Ný lög um dómstóla festa í sessi kerfi þar sem dómarastéttin hefur eftirlit með sjálfri sér án þess að lúta með ótvíræðum hætti meginreglum stjórnsýsluréttar og kröfum um gagnsæi og virkt aðhald. Með lögunum er ekki brugðist við ábendingum umboðsmanns Alþingis um nauðsyn þess að setja stjórnsýslu dómstóla skýrari umgjörð með hliðsjón af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar né hefur verið tekið mið af ýmsum ábendingum GRECO, samtaka ríkja í Evrópuráðinu gegn spillingu, er snúa að íslensku dómstólakerfi. Þá er þess enn að bíða að leyst verði úr réttaróvissunni sem lengi hefur ríkt um eftirlitshlutverk umboðsmanns Alþingis gagnvart stjórnsýslu dómstóla.
Þann 26. maí síðastliðinn samþykkti Alþingi tvö lagafrumvörp sem miða að umbótum á réttarkerfinu og stjórnsýslu dómstóla, meðal annars með stofnun millidómsstigs og tilfærslu allrar stjórnsýslu dómstólanna undir nýja stofnun á vegum dómstólanna sem mun heita Dómstólasýslan. Með lagabreytingunum er tekið á ýmsu sem talist hefur til ágalla á íslensku dómstóla- og réttarkerfi en skautað framhjá öðrum atriðum. „Stjórnsýsla dómstólanna er í meginatriðum veikburða og sundurlaus,“ fullyrti Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands, í skýrslu um stjórnsýslu dómstólanna sem hann vann fyrir dómstólaráð árið 2011. Lítið hefur breyst síðan og ný dómstólalög taka ekki á göllum kerfisins nema að afar takmörkuðu leyti.
Athugasemdir