Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Mörkin á milli meðvitundar og meðvitundarleysis

Hild­ur Yeom­an skap­ar lif­andi list fyr­ir Lista­há­tíð í Reykja­vík þar sem hún tvinn­ar sam­an ólík­um list­form­um.

Hildur Yeoman fatahönnuður er þekkt fyrir fjölbreyttar sýningar en á Listahátíð í Reykjavík verður hún með innsetningu þar sem hún teflir saman hönnun, ljósmyndun, myndlist og alls kyns gjörningum. Hildur tekur á móti blaðamanni á vinnustofu sinni á Laugavegi þar sem hún hefur unnið að sýningunni síðustu þrjá mánuði. „Við erum búin að vera á fullu að vinna að þessu síðan í mars, þar sem ég hef verið hér frá níu á morgnana til níu á kvöldin,“ útskýrir hún. Þema sýningarinnar eru mörkin á milli meðvitundar og meðvitundarleysis, þar sem draumar, martraðir og ofskynjanir koma við sögu. Áhorfandanum er boðið að ganga inn í óræðan heim þar sem ólíkar listgreinar mætast undir yfirskriftinni Transcendence, þar sem lagt er upp á að fara inn á mörk drauma og svefns og haldið er í ferðalag um þá handanveru sem er manninum hvort tveggja kunnugleg og framandi í senn. Þetta kann ef til vill að hljóma drungalega en Hildur segir aðð svo sé ekki endilega raunin, sýningin sé frekar björt. „Þú ræður auðvitað hvort þú hugsar um martraðir eða drauma. Þetta í raun bæði, það er eitthvað dimmt í þessu en bjart líka.“

Draumaheimur tískunnar  

Hugmyndin að sýningunni kom fyrst til Hildar í fyrra þegar hún var að vinna með blómaseyði og ástargaldra. „Í fyrra var ég að vinna með íslenskar jurtir og það að blanda réttu blómunum saman, svo þau mynduðu ástargaldur eða framakonuseyðinn, „power-spell“, sem á að auka sjálfsöryggi okkar og kraft. Núna langar mig hins vegar að vinna meira með róandi plöntur, eitthvað sem hjálpar til með svefn og eykur draumfarir. En það var þar sem þetta byrjaði.“

Hvernig tengir þú saman drauma og raunveruleika? „Fyrir mér er tíska svolítið eins og að búa til draumaheim. Hluti af þessu er vara sem þú þarft að klæðast og þarf að vera praktísk. Hin hliðin á því er þessi draumaheimur eins og ég sé hann. Ég hef mikinn áhuga á að skapa alls kyns heima með ólíku fólki,” útskýrir hún.

Ég er líka búin að vera að vinna með kerti sem innihalda þessar jurtir og það er mjög mikið af kertareffum í fötunum,“ segir Hildur og sýnir blaðamanni tvær flíkur sem hún hefur unnið út frá kertum. Á annarri þeirra hanga margir hvítir þræðir sem líkjast lekandi vaxi og á hinni spila kerti stórt hlutverk í mynstrinu.  

Galdur í listum 

Aðspurð hvort hún og samstarfsfólk hennar sé að fara að galdra á sýningunni segist hún ekki geta orðað það þannig. „Fyrir mér felst mikill galdur í listum. Mér finnst spennandi að stefna listformum saman til að skapa spennandi heim. Það verður hins vegar boðið upp á draumheimadrykk sem þau í Foss Distillery gera, með því að blanda saman blómadropum og íslenskum birkivodka.“ Hún þvertekur þó fyrir að þetta sé einhvers konar ofskynjunarlyf, meira í ætt við róandi blóamadropa. „Eins og ég segi þá er þetta eitthvað sem er hugsað til að hjálpa til við svefn og auka draumfarir, ekki ofskynjunarlyf. Ég er ekki að fara að eitra fyrir fólki,“ segir Hildur og hlær. Hún segist hafa verið í sambandi við seiðkonu sem heitir Kristbjörg og er frá Seyðisfirði. „Hún er blómadropasnillingur og ég hef nýtt mér hæfileika hennar á þessu sviði. Það er þannig þegar þú ert að vinna stór verkefni að það hjálpar að vera með valinn mann í hverju horni.“

Gengið inn í gjörning 

Að sýningunni standa einnig Saga Sigurðardóttir ljósmyndari, Daníel Björnsson myndlistarmaður, Máni Sigfússon vídeólistamaður, Jófríður Ákadóttir tónlistarkona og Valgerður Rúnarsdóttir danshöfundur. Opnun fer fram á föstudaginn kl. 20 í Læknaminjasafninu á Seltjarnaresi, frítt er inn og allir velkomnir. „Húsið verður opnað á slaginu átta og viðburðurinn hefst um leið þannig að fólk gengur beint inn í gjörninginn, sem stendur í 40 mínútur. Þetta verður ekki hefðbundin tískusýning en þarna verða módel, hljómsveit, dansarar og fleira sem á að koma á óvart.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár