Háskólinn á Bifröst ætlar ekki að veita hælisleitendum, sem fá inni í húsnæði á svæðinu, aðgang að heitum pottum og líkamsrækt. Nemendur og kennarar við skólann hafa sérstök aðgangskort til þess að nýta sér aðstöðuna en hinir nýju íbúar munu ekki fá nein slík. Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, segir nemendur borga fyrir aðgang að heitum pottum og líkamsrækt með skólagjöldum sínum og þá sé aðstaðan hluti af kjörum starfsmanna. Þessi þjónusta sé hins vegar ekki innifalin í leigunni sem Útlendingastofnuna greiði.
„Ekki hefur enn komið til tals hvort stofnunin vill greiða sérstaklega fyrir þessa þjónustu,“ segir Vilhjálmur sem viðurkennir að ákveðin mismunun sé fólgin í því að meina hælisleitendum að hafa aðgang að sömu þjónustu og aðrir íbúar svæðisins. Hann segir þessa mismunun þó einungis byggða á viðskiptalegum forsendum þar sem umrædd aðstaða sé í eigu skólans en ekki aðilans sem leigir út íbúðirnar. „Eina mismununin sem er í gangi er á viðskiptalegum forsendum þannig að þeir sem greiða fyrir þjónustu fá hana en aðrir ekki,“ segir Vilhjálmur í skriflegu svari við fyrirspurn Stundarinnar.
„Eina mismununin sem er í gangi er á viðskiptalegum forsendum þannig að þeir sem greiða fyrir þjónustu fá hana en aðrir ekki“
Fyrstu íbúarnir komnir
Líkt og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hefur Háskólinn á Bifröst samþykkt að leigja Útlendingastofnun sex íbúðir sem afhentar verða hælisleitendum með fjölskyldur.
Athugasemdir