Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

„Núna er ég barn með barn“

Stríðs­átök­in í Sýr­landi hafa marg­vís­leg áhrif á líf barna. Qam­ar er 14 ára stúlka sem flúði stríð­ið í Sýr­landi þeg­ar átök­in þar hóf­ust. Hún var ekki orð­in tólf ára þeg­ar hún var gerð að konu manns­ins sem hún býr núna hjá í Jórdan­íu.

Qamar er 14 ára stúlka sem flúði stríðið í Sýrlandi þegar átökin þar hófust. Hún eignaðist nýtt líf í Ramtha í Jórdaníu, þar sem hún býr núna með fjölskyldu mannsins sem gekk að eiga hana fyrir tveimur og hálfu ári síðan. Þá var hún ekki orðin tólf ára gömul. 

Hún er ekki ein. Samkvæmt upplýsingum frá barnahjálp Sameinuðu þjóðanna ganga 15 milljónir stúlkna í hjónaband á árinu, áður en þær ná 18 ára aldri. 

Starfsmenn Unicef ræddu við Qamar sem segist hafa gifst yngri en ella vegna átakanna í Sýrlandi. „Stúlkur gifast ungar í þorpinu okkar, en þetta gerðist fyrr en venjan er.“ Fjölskyldan lítur svo á að barnabrúðkaup séu leið til að vernda stúlkur. „Þá vita þær að það er litið eftir okkur.“

Jórdanía, 22. maí 2014
Jórdanía, 22. maí 2014 Qamar flúði átökin í Sýrlandi til Jórdaníu þar sem hún býr núna með manni sem tók hana sem eiginkonu. Hún var ekki orðin tólf ára þegar hún gekk í hjónaband.

Með eiginmanninum
Með eiginmanninum Stúlkur úr þorpinu hennar eru gjarna giftar ungar en litið er á það sem ávísun á öryggi, þá er allavega einhver sem lítur eftir þeim. Qamar býr núna á heimili eiginmannsins, með fjölskyldu hans.

Í fangi Qamar situr Raneem, ársgömul dóttir hennar. „Við erum heppnar,“ segir Qamar. „Það er öruggara hér en í Sýrlandi en mér finnst ég sitja föst í þessu húsi þar sem það er ekki pláss fyrir okkur öll.“

Stríðið í Sýrlandi hefur haft margvísleg áhrif á líf barna. Fátækt hefur aukist, ung börn eru farin að vinna og stúlkur eru giftar yngri en áður tíðkaðist. Tólf, þrettán ára stúlkur verða mæður, löngu áður en líkami þeirra er tilbúinn til að bera börn. Um helmingur barna í Sýrlandi hafa ekki lengur aðgang að menntun, búið er að loka 6.000 skólum, en árið 2015 voru 40 árásir gerðar á skóla. Þá eru fjölmörg börn á flótta, meðal annars í nágrannalöndunum Lebanon, Jórdaníu og Írak. 

„Það er öruggara hér en í Sýrlandi en mér finnst ég sitja föst í þessu húsi.“

Eins og Qamar. Hér áður fyrr taldi hún að með því að ganga í hjónaband myndi hún alltaf búa við betri aðstæður en á æskuheimilinu, en það varð ekki raunin. „Áður en ég gifti mig var ég ung og hafði engar skyldur.“ Hún bjó með foreldrum sínum og velti framtíðinni ekki mikið fyrir sér. „En eftir að ég gifti mig, ber ég ábyrgð, á litlu barni … Þetta er ekkert í líkingu við lífið sem ég lifði þegar ég var enn á lausu.“

Barnabrúðkaup í Jórdaníu og Sýrlandi eru oft tilkomin vegna fátæktar, þar sem stúlkurnar vonast eftir betra lífi eða eiga að létta á byrðinni í barnmörgum fjölskyldum. Yfirleitt er ákvörðunin um að láta unga stúlku ganga í hjónabönd tekin af þeim karlmanni sem er höfuð fjölskyldunnar. 

Í stríðsátökunum hefur áherslan á barnabrúðkaup aukist, meðal annars vegna þess að þá telja fjölskyldurnar sig vera að koma stúlkunum í meira öryggi. Það þýðir að fjölskyldur kanna síður bakland þeirra manna sem leitast eftir því að kvænast ungum stúlkum á flótta, sem eykur hættuna á að þær lendi í ofbeldisfullum samböndum eða erfiðum aðstæðum. 

Jórdanía, 13. febrúar 2016
Jórdanía, 13. febrúar 2016 Qamar er orðin fjórtán ára í dag og móðir. Fyrir ári síðan var dóttir hennar tekin með keisara en situr hér í fangi móður sinnar og leikur sér að dúkku.

Barn með barn
Barn með barn Qamar var þrettán ára þegar hún varð móðir. Hún segist hafa gift sig sem barn og nú sé hún barn með barn.

Dóttir Qamar situr í fangi móður sinnar og leikur sér að dúkkunni. Hún finnur fyrir ábyrgðinni sem fylgir því að vera móðir. „Ég var barn þegar ég gifti mig og núna er ég barn með barn,“ segir hún. Hún kann hvorki að lesa né skrifa og hefur ekki gengið í skóla síðan fjölskyldan flúði heimalandið.

Hún vonast til þess að dóttir sín fái menntun og að það verði eitthvað úr henni. „Ég vil ekki að hún giftist svona ung.“

Ætlar að passa upp á hana
Ætlar að passa upp á hana Qamar ætlar að gera allt sem í sínu valdi stendur til að dóttir sín fái menntun og tækifæri í lífinu. Hún vill ekki að hún gifti sig svo ung.

Sinnir heimilisverkum
Sinnir heimilisverkum Hér gengur Qamar frá þvotti, en hún segist bera mikla ábyrgð sem eiginkona og móðir.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár