Ég var fimmtán ára þegar ég fékk að halda partí á gamlárskvöld. Þar vorum við fullir fimmtán ára krakkar og allskonar dramatík í gangi þegar vinur fjölskyldunnar birtist klukkan fjögur að nóttu og sagðist hafa gleymt myndavélinni.
Ég var full og grenjandi þegar hann kom og hann tók mig í fang sér. Síðan svaf hann hjá mér. Hann var 39 ára. Hann lagði strax mikla áherslu á að ég myndi ekki segja neinum frá því sem gerðist, því það myndi enginn skilja hvað það væri fallegt.
Allt sem hann sagði var það sem ég þurfti að heyra til að líða vel. Hann spurði númer hvað ég notaði af gallabuxum og þá var ég akkúrat í réttri stærð. Það var alltaf eitthvað svona. Síðan var hann alltaf að gefa mér allskonar gjafir, geisladiska, skartripi og seinna gaf hann mér dóp. Með honum leið mér alltaf eins og ég væri miðpunktur alheimsins.
Hann hafði líka lag á því að birtast þegar við þurftum ótrúlega mikið á honum að halda. Eins og þegar mamma fór á spítala á aðfangadag og ég vaknaði ein í húsinu, amma hafði farið með henni og afi var á vakt. Þá kom hann bara.
Ég vissi ekki að mamma hefði hringt á leiðinni úr sjúkrabílnum og beðið hann um að vera hjá okkur. Hann bara birtist. Þannig var það alltaf með hann. Hann birtist þegar þess var þörf. Hann var alltaf til staðar og alltaf með okkur. Eins og þegar ég fékk einkunnirnar eftir samræmdu prófin. Þá kom hann með blóm handa mér en mamma var ekki heima.
„Hann sagði við mig að hún væri enn ástfangin af honum og þess vegna vildi hún taka hann frá mér.“
Barðist gegn því að fara frá mömmu
Áður en þetta gerðist hafði ég sofið hjá einum strák. Ég var bara fimmtán og hafði aldrei upplifað neinar tilfinningar sem voru sterkari en það þegar gæludýrið mitt dó. Þetta var aldrei þvingað kynlíf. Ég var aldrei beitt líkamlegu ofbeldi, en hann var búinn að vinna í mér, benda mér á gallana hennar mömmu.
Honum tókst að sannfæra mig um að mamma væri afbrýðissöm út í mig. Ég trúði því til dæmis að hún væri enn að ganga á eftir honum varðandi kynlíf. Hann sagði við mig að hún væri enn ástfangin af honum og þess vegna vildi hún taka hann frá mér. Ef hún fengi hann ekki, fengi hann engin.
En það var ekki bara það. Hann fékk mig líka til þess að trúa því að hún hefði aldrei viljað eiga mig.
Ég vissi að mamma hafði verið á undan í skóla og átt framtíðina fyrir sér þegar hún varð ólétt að mér fimmtán ára. Ég trúði því að hún hefði frekar viljað gefa mig en eiga mig. Allt sem hann sagði rímaði við það hvernig hún talaði, en hann gaf því aðra merkingu.
Ég barðist gegn því að fara frá henni. Ég fann hvað var að gerast og vildi það ekki. Ég man þegar hún gaf mér pils og ég skreið upp í til hennar. Það er síðasta minningin mín af okkur saman. Fólk á ekkert oft svona samband eins og við mamma áttum, en það er eins og hann hafi ætlað að taka það.
Athugasemdir