Samsæriskenningar 2.0.
Eins og áður hefur komið fram eru heimspekikenningar Karls Poppers engan veginn gallalausar. En ýmislegt er vel athugað fræðum hans, ekki síst gagnrýni hans á samsæriskenningar.
Sú gagnrýni á einkar vel við á vorum tímum þar sem allra handa samsærisvitleysa veður upp á Netinu.
Popper um samsæriskenningar
Popper segir að samsæriskenningasmiðir trúi því að mannkynssagan sé saga samsæra, Gyðingar eða yfirstéttir ráði gangi mála bak við tjöldin.
En gallinn sé sá að veröldin er líklega of flókinn til að breyta megi gangi hennar róttækt með samsærum. Nasistarnir reyndu það en þeim mistókst.
Í ofan á lag séu litlar líkur á að hægt sé halda stórfelldum samsærum leyndum í opnu, frjálsu og lýðræðislegu samfélagi (Popper 1962b: 94-96).
Nixon framdi samsæri til að dylja innbrotið í Watergate-bygginguna en blaðamenn afhjúpuðu það. Afleiðingarnar urðu þær að forsetinn varð að hrökklast frá völdum.
Hvers vegna er erfitt að stjórna gangi sögu og samfélaga? Svar Poppers er að athafnir manna einatt óætlaðar afleiðingar, því víðfeðmari sem athafnirnar séu, því meiri líkur á óætluðum afleiðingum.
Napoleon ætlaði að verða herra Evrópu en óætluðu afleiðing gjörða hans var sú að með franska hernum fylgdu frelsishugmyndir byltingarinnar 1789. Hafandi uppgötvað ágæti frelsisins höfnuðu Evrópubúar forræði Napóleons.
Athugum annað dæmi, djúpar efnahagskreppur. Þær stafa venjulega af óætluðum afleiðingum af gjörðum milljóna manna sem ætluðu sér að þéna pening, ekki valda kreppum.
Samsæri til að stjórna öllum heiminum og þróun sögunnar mun að líkindum hafa ógnarmargar óætlaðar afleiðingar og líklegt að þær komi í veg fyrir að samsærismenn nái markmiðum sínum.
Popper segir að frá því að einblína á uppruna kenninga sé skammur vegur til þess að taka manninn, ekki rökin, “iss þetta segir þú bara af því þú ert af yfirstétt/ert kona”.
Tali maður svona tekur maður ekki viðmælanda sinn alvarlega og þá er freisting að þagga niður í honum með boðum og bönnum. Samsærishyggjan geti haft stjórnlyndar afleiðingar (Popper 1994: 8-17, Popper 2009: 34-41).
Alla vega trúðu bæði nasistar og stalínistar á samsæriskenningar eða létust a.m.k. trúa þeim. Þær voru handhægt tæki til að kúga menn og þrúga, og myrða.
Enn um eymd samsæriskenninga
Í ofan á lag svífa samsæriskenningar oftast í lausu lofti eða eru sannanlega rangar. Til dæmis virðist ekki flugufótur fyrir samsæriskenningum um kórónufaraldurinn.
Einnig má nefna að Joel Levy tekur samsæriskenningar á beinið í læsilegu kveri og leiðir getum að því að flestar þeirra séu út í hött, þótt stundum sé flugufótur fyrir þeim (Levy 2005).
Hann tekur m.a. sem dæmi kenninguna um að alnæmisveiran hafi verið búin til af bandarískum yfirvöldum til að klekkja á minnihlutahópum. Það skýri ekki þá staðreynd að alnæmi eigi sér fornar rætur, ástæða sé til að ætla að sjúkdómurinn hafi látið á sér kræla upp úr 1950.
En þess séu dæmi að bandarísk yfirvöld hafi notað fólk af minnihlutahópum sem tilraunadýr fyrir læknisfræðilegar tilraunir (Levy 2005). Hið síðarnefnda er væntanlega flugufóturinn.
Sá er hængur á að Levy vitnar hvergi beint í heimildir. Því má velta fyrir sér hvort boðskapur hans sé marktæknur.
En boðskapur tveggja norskra sérfræðinga í slíkum kenningum virðist öllu traustari. Þeir Asbjørn Dyrendal og Terje Emberland vísa í rannsókn sem sýnir að samsæristrúarmenn séu gjarnir á að hafa mótsagnarkenndar skoðanir.
Þeir sem trúa því að Diana prinsessa hafi sviðsett „dauða“ sinn, trúa því líka að hún hafi verið myrt á sama tíma og stað og sviðsetningin átti að hafa farið fram (Dyrendal og Emberland 2019: 31).
Þetta bendir til þess að samsæristrúarmenn séu almennt fáfróðir, illa gefnir eða truflaðir á geði (sem þýðir ekki að þeir geti aldrei rambað á sannleikann). Enda eru geðveikrarhæli full af fólki með ofsóknarbrjálæði en það sér samsæri í hverju horni.
Samsæristrúarmenn eru yfirleitt illa upplýstir, þeir skilja ekki að atburði í mannheimum megi einatt skýra út frá formgerðum og óætluðum afleiðingum gjörða manna. Þeir eru lítilla sæva, lítilla sanda.
Reyndar hefur Jóhannes Björn Lúðvíksson sett fram mjög áleitnar samsæriskenningar um það hvernig falið vald stjórni okkur bak við tjöldin. Hann er eini samsæriskenningarsmiður sem ég nenni að taka alvarlega. Hann virðist alla vega vitna í heimildir eins og sést í bók hans Falið vald (Jóhannes Björn 1979).
Vandinn er sá að bók Jóhannesar Björns hefur nánast örugglega ekki verið ritrýnd, lítið var um slíkt þegar bókin kom fyrst út og forlagið tæpast haft bolmagn til þess. Það þýðir að við getum ekki verið viss um að höfundur vitni í raunverulegar heimildir eða skýri rétt frá innihaldi þeirra.
Þess utan athugar hann ekki að ef samsæri eru á bak við hvað eina þá gætu óprúttnir samsæristrúarmenn hafa falsað upplýsingar í stórum stíl. Það kann að gilda um allar þær upplýsingar sem Jóhannes Björn telur gjaldgengar heimildir.
Þess utan kann annar samsæriskenningasmiður að bera það á Jóhannes Björn að hans skrif séu liður í samsæri! Sök bítur sekan.
Hið sama gildir um allar samsæriskenningar, það má alltaf halda því fram að ef flestu er stjórnað af samsærum þá séu þessar kenningar bara liður í samsæri. Þannig grafa samsæriskenningarsmiðir undan eigin rökum.
Lokaorð
Eðlilegt er því að gera ráð fyrir að sönnunarbyrðin hvíli á þeim sem trúir á samsæriskenningar Það þýðir ekki að samsæri eigi sér aldrei stað, nasistar frömdu samsæri gegn lýðræðinu, fyrir því höfum við marktækar sannanir.
Ekki má gleyma því að samsæri í smáum málum geta hæglega tekist enda stunda menn smásamsæri á degi hverjum.
Popper gerði vel í að vara okkur við hættunum sem stafa af samsæristrúnni.
Heimildir:
Dyrendal, Asbjørn og Emberland, Terje 2019: Hva er konspirasjonsteorier? Ósló: Universitetsforlaget.
Jóhannes Björn 1979: Falið vald. Reykjavík: Örn & Örlygur.
Levy, Joel 2005: The Little Book of Conspiracies. Thunder Mouth Press.
Popper, Karl 1962b: The Open Society and its Enemies. Volume II: Hegel and Marx. Princeton, New Jersey: Princeton University Press.
Popper, Karl 1994: Conjectures and Refutations. London: Routledge & Kegan Paul (upprunalega útgefin 1963).
Popper, Karl 2009: Ský og klukkur (þýðandi Gunnar Ragnarsson) Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Eins skrítið og það nú er, að fasistar eru skíthraddir við samsaeriskennigar .
Því samsaeri sumra raetist eins og sannaðist í striði fasistana í þískalandi nasismans svo dami sé takið .
Svo stundum eru samsaeriskennigar nauðsinlegar eða hvað