Ég bjó ein með dætrum mínum. Sú eldri var fyrirmyndarbarn og unglingur, gekk rosalega vel í skólanum, var með allt sitt á hreinu og rosalega félagslega sterk. Hún var úrræðagóð og hafði mjög mikinn áhuga á heiminum og umhverfinu, kvik í hreyfingum. Hún var með sítt, þykkt og fallegt hár og geislaði af fegurð. Ef hún var ekki brosandi þá var þungt hugsi yfir heimsmálum. Mér fannst alltaf að hún ætti að vera með blóm í hárinu og friðarmerkið um hálsinn. Hún var svo sterk. Ég gat setið á rökstólum við hana og hún hvikaði hvergi. Systir hennar var fimm árum yngri, sæt og skemmtileg, en önnur týpa.
Ég var nýskilin við föður yngri dóttur minnar og var mjög meðvituð um að kynna ekki hvern sem er fyrir börnunum mínum. Síðan kynntist ég manni sem ég hafði heyrt talað um í mörg ár en hafði búið erlendis. Ekki leið á löngu þar til ég var orðin mjög ástfangin af honum og við vorum komin í samband. Við fórum stundum í bíltúra með stelpunum mínum og hann náði fram í þeim einhverri gleði og fíflaðist með þeim. Fljótlega fann ég að ég gæti treyst honum fyrir þeim. Þær bundust honum ofsalega fljótt og það urðu sterk tengsl á milli þeirra.
„Stundum sátum við saman og horfðum á sjónvarpið og þegar mér varð litið á hana sat hún og horfði á mig með hatur í augum.“
Sterk vinátta
Áður en árið var liðið áttaði ég mig á því að það væri of flókið fyrir mig að vera í sambandi við þennan mann því hann var mér ótrúr og það kom illa við mig. Við ákváðum að slíta sambandinu og vera vinir. Í kjölfarið varð til ofsalega djúp og góð vinátta á milli okkar. Mér fannst ég loks fatta hvað sálufélagi er. Það að verða ástfangin eða eiga góðan vin er í hvoru tveggja ofsalega léttvægt miðað við það sem hann var mér. Ég treysti honum fyrir öllum mínum málum.
Hann var eina manneskjan sem ég þekkti á þessu tímabili sem vissi hvað það var mér mikilvægt að dóttir mín fengi að vera áhyggjulaus unglingur. Ég varð sjálf ólétt þegar ég var fimmtán ára og vildi að dóttir mín fengi að vera áhyggjulaus og glöð að leika sér, ferðast um heiminn og mennta sig.
Svo fór þessi fyrirmyndar unglingur allt í einu að breytast. Hún fór að hreyta í mig þegar ég bannaði henni eitthvað. Stundum sátum við saman og horfðum á sjónvarpið og þegar mér varð litið á hana sat hún og horfði á mig með hatur í augum. Fram að þessu höfðum við alltaf verið mjög nánar. Ég hafði treyst henni til þess að haga sínu rétt og hún hafði aldrei brugðist því trausti, aldrei. Ég skildi ekki hvað var að gerast.
Hún horfði á mig og hataði mig.
Ég treysti þessum vini mínum fyrir því að barnið mitt væri að breytast, það væri eitthvað að gerast en ég vissi ekki hvað. Hann sagði mér að hafa ekki svona miklar áhyggjur, þetta hefði örugglega eitthvað með skólann að gera og benti mér á að hún hefði orðið mjög sár þegar hún varð skotin í strák sem reyndist vera frændi hennar. Hún væri bara miður sín vegna þess og ætti erfitt. Ég trúði því.
Athugasemdir