Þegar Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við læknadeild Háskóla Íslands, mætti til vinnu að morgni snemma í desember, eftir sína daglegu ferð í Vesturbæjarlaug, beið hennar happdrættisvinningur í tölvupósthólfinu frá Evrópska rannsóknarráðinu. Þar var henni óskað til hamingju með að hafa verið veittur 2 milljóna evra styrkur, jafnvirði 240 milljóna króna, til áframhaldandi rannsókna á erfðum heilsufars í kjölfar áfalla. Styrkurinn er sá hæsti sem ráðið veitir og kemur til með að ýta allhressilega undir rannsóknastarf sem á sér enga hliðstæðu annars staðar í heiminum, eða eins og Unnur orðar það sjálf: „Þetta breytir öllu fyrir okkur!“
Leið eins og gellunni í Flashdance
Flestir leiðandi vísindamenn í Evrópu sækja um styrk til Evrópska rannsóknaráðsins. Snemma á þessu ári bárust ráðinu um 2.300 umsóknir frá vísindamönnum frá öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Allar umsóknirnar sem berast fóru í gegnum umfangsmikið mat og í kjölfar þess voru um 600 vísindamenn boðaðir til frekari viðtala í september síðastliðnum. Unnur var þeirra á meðal. Hún er þaulvön því að kynna niðurstöður rannsókna sinna og að tala frammi fyrir fjölda fólks. Þrátt fyrir það segist hún aldrei hafa verið eins stressuð eins og þegar hún var komin til Brussel, stóð frammi fyrir 20 manna dómnefnd og kynnti rannsóknir sínar og fyrirætlanir. „Mér leið eins og gellunni í Flashdance. Af 20 manns í panel voru líklega þrjár konur, allir hinir voru karlmenn og flestir komnir vel yfir miðjan aldur.
„Ég hef varið doktorsritgerð og gert ýmislegt sem reynir á en ég held ég hafi aldrei verið eins stressuð.“
Það var ekki mikil gleði í salnum, sem var í hárri og grárri byggingu í Brussel. Það var móða á gluggunum, enda líklega búið að taka viðtal við tíu manns á undan mér þennan dag. Þegar ég var að ganga inn mætti ég dönskum vísindamanni sem muldraði á leiðinni út: „Þetta er búið, þetta er búið!“ Ég gekk inn með þetta í eyrunum og hitti þennan stóra panel sem var ekki beinlínis í stuði. Þar var ég með stutta 10 mínútna kynningu og svo grilluð í 20 mínútur. Ég hef varið doktorsritgerð og gert ýmislegt sem reynir á en ég held ég hafi aldrei verið eins stressuð. Þetta voru svo rosalega krefjandi og skrýtnar aðstæður. Ég fékk ekkert „feedback“ og hafði enga tilfinningu fyrir því hvernig ég stóð mig.“
Athugasemdir