Málstofa um alræði með Hannesi H
Við Hannes Gissurarson heyjum hjaðningarvíg, höfum deilt um pólitík í næstum hálfa öld. Þó jafnan í góðu, við erum sammála um að vera ósammála og erum mestu mátar.
Ræða um alræði
Um daginn var ég á Íslandi og flutti framsögu í málstofu á vegum Hannesar um alræðishugtakið. Þar gagnrýndi ég ýmsar vinsælar kenningar um nasisma og alræði, þ.á.m. kenninguna um að nasistar hefðu verið handbendi auðvaldsins auk þeirra kenninga sem frjálshyggjumenn hafa haldið á lofti. Þeir taka margir hverjir undir þau orð Karls Poppers að trú á sögulega nauðsyn hafi verið alræðishvetjandi. En ég benti á að frjálshyggjumaðurinn Herbert Spencer hefði trúað á slíka nauðsyn. Þótt margt mætti ljótt um hans kenningar segja væri ekki hægt að kenna hann við alræði. Einnig væru fá merki um slíka trú hjá nasistum, reyndar væri vart hægt að tala um skipulega hugmyndafræði hjá þeim, meginstoðir nasismans voru blint hatur á Gyðingum og dýrkun á Hitler. Það þýðir að sú kenning fær ekki staðist að altæk hugmyndafræði sé eitt af kennimörkum alræðis. Ég bætti við að nasistar verði ekki taldir sósíalistar m.a. vegna þess að þeir þjóðnýttu ekki nokkurn skapaðan hlut og einkavæddu af kappi á fyrstu valdaárum sínum. Vissulega voru vinstrinasistar áhrifamiklir á frumskeiði flokksins en biðu ósigur í valdabaráttu og leiðtogar þeirra myrtir á nótt hinna löngu hnífa árið 1934. Ég vék að kenningu Friedrichs von Hayeks um að áætlunarbúskapur væri leiðin til alræðis. Ég staðhæfði að áætlunarbúskapur nasista hafi verið takmarkaður og einungis liður í stríðsrekstri (Hayek talaði eins og hann hefði verið altækur eins og sá sovéski). Einnig hefðu stórfyrirtæki í einkaeign átt mikinn þátt í áætlunargerð nasista. Ennfremur sagði ég að kommúnistaleiðtoginn Alexander Dubček hefði veitt Tékkum og Slóvökum tjáningar- og félagafrelsi þótt efnahagslíf Tékkóslóvakíu hafi þá (1968) verið undirlagt áætlunarkerfi og efnahagurinn að mestu í ríkiseign. Árið 1989 fóru fram frjálsar kosningar í Póllandi þótt ríkið réði enn 90% efnahagslífsins. Kenning Hayeks er því röng, altækur áætunarbúskapur er samrýmanlegur lýðræði og ýmsum frelsisgerðum, a.m.k. um skammt skeið.
Hannesartala og svar mitt
Eftir tölu mína tók Hannes til máls og var mælskur að vanda. Hann skaut skildi fyrir vin sinn Hayek og sagði að hann hefði aðallega beint sjónum sínum að altækum áætlunarbúskap. Hagfræðingurinn frægi hafi sagt að ef slíkur búskapur eigi að geta virkað verði að neyða allt samfélagið til að starfa að markmiðum hans. En Hannes gleymdi einni helstu kenningu Hayeks, þeirri að takmarkaður áætlunarbúskapur gæti ekki virkað, annað hvort yrði að losa sig við hann eða gera hann altækan. Það skýrir ekki þá staðreynd að nasisíska útgáfan virkaði á margan hátt vel, heldur ekki að víða um lönd hefur takmarkaður áætlunarbúskapur verið reyndur án þess að hann hafi haft hneigð til að verða altækur. Það gildir um Noreg, Frakkland, Japan, og Suður-Kóreu. Suður-Kóreumenn iðnvæddust hraðar en nokkur önnur þjóð þrátt fyrir eða vegna takmarkaðs áætlunarkerfis (þeir gerðu fjögurra ára áætlanir). Svo höfðu þeir vit á því að losa sig við áætlunarkerfið þegar það hafði náð þeim tilgangi að leggja grundvöll að iðnveldi þjóðarinnar. Þetta takmarkaða áætlunarkerfi hafði sem sagt enga hneigð til að verða altækt, þótt því hafi verið stjórnað af einræðisherra og hans fylginautum. Ekki ógnaði takmarkaður áætlunarbúskapur Frakka, Norðmanna og Japana þeirra lýðræðisstjórn. Enn geigar lag Hayeks en játað skal að altækur áætlunarbúskapur er ekki líklegur til efnahagslegra afreka nema kannski á frumskeiði iðnvæðingar. Hvað sem því líður er rangt að ríkið hljóti að vera efnahagnum til trafala. Í Noregi stofnsetti ríkisvaldið hinn volduga olíusjóð, sérfræðingur um hann segir mér að einungis hafi verið teknar skynsamlegar ákvarðanir um hann. Stjórnmálamenn reyndu ekki að klófesta hluta hans handa sér eða kjósendum sínum, almenningur var sáttur við fyrirkomulagið og heimtaði ekki féð strax í gær. Strangar reglur eru um hve mikinn hluta af forþénustu sjóðsins ríkið má nota á hverjum tíma og stjórnmálamenn virða þær í megindráttum. Ekkert af þessu hefði átt að geta gerst samkvæmt formúlum frjálshyggjunnar, frjálshyggjumenn gefa sér að pólitíkusar séu neyddir til að krukka í efnahagslífið til að tryggja sér endurkjör. En þeir norsku létu það eiga sig, heimur efnagslífs og stjórnmála er flóknari en svo að formúlur hátimbraðra kenninga fái gripið hann. Það fylgir sögunni að frjálshyggjufrömuðurinn norski, Carl I Hagen kom með þá tillögu fyrir rúmum aldarþriðjungi að einkavæða ákveðið olíusvæði, selja það stórfyrirtækjum fyrir tíu milljarða norskra króna. Hinir illu norsku kratar sögðu „nei“ og þetta ríkistýrða olíusvæði hefur síðan tillagan var borin fram fært norskum almenningi 1050 milljarða norskra króna. Geri aðrir betur!
Lokaorð
Mín skoðun er sú að lögmálskenningar um efnahagslíf og samfélag séu yfirleitt ekki frjóar, lítið sé um almenn, ófrávíkjanleg lögmál í mannheimum. Markaðir og ríki eru af ýmsu tagi og því erfitt að finna almenn lögmál sem gilda um markaði og ríki. Ein meginástæða þess er sú að markaður og ríki eru að jafnaði ofin inn í margþættar hefðir og siðakerfi. Norska ríkið virkar allt öðru vísi en hið bandaríska m.a. vegna annarra hefða og siðakerfa. Án hinnar norsku sátta- og heiðarleikamenningar hefði olíusjóðurinn aldrei komist á koppinn. Án bandarískrar einstaklingshyggju hefði Kísildalur aldrei orðið til. Án þýskrar stigveldishyggju hefðu nasistar vart náð völdum. Athugið að sáttamenning, einstaklings- og stigveldishyggja sem slíkar eru ekki orsakavaldurinn heldur hinar sérstöku útgáfur þeirra í þessum samfélögum. Þessar hefðir eru heldur ekki eilífar og óumbreytanlegar, Þjóðverjar nútímans eru mun andsnúnari ríkisvaldinu en forfeður þeirra. Og margt bendir til þess að ungir Kanar séu hliðhollari jafnaðarstefnu en fyrri kynslóðir vestanhafs.
Svo mætti lengi telja, einnig mætti ræða til eilífðarnóns um alræðishugtakið og annað slíkt.
Athugasemdir