Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Veiran í tveim víddum

Sum fyrirbæri mannlífsins eru þannig vaxin að ein mæling dugir, a.m.k. til hversdagsnota. Hversu há er Esjan? Hver var hitinn í Reykjavík í hádeginu? Hvað sagði vigtin í morgun?

Önnur fyrirbæri þarf að skoða í tveim víddum eða fleiri. Þetta á við meðal annars um ástand og horfur í heimsfaraldrinum. Fjöldi greindra og skráðra smita hrekkur skammt í samanburði milli landa þar eð ólík lönd ganga mislangt í smitprófum.

Fjöldi skráðra dauðsfalla af völdum veirunnar er gagnlegri mælikvarði þar eð misskráning dauðsfalla er trúlega lítilvægt vandamál víðast hvar um heiminn. Ekki er þetta þó alveg víst þar eð sums staðar kunna ef til vill að vera einhver brögð að því að veirunni sé kennt um dauðsföll af öðrum völdum. Og sums staðar kunna óheiðarleg stjórnvöld að reyna að leyna fjölda dauðsfalla fyrir almenningi og heimsbyggðinni eins og komið hefur á daginn í Íran.

Allt að einu er ekki nóg að telja bara uppsafnaðan fjölda dauðsfalla frá byrjun faraldursins. Þær tölur sýna að Belgía er efst á listanum með 850 dauðsföll á hverja 100.000 íbúa (eða 0,85 prómill, þ.e. 0,85‰), þar næst Bretland með 680 dauðsföll (0,68‰), þá Spánn með 609 (0,61‰), Perú með 600 (0,60‰), Ítalía með 582 (0,58‰), Svíþjóð 568 (0,57‰), Síle 507 (0,51‰) og Bandaríkin 480 (0,48‰). Hér eru evrópsku örríkin San Marínó (1,2‰) og Andorra (0,67‰) skilin út undan. Til samanburðar er íslenzka talan 0,03‰ þar eð tíu dauðsföll til þessa í 360,000 manna samfélagi jafngilda um 30 á hverja milljón íbúa.

Þessar tölur hafa verið notaðar til að benda á að dauðsföll í Bandaríkjunum eru enn sem komið er færri miðað við mannfjölda en í þeim sjö Evrópulöndum og tveim Suður-Ameríkulöndum sem eru ofar á listanum og einnig til að benda á mun fleiri dauðsföll í Svíþjóð en annars staðar um Norðurlönd. En þá er bara hálf sagan sögð.

Þessar tölur um uppsafnaðan fjölda dauðsfalla á hverja 100.000 íbúa eru hæpinn grundvöllur einar sér vegna þess að þær eru á fleygiferð. Mestu varðar að Bandaríkin þjóta upp eftir listanum vegna þess að þar hefur mistekizt að hemja útbreiðslu veirunnar, einkum fyrir handvömm ríkisstjórnar Trumps forseta og einstakra fylkisstjórna sem hafa gert lítið úr vandanum frá byrjun og misst faraldurinn úr höndunum. Bandaríkin munu næstum örugglega sigla fram úr Síle innan skamms. 

Á hverjum degi látast nú um þúsund manns í Bandaríkjunum af völdum veirunnar borið saman við rösklega sex manns á dag í Svíþjóð og tæplega átta manns á dag á Ítalíu. Miðað við íbúafjölda eru dauðsföllin á degi hverjum rösklega fimm sinnum fleiri í Bandaríkjunum en í Svíþjóð og sex sinnum fleiri í Svíþjóð en á Ítalíu. Munurinn á Bandaríkjunum og Ítalíu, þar sem faraldurinn var einna skæðastur í byrjun, er því þrítugfaldur.

Með sama áframhaldi stefna Bandaríkin efst á listann þegar líður fram á haust. Í Evrópu og víða í Asíu hafa stjórnvöld staðið sig miklu betur og þar hefur því dregið úr faraldrinum þótt nýlega hafi nýjar blikur birzt á lofti sem benda til að ný bylgja kunni að vera í uppsiglingu líkt og gerðist í spænsku veikinni fyrir hundrað árum. Enn meiri óvissa ríkir um Suður-Ameríku og Afríku.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni