Vanhæfi í Hæstarétti
Þessi grein okkar Lýðs Árnasonar læknis og kvikmyndagerðarmanns og Þórðar Más Jónssonar landsréttarlögmanns birtist í Fréttablaðinu á fimmtudaginn var, 18. febrúar. Þar eð hún hefur ekki enn verið birt á vefsetri Fréttablaðins þykir okkur rétt að birta hana hér svo að lesendur geti deilt henni og dreift að vild. Greinin hljóðar svo:
Hæstiréttur hefur undangengin 20 ár fellt nokkra dóma varðandi fiskveiðistjórnarkerfið. Fyrsti dómurinn tók mið af stjórnarskrá og fyrirliggjandi lagaákvæðum, en dómarnir sem á eftir fóru vitna um undanhald Hæstaréttar undan pólitískum þrýstingi. Draga má í efa hæfi flestra dómaranna sem felldu síðari dómana um fiskveiðistjórnina svo sem nú verður lýst.
Valdimarsdómurinn
Dómur Hæstaréttar í Valdimarsmálinu 1998 markaði tímamót. Valdimar Jóhannesson blaðamaður hafði kært þá ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins að synja honum um leyfi til veiða og flutti mál sitt sjálfur í Hæstarétti þótt ólöglærður sé og hafði fullan sigur gegn ríkinu. Ræða Valdimars er merk réttarsöguleg heimild. Dómararnir fimm, reyndustu dómarar réttarins þá (Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Pétur Kr. Hafstein), voru á einu máli um að fiskveiðistjórnarlögin frá 1990 brytu gegn jafnræðisreglu og atvinnufrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar. Útvegsmenn og erindrekar þeirrar á Alþingi brugðust ókvæða við. Forsætisráðherra varaði við landauðn fengi dómurinn að standa.
Vatneyrardómurinn
Alþingi brást við með því að breyta fiskveiðistjórnarlögunum til málamynda án þess að hnika efnislega þeirri mismunun og frelsisskerðingu sem Hæstiréttur hafði úthýst í Valdimarsdóminum. Nú voru tveir sjómenn sem höfðu róið til fiskjar í góðri trú eftir Valdimarsdóminn ákærðir og fundnir sekir í Hæstarétti 2000. Bátur annars þeirra hét Vatneyrin. Dóminn felldu Garðar Gíslason, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein, en Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson skiluðu séráliti í samræmi við Valdimarsdóminn frá 1998, og það gerði einnig Hjörtur Torfason.
Tveir dómaranna sem höfðu fellt Valdimarsdóminn (Garðar og Pétur) höfðu snúið við blaðinu og sáu nú hálfu öðru ári síðar ekkert athugavert við fiskveiðistjórnina þótt óbreytt væri í aðalatriðum. Tveir aðrir dómarar (Guðrún og Haraldur) héldu fast við fyrri skoðun. Einn fór bil beggja (Hjörtur). Enginn þessara dómara virðist hafa séð neitt athugavert við hæfi sitt til að fjalla aftur um mál sem þeir höfðu nýfjallað um. Tónninn hafði verið sleginn.
Um líkt leyti höfðaði ákæruvaldið mál gegn tveim öðrum sjómönnum, Erlingi Sveini Haraldssyni og Erni Snævari Sveinssyni, fyrir að hafa róið til fiskjar. Hæstiréttur fann einnig þá seka.
Dómurinn gegn mannréttindanefndinni
Fórnarlömb Hæstaréttar undu ekki þessari heimabökuðu lögleysu. Þeir Erlingur og Örn lögðu málið fyrir mannréttindanefnd SÞ sem úrskurðaði þeim í vil með bindandi áliti 2007. Nefndin beindi þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að þau nemi brott mannréttindabrotaþáttinn, þ.e. mismununina, úr fiskveiðistjórninni og greiði sjómönnunum tveim skaðabætur. Stjórnvöld gerðu hvorugt.
Tíminn leið og ekkert bólaði á þeim skaðabótum sem mannréttindanefndin hafði mælt fyrir um handa Erlingi og Erni. Þá höfðaði Örn mál gegn ríkinu og krafðist bótanna auk miskabóta. Hæstiréttur vísaði málinu frá 2011 og bar við vanreifun. Hæstiréttur leyfði formkröfum varðandi skýran málatilbúnað að trompa lagalega réttlætishlið málsins sem mannréttindanefnd SÞ með 18 af helstu mannréttindasérfræðingum heimsins innan borðs hafði búið upp í hendur sjómannsins. Dóminn felldu Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson, tveir síðar nefndu úr Eimreiðarhópnum og allir skipaðir í Hæstarétt af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Garðar hafði áður snúið við blaðinu í Vatneyrardóminum og Gunnlaugur hafði verið ríkislögmaður og þurft sem slíkur að verja málstað ríkisins fyrir rétti.
Þegar mannréttindanefndin gekk eftir viðbrögðum ríkisins við fyrirmælum nefndarinnar um bót og betrun lofaði sjávarútvegsráðherra nýrri stjórnarskrá með auðlindaákvæði sem myndi leysa vandann. Þetta loforð hefur ríkið ekki enn efnt. Þjóðkjörið stjórnlagaráð stóð þó í stykkinu með því að leggja til auðlindaákvæði sem svarar kalli mannréttindanefndarinnar og sem 83% kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá 2012.
Ógilding stjórnlagaþingskosningarinnar
Ætla mætti í ljósi þess sem á undan var gengið að Hæstiréttur reyndi að stíga varlega til jarðar þegar kærur þriggja sjálfstæðismanna vegna stjórnlagaþingskosningarinnar 2010 komu til kasta réttarins. Enda höfðu nær allir þeir sem náðu kjöri lýst þeirri skoðun að ákvæði um auðlindir í þjóðareigu ætti heima í nýrri stjórnarskrá.
Og þá gerist það að sex hæstaréttardómarar, allir nema einn með skipunarbréf frá dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins, úrskurða kosninguna ógilda á sannanlega röngum forsendum. Er það í eina skiptið sem þjóðkjör hefur verið lýst ógilt í vestrænu lýðræðisríki. Hæstiréttur gekkst við villu sinni 2012 þegar hann vísaði hliðstæðri kæru frá með þeim rökum að ekki beri að ógilda kosningar nema ágallar hafi haft efnisleg áhrif á úrslitin.
Dómararnir sex voru Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson og hafa þrír þeirra þegar komið við sögu þessa máls. Um hina er þetta að segja. Árni Kolbeinsson hafði áður verið ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu og sem slíkur eins konar framkvæmdastjóri kvótakerfisins. Viðar Már Matthíasson er bróðir eins stórtækasta kvótaþega landsins og aðaleiganda Morgunblaðsins. Páll Hreinsson er hinn eini í dómarahópnum sem ekki gat talist vanhæfur í skilningi laga til að fjalla um ógildingarkærurnar.
Makríldómurinn
Nokkru síðar bar svo við að útvegsfyrirtæki í eigu systur eins hæstaréttardómarans stefndi ríkinu og krafðist skaðabóta vegna þess að skipum félagsins hefði verið úthlutað minni kvóta en skylt væri. Héraðsdómur hafnaði kröfunni en Hæstiréttur sneri dóminum við 2018 og dæmdi ríkið skaðabótaskylt. Dóminn felldu Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Þorgeir Örlygsson. Árni Kolbeinsson er auk þess sem áður sagði faðir fv. framkvæmdastjóra LÍÚ og Karl Axelsson er fv. lögmaður LÍÚ.
Vanhæfi og siðferði
Sögunni sem við höfum rakið hér að framan og einskorðast við einn málaflokk er ætlað að leiða lesandanum fyrir sjónir að við það er ekki lengur búandi að hæstaréttardómarar úrskurði sjálfir um hæfi sitt til að kveða upp dóma. Dómarar hafa með háttalagi sínu kallað vansæmd yfir Hæstarétt og Ísland. Skýrslur Gallups sýna að tveir af hverjum þrem Íslendingum vantreysta dómskerfinu.
Nýja stjórnarskráin sem 67% kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 og Alþingi á enn eftir að staðfesta tekur á þessum grafalvarlega vanda með því að herða þær kröfur sem gera verður til dómara. Önnur ákvæði nýju stjórnarskrárinnar sem er ætlað að skera upp herör gegn spillingu með skýrari valdmörkum og öflugra mótvægi ættu einnig með tímanum að geta stuðlað að skárra siðferði í Hæstarétti og minna ranglæti.
Athugasemdir