vildi læra í öðru landi og upplifa ævintýri. Ef ég vildi læra í enskumælandi landi þá var það annaðhvort Bretland eða Bandaríkin. Mér fannst Bandaríkin vera of nálægt Kanada og ekki nógu mikil breyting að fara þangað auk þess sem ég þurfti að taka próf til að fá að læra þar og ég nennti því ekki. Þá var það Bretland og ég sótti um í bestu háskólunum svo sem London School of Economics og Oxford. Og þegar maður er kominn inn í Oxford þá segir maður ekki nei við því.“
Eliza flutti til Englands haustið 1998 og bjó í Oxford þar sem tíminn virðist standa í stað í aldagömlum byggingunum. Þar nam hún nútímasögu.
„My name is Guðni. I am from Iceland,“ sagði ungur maður með sterkan, íslenskan framburð sem settist við hliðina á henni í matsal skólans einn daginn í byrjun annarinnar. Hann var nýbyrjaður í skólanum og var í meistaranámi í sagnfræði.
„Oh, you're the guy who is from Iceland,“ sagði Eliza.
Hún brosir.
„Það voru nemendur frá mörgum löndunum í skólanum og þar af margir Kanadabúar og hafði ég heyrt að það væri meira að segja einn Íslendingur í skólanum.“
Íslendingurinn vakti áhuga hennar.
Athugasemdir