„Bryndís bjargaði lífi mínu og ég er búin að þakka henni mjög fyrir það. Ég heyrði alveg lætin en ef hún hefði ekki kallað í mig hefði ég lent undir þessu,” segir Tinna Marín Sigurðardóttir og vinkona hennar, Bryndís Bridde, grípur orðið: „Þetta er búinn að vera skrýtinn dagur. Við erum líka búnar að fara í svo mörg viðtöl! Ég hef aldrei verið svona fræg áður!”
Þær hlæja báðar og það er mun léttara yfir þeim núna en fyrir nokkrum tímum, þegar þær voru hársbreidd frá því að lenda undir þungu hlassi frá byggingakrana yfir planinu Bæjarins bestu í miðbæ Reykjavíkur. Þær voru í hádegishléi úr Kvennaskólanum, sátu á bekk og voru nýbúnar að sporðrenna hvor sinni pylsunni þegar Bryndís sá kranann yfir þeim byrja að gefa sig.
Athugasemdir