Reykjanesbær hefur tekið ákvörðun um að loka Baklandinu, úrræði sem hefur staðið börnum til boða sem þarfnast aðstoðar sem þau geta ekki fengið heima hjá sér, um áramótin. Foreldrar barna sem nýta sér úrræðið hafa lýst yfir áhyggjum af þessu og telja að þær lausnir sem bæjaryfirvöld hyggist bjóða í staðinn dugi ekki til að bæta fyrir missinn.
„Eldri strákurinn minn, sem er 15 ára í dag, var í Baklandinu í nokkur ár. Það voru algjör bjargráð fyrir hann. Í Baklandinu voru nánast einu jákvæðu félagslegu samskipti hans við önnur börn. Yngri strákurinn minn, sem er níu ára, er með þrjár greiningar, Asperger, ADHD og Tourette. Hann er ofsalega flottur strákur og það eru engin vandamál með hann, þannig séð, nema þau að hann er ekki í neinum jákvæðum samskiptum við jafnaldra sína. Honum gengur vel í skólanum en hann er alltaf einn. Einu jákvæðu félagslegu samskipti hans við jafnaldra sína eru í Baklandinu,“ segir Harpa Erlu Júlíusdóttir. Hún hefur miklar áhyggjur af því að bæjaryfirvöld hyggist loka því um áramótin.
„Honum gengur vel í skólanum en hann er alltaf einn. Einu jákvæðu félagslegu samskipti hans við jafnaldra sína eru í Baklandinu.“
Í svari frá velferðarsviði Reykjanesbæjar við fyrirspurn Stundarinnar um ástæður lokunarinnar segir að sparnaður sé ekki ástæðan. Rekstrarkostnaður úrræðisins, fyrir utan húsnæði, sé 4,5 milljónir króna og ekki sé búist við að hann lækki, heldur komi hann fram í öðrum rekstrarliðum, svo sem í tilsjón, liðveislu, persónulegri ráðgjöf eða stuðningsfjölskyldum. Foreldrar þurfi engu að kvíða, því einstaklingsbundin þjónusta sem fari fram í nærumhverfi barnsins komi í staðinn. Harpa, aftur á móti, kvíðir breytingunum mjög. Hún segir að ekkert af þessu geti komið í staðinn fyrir það sem börn fái í Baklandinu. Bæjaryfirvöld taki ekki inn í myndina hversu mikilvæg þau félagslegu tengsl sem börnin fái í Baklandinu séu.
Ein af ástæðum þess að endurskoða á úrræðið, sem hefur verið við lýði frá árinu 2010, er að misjafnt hefur vel hversu vel það hefur verið nýtt. Tveir félagsráðgjafar á vegum Barnaverndar Reykjanesbæjar hafa veg og vanda af því og sextán börn nýta úrræðið í allt að sex stundir í viku hvert, yfirleitt tvisvar í viku. Það fer eftir þörfum þeirra hvað þau gera í Baklandinu. Þau fá kaffitíma, sum þeirra klára heimanámið þar á meðan önnur spila eða dunda sér við aðra hluti. „Þarna fá þau jákvæð félagsleg samskipti í góðu og rólegu umhverfi. Minn strákur, til að mynda, er mjög sterkur námslega og þarf ekki á heimanámsaðstoð að halda. Mér fannst mjög pirrandi þegar bæjarstjórinn okkar sagði í svari á Facebook að að börnin fengju heimanámsaðstoð annars staðar. Málið snýst ekkert um það. Heimanámsaðstoð er aðeins lítill hluti af Baklandinu.“
„Mér fannst mjög pirrandi þegar bæjarstjórinn okkar sagði í svari á Facebook að að börnin fengju heimanámsaðstoð annars staðar.“
Úrræði eins og liðveisla sé ekki svarið, í það minnsta ekki í tilviki sonar hennar. „Sonur minn er einn af þeim sem hefur án efa rétt á liðveislu. Auðvitað væri frábært ef hann fengi liðveislu en það kemur ekki í staðinn fyrir Baklandið. Hann er alltaf í fullorðinssamskiptum, annaðhvort við okkur, foreldra sinna eða ömmu sína og afa. Þau tengsl sem hann fær í Baklandinu eru honum lífsnauðsynleg. Þarna lærir hann félagsleg samskipti.“
Athugasemdir