Popper og Kuhn: Eldurinn og vatnið
Um þessar mundir eru 115 ár síðan heimspekingurinn Karl Popper fæddist og 95 ár síðan vísindaheimspekingurinn og –sagnfræðingurinn Thomas Kuhn var í heiminn borinn. Þeir leiddu saman hesta sína á frægri ráðstefnu í London árið 1965 og voru ósammála um eðli vísindanna. Fyrst mun ég ræða það helsta sem greinir kenningar þeirra að, svo mun ég vega að furðukenningu íslenskra frjálshyggjumanna um að þeir hafi „eiginlega“ verið sammála.
Gjáin milli Poppers og Kuhns
Hér romsa ég upp því helsta sem skilur pælingar þeirra Poppers og Kuhns:
1. Popper segir að kenningin sé burðarás vísinda, Kuhn að viðtakið (e. paradigms) sé það. Viðtak spannar kenningar, heimssýn, virknishætti og skólasdæmi um lausn vísindagátna (e. scientific puzzles). Sérhvert viðtak hafi sínar leikreglur, sínar aðferðir, sína heimssýn. Viðtakið er eins og menningarheimur og tungumál. Þegar nýtt viðtak taki við í tiltekinni vísindagrein er eins og vísindamenn verði fyrir skynhvörfum (e. gestalt switch). Þeir sjái „sömu“ staðreyndir með nýjum hætti rétt eins og maður sem allt í einu sér héra í héraandarmynd, hafandi áður séð önd í henni. Vísindamenn sem vinna með viðtak að leiðarljósi ástundi smáatriðahjakk, Kuhn kallar þá "venjuvísindamenn" (e. normal scientists).
2. Að sögn Kuhns er smáatriðahjakk venjuvísindamannsins ein af forsendum þess að vísindabyltingar geti átt sér stað. Popper hefur enga trú á smásmygli, vísindin þróist í krafti víðfeðmra kenninga.
3. Popper telur að dirfska í kenningasmíð sé aðal vísinda, Kuhn að án þrjósku þróist vísindin ekki. Þrjóskan birtist m.a. í því að neita að gefast upp á spennandi kenningu bara af því að hún virðist afsönnuð. En Popper telur það af og frá, vísindamönnum beri að reyna að hrekja kenningar og gera kenningar sínar hrekjanlegar.
4. Hrekjanleiki er burðarásin í kenningum Poppers, ekki í hugarheimi Kuhns. Viðtökin eru ekki hrekjanleg að hans mati, ekki frekar en leikreglur taflsins. Í vissum skilningi er hugtakið um hrekjanleika inntakslaust, samkvæmt speki Kuhns. Hann segist efast um að hrekjanleiki sé mögulegur. Beinum orðum segir hann: „Ef ósamræmi væri ætíð ástæða til að hafna kenningu yrði ávallt að hafna öllum kenningum. Ef aftur á móti einungis alvarlegt ósamræmi réttlætir að kenningu sé hafnað yrðu Popperssinnar að hafa einhvern mælikvarða á „ólíkindi“ og „afsönnunarstig“. Telja má víst að við leitina að þessu myndu þeir rata í sömu ógöngur og hrjáð hafa fylgismenn hinna ýmsu sannreynslukenninga sem byggðar eru á líkindum“ (Kuhn (2015): 298-299)(Kuhn (1970a): 146-147).
5. Popper taldi frjálsa rökræðu og víðsýni kennimark góðra vísinda. Gagnstætt því segir Kuhn að þröngsýni og blind trú á frumforsendur sé oftast af hinu góða í venjuvísindum (e. normal science). Með því að gefa sér að vissar forsendur séu sannar leysist mikil orka úr læðingi, orka sem annars hefði farið í deilur um frumforsendur. Venjuvísindin eru hryggjarstykkið í vísindunum að mati Kuhns, viðtakið (e. paradigm) inniheldur þessar frumforsendur sem ekki eru rökræddar. Vissulega leiki slíkar rökræður mikilvægt hlutverk í því sem Kuhn nefnir „byltingarvísindi“ en þau séu röklega háð venjuvísindum. Með smáatriðahjakki sínu afhjúpi venjuvísindamenn hægt og sígandi veilur viðtaka, það opni byltingarmönnum leið. Þó geti byltingar átt sér stað upp úr þurru, til dæmis ef ungir vísindamenn verða leiðir á ríkjandi viðtaki þótt ekki virðist það meingallað. Leiðarhnoðið fylgir engri átt.
6. Vopnabróðir Poppers, John Watkins sagði að venjuvísindi geti ekki verið grundvöllur vísinda og kenningin um skynhvörf sé lítils virði (Watkins (1970): 25-37). Popper hafi réttilega sagt að vísindi væru í samfelldu byltingarástandi. Kuhn hafi ranglega talið að byltingar gerðust ekki nema endrum og sinnum. Popper varar við venjuvísindum, rétt eins og Watkins. Venjuvísindamenn væru vorkunnverðir, það séu byltingarvísindamenn sem blífa. Þeir setji fram djarfar tilgátur með miklu afsönnunargildi og séu óhræddir við að gagnrýna og hrekja eigin kenningar (Popper (1970): 51-58).
7. Að mati Poppers geta vísindakenningar nálgast sannleikann, Kuhn telur ekki frjótt að gera ráð fyrir slíkri nálgun. Í viðtali segir Kuhn beinum orðum: „Popper was constantly talking about how later theories embrace the earlier theories, and I thought that it was not just going to work out quite that way. It was too positivist for me.“ (Kuhn (2000d): 286). Ekki sé hægt að bera viðtök saman nema að takmörkuðu leyti, að sögn Kuhns, þau eru ósammælanleg (e. incommensurable). En það er ekkert rúm fyrir ósammælanleika í huga Poppers, vel má bera kenningar saman, athuga hver hefur mesti sannleikslíki (e. verisimilitude, truthlikeness).
8. Popper var gallharður alhyggjumaður, Kuhn hið gagnstæða. Á sínum yngri árum stóð hann nálægt afstæðishyggju, vísindalegur sannleikur sé afstæður við viðtök. En á síðari árum virðist hann hafa reynt að þræða meðalveginn milli afstæðis- og alhyggju.
9. Kuhn hélt því fram að vísindaleg þekking væri að verulegu leyti þögul þekking (e. tacit knowledge), þ.e. þekking sem ekki verður tjáð í staðhæfingum (ég þekki andlit vina minna án vandræða en vefst tunga um tönn ef ég á að lýsa þeim). Popper var þeirrar hyggju að vísindaleg þekking væri einvörðungu staðhæfinga-þekking.
10. Popper leitar að hinu heilaga grali vísindanna, forskriftinni að góðum vísindum. Kuhn hefur enga trú á þeirri leit, mismunandi (eða engar) forskriftir hæfa mismunandi viðtökum. Þau komi og fari í tímans rás, til að skilja vísindin verður maður að þekkja sögu þeirra. Að svo miklu leyti sem til séu allsherjar mælikvarðar á góð vísindi sé um að ræða gildi (e. values), segir Kuhn. Gildi á borð við víðfeðmi, nákvæmni, og einfeldni, Kuhn nefnir ekki afsönnunarleika, meginblæti Poppers. Vísindamenn túlki þessi gildi og ljái þeim vægi í ljósi sinna viðtaka og kenninga.
11. Popper greindi skarplega milli kringumstæðna uppgötvunar (e. context of discovery) og rökgerðar vísindanna (e. logic of science). En samkvæmt kokkabókum Kuhns er vísindakenning óskiljanleg nema hún sé staðsett innan tiltekins viðtaks eða byltingarástands. Þekkja verður upprunan til að meta gildið og matið er afstætt við viðtök, segir Kuhn. Til þess að ljá uppgötvun Röntgens samsemdina “uppgötvun Röntgengeisla” verða menn að þekkja samhengið, viðtakið (Kuhn (1970a): 57-58). Í öðru viðtaki hefði “sama” uppgötvun fengið aðra samsemd, jafnvel þótt vísindamaðurinn hefði heitað Röntgen! Ég hugsa að þetta megi skýra með dæmi úr skák: Tiltekin staða í skák fær samsemdina “þrátefli” í ljósi þess sem áður hefur gerst, þessi staða hefur komið upp tvísvar áður. Samsemdin er háð sögunni og hið sama gildir um samsemdir vísindalegra athugana, uppgötvana og kenninga. Popper sagði aftur á móti að engu skipti hvernig eða hvenær uppgötvunin hefði verið gerð, aðalmálið væri hvort kenningin væri afsannanleg, afsönnuð eða hvort hún hefði lifað afsönnunartilraunir af. En Kuhn hafnar sem sagt hugmyndinni um almenna rökgerð vísinda, ekkert vit er í því að segja stórsögu vísinda, bara einsögur viðtaka.
12. Popper segir að vísindaspeki sín sé aðallega normatíf, boðandi, tillögur um hvernig góð vísindi eigi að vera. Þetta er andstætt speki Kuhns, því samkvæmt henni skapar sérhvert viðtak að nokkru leyti sína eigin aðferðarfræði. Því sé ekkert vit í að setja fram tillögur sem hæfi öllum vísindum. Kuhn leggur megináherslu á lýsingu á vísindunum en eins og áður segir játar hann að það sé normatífur (boðandi) þáttur í speki sinni enda sé ekki alltaf hægt að greina skarplega milli lýsinga og forskrifta (nánar um það síðar). Gagnstætt því sagði Popper að djúp væri staðfest milli lýsinga og gildismats (t.d. Popper (1962): 383-386).
Samherjakenningin
Engan skyldi undra þótt Popper og Kuhn hafi tekist á, því eins og sjá má eru flestar kenningar þeirra harla ólíkar. Þá vaknar spurningin hvers vegna velmenntaðir frjálshyggjumenn á Íslandi fengu þá flugu í höfuðið að þeir hefðu verið í megindráttum sammála. Popper hafi búið til forskriftir fyrir góð vísindi, sagt hvernig vísindin ættu að vera, Kuhn hafi látið sér nægja að lýsa vísindunum eins og þau væru, sagt sögu þeirra (t.d. Hannes (1999): 212).
Svo virðist vera sem Hannes og skoðanasystkini hans telji sér trú um að Kuhn hafi bara verið vísindasagnfræðingur sem hafi látið sér nægja að lýsa vísindum. En hann hafi látið hinum goðumlíka Popper vísindaheimspekina eftir, forskriftirnar fyrir góðum vísindum. En þetta er alrangt.
Í fyrsta lagi segir Kuhn að forskriftir og lýsingar séu oft með ýmsum hætti samofnar. Því sé ekkert gegn því að vefja forskriftum og lýsingum saman eins og hann geri. Kuhn telur sig sem sagt stunda bæði lýsingu á vísindum og forskriftum um þau enda sé þetta tvennt ekki alltaf aðskiljanlegt. Ekki sé ekki hægt að greina sögulega lýsingu á vísindum skarplega frá forskriftum fyrir góð vísindi. (Kuhn (1970a): 207)(Kuhn (2015): 397). Hafi vísindamenn áhuga á því að vísindi blómgist þá eiga þeir einfaldlega að halda áfram að vinna með sama hætti og nú. (Kuhn (1970c): 233-237).
Kuhn láist að útskýra hvers vegna lýsingar og forskriftir séu oft samtvinnaðar. Hann lætur sér nægja að nefna að Wittgensteinsinnaðir heimspekingar séu þessarar hyggju. Ekki í fyrsta og heldur ekki síðasta skiptið sem Kuhn rökstyður ekki almennilega staðhæfingar sínar. Nefna má að John Searle (sem ekki var Wittgensteinsinni) sagði að frá lýsingu á röklegri afleiðslu megi draga þá ályktun röklega að hún sér gild rökleiðsla en „gild“ er matsyrði. Frá raunhæfingum um rökleiðslu má sem sagt leiða dæmandi yrðingu um gæði rökleiðslunnar (Searle (1969): 133-134). Það verður ekki bæði sleppt og haldið, sé það satt X sé gild rökfærsla þá er hún þar með réttmæt og góð rökfærsla. Að kalla rökfærsluna „góða og rétmæta“ er að meta hana, dæma um gæði hennar.
Í öðru lagi segir Kuhn beinum orðum “I do both history and philosophy of science” (Kuhn (1977): 4). Hann stundaði sem sagt vísindaheimspeki líka enda verða vísindaheimspeki og vísindasagnfræði ekki aðskilin samkvæmt kenningu hans. Í þriðja lagi segir hann í Structure of Scientific Revolutions „…at least a few of my conclusions belong traditionally to logic and epistemology“ (Kuhn (1970a): 8). Rökfræði og þekkingarfræði eru af heimspekilegum toga spunnar.
Í þriðja lagi var undirheiti síðustu bókar hans Philosophical Essays en aðalheitið var The Road Since Structure. Hann hefði tæplega valið það undirheiti ef ritgerðirnar hefðu ekki verið heimspekilegar. Í fyrirlestri, sem birtis í bókinni, segir hann orðrétt: „…it‘s as a philosopher that I speak this afternoon“ (Kuhn (2000c): 106). Í viðtali sem birtist í bókinni segist Kuhn hafa að mestu hætt að lesa vísindasögu og hafi árum saman verið að vinna að sinni heimspekilegu afstöðu („philosophical position“) (Kuhn (2000d): 322). Í sama viðtali talar hann um afstöðu sína til vísindasagnfræði. Hann hafi talið sig betur hæfan en flesta aðra til að horfa inn í huga vísindamanna fyrri tíma. En svo segir hann „But my objectives in this, throughout, were to make philosophy out of it.“ (Kuhn (2000d):276). Og aðeins neðar á sömu síðu: „But my ambitions were always philosophical“. Ögn neðar á síðunni segist hann ætíð hafa litið svo á að Structure of Scientific Revolutions væri skrifuð fyrir heimspekinga.
Í fjórða lagi mun hann hafa kallað stefnu sína “historical philosophy of science”, alla vega ef trúa má nemanda hans, James A. Marcum (Marcum (2005): 116 og víðar). Alla vega nær þetta orðasamband inntakinu í hugsun Kuhns, vísindaheimspekin verði að hafa vísindasögulega sýn ef hún eigi að geta sagt eitthvað af viti um vísindin (t.d. Kuhn (1977): 3-20).
Að kalla Kuhn “hreinræktaðan vísindasagnfræðing” er eins og að segja að þýski heimspekingurinn G.W.F. Hegel hlyti að hafa verið hreinræktaður hugmyndasagnfræðingur vegna þess að hann taldi að heimspekin yrði að vera söguleg.
En hvaðan kemur vitleysan um að þeir Kuhn og Popper séu “eiginlega” sammála? Ein ástæðan kann að oflestur á hinni yfirborðslegu bók Bryan Magees um Popper. Magee þessi virðist hafa haft mikla helgi á Popper og kokgleypti öllu sem hann sagði. Magee staðhæfir án eiginlegra raka að Kuhn hafi bara stundað félagsfræði vísinda, í ofan á lag hafi hann nálgast Popper með árunum. Magee notar hálfa blaðsíðu til að sanna þetta (Magee (1985): 41).
Vísindaheimspekingurinn Imre Lakatos hafði lög að mæla er hann sagði eftirfarandi um deilu þeirra Kuhns og Poppers: „The clash between Popper and Kuhn is not about a mere technical point in epistemology. It concerns our central intellectual values,…“(Lakatos (1970b): 93).
Samherjakenningin er augljóslega röng eins og fleiri af kenningum frjálshyggjumanna.
Það er margt sem skilur Popper og Kuhn. Oft eru þeir eins og eldur og vatn.
PS Lysthafendur geta litið í greinar mínar um þessa kappa Stefán (2011): 205-234 og Stefán (2016): 59-86.
Heimildir:
Hannes Hólmsteinn Gissurarsson (1999): Stjórnmálaheimspeki. Reykjavík : Hið íslenzka bókmenntafélag.
Kuhn, Thomas (1970a): The Structure of Scientific Revolutions. 2nd Edition. Chicago: Chicago University Press.
Kuhn, Thomas (1970b): “Logic of Discovery or Psychology?”, í Lakatos, Imre og Musgrave, Alan (ritstjórar): Criticism and the Growth of Knowledge. Cambridge: Cambrdige University Press, bls. 1-23.
Kuhn, Thomas (1970c): „Reflections on my Critics“ í Lakatos, Imre og Musgrave, Alan (ritstjórar): Criticism and the Growth of Knowledge. Cambridge: Cambrdige University Press, bls. 231-278.
Kuhn, Thomas (2000c): „The Trouble with the Historical Philosophy of Science“, The Road Since Structure. Philosophical Essays 1970-1993, with an Autobiographical Interview (ritstjórar James Conant og John Haugeland). Chicago og London: Chicago University Press, bls. 105-120.
Kuhn, Thomas (2000d): „A Discussion With Thomas S. Kuhn“, The Road Since Structure. Philosophical Essays 1970-1993, with an Autobiographical Interview (ritstjórar James Conant og John Haugeland). Chicago og London: Chicago University Press, bls. 255-323.
Kuhn, Thomas (2015): Vísindabyltingar (þýðandi Kristján Guðmundur Arngrímsson). Reykjavík: HÍB.
Lakatos, Imre (1970b): “Falsification and the Methodology of Scientific Research Programs”, í Lakatos, Imre og Musgrave, Alan (ritstjórar): Criticism and the growth of Knowledge. Cambridge: Cambridge University Press, bls. 91-197.
Magee, Bryan (1985): Popper. London: Fontana Press.
Marcum, James A (2005): Thomas Kuhn‘s Revolution. A Historical Philosophy of Science. London og New York: Continuum.
Popper, Karl (1962): The Open Society and its Enemies. 2 Hegel and Marx.Princeton NJ: Princeton University Press.
Popper, Karl (1970): “Normal Science and its Dangers”, í Lakatos, Imre og Musgrave, Alan (ritstjórar): Criticism and the Growth of Knowledge. Cambridge: Cambridge University Press, bls. 51-58.
Popper, Karl (1972): Objective Knowledge. Oxford: Clarendon Press.
Popper, Karl (1994): „The Myth of the Framework“, í The Myth of the Framework. In Defence of Science and Rationality. London og New York: Routledge, bls. 33-64.
Searle, John (1969): Speech Acts. An Essay in the Philosophy of Language. Cambridge: Cambridge University Press.
Stefán Snævarr (2011): «Aðferð og afsönnun. Popper og vísindin”, Ritið nr. 3, bls. 205-234.
Stefán Snævarr (2016): „Viðtök og vísindi. Um Thomas Kuhn“, Ritið, nr. 3, bls. 59-86.
Watkins, J.W.N. (1970): “Against ‘Normal Science”, í Lakatos, Imre og Musgrave, Alan (ritstjórar): Criticism and the Growth of Knowledge. Cambridge: Cambridge University Press, bls. 25-37.
Athugasemdir