Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Umbúðalaus lífsstíll: Markmiðið að skilja ekki eftir sig neitt rusl

Helga María Ragn­ars­dótt­ir hef­ur til­eink­að sér um­búða­laus­an lífs­stíl. Hún kaup­ir mat eft­ir vigt og snið­geng­ur plast. Hér gef­ur hún nokk­ur góð ráð til að skilja eft­ir okk­ur minna rusl.

Umbúðalaus lífsstíll hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár en hann felur í sér að hætta að nota einnota umbúðir og skilja eftir sig sem minnst af rusli. Helga María Ragnarsdóttir er ein þeirra sem hefur reynt að tileinka sér lífsstílinn, en hún fer með eigin taupoka og glerkrukkur í matvöruverslanir og kaupir þær eftir vigt. „Mitt markmið er að reyna að minnka umbúðanotkun eins og ég mögulega get og lifa algjörlega umbúðalausum lífsstíl. Með tímanum vonast ég til þess að þurfa ekki að kaupa neinar óendurvinnanlegar umbúðir og þarf því ekki að vera með ruslatunnu á heimilinu með plastpoka í sem ég fer síðað með út í tunnu.“

YouTube myndbandið sem breytti lífinu

Helga María er grænkeri, eða vegan, en þeir sem tileinka sér þann lífsstíl sneiða hjá öllum dýraafurðum. Helga hefur verið vegan frá árinu 2011, en þá rakst hún á YouTube-myndband sem átti eftir að breyta lífi hennar. „Það var eiginlega algjör tilviljun að ég komst að því hvað veganismi er því ég fann eitthvað myndband á YouTube sem var til hliðar við eitthvað annað myndband sem ég var að horfa á. Mér fannst þetta svo áhugavert og fór að lesa mér til um þetta. Sama kvöld var ég búin að taka ákvörðun um að verða vegan. Í fyrstu var það aðallega vegna minnar eigin heilsu en um leið og ég las mér til og lærði hvað þetta er gott fyrir umhverfið, dýrin og jörðina, þá varð ég enn sannfærðari í minni ákvörðun,“ segir Helga, en hún heldur nú úti vinsælu bloggsíðunni Veganistur ásamt systur sinni, Júlíu Sif.  

Mikil vakning hefur verið um veganisma á Íslandi undanfarin ár og telur Helga María að samfélagsmiðlar spili þar stórt hlutverk. „Ef við tökum YouTube sem dæmi, sem er stór og vinsæll samfélagsmiðill, þá er þar að finna margt fólk sem deilir myndböndum og segir sínar sögur. Ég veit um marga sem hafa byrjað að fylgjast með vegan-fólki þar og ákveða í kjölfarið að verða vegan. Síðan hafa verið gerðar margar góðar heimildarmyndir nýverið, til dæmis inni á Netflix. Upplýsingarnar eru orðnar svo aðgengilegar. Hér á Íslandi eru einnig komin blogg, matreiðslubækur og vinsælir tónlistarmenn gefa það út að þeir séu vegan, og þetta hefur allt áhrif.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár