Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Málbjörgunarsveit!

Íslenskan er í bráðri hættu. Margt ógnar tilvist hennar, mikil  ógn  stafar frá Kísildal. Einokunarfyrirtækin þar ómaka sig ekki á að íslenskuvæða netþjóna og stýritæki, telja sig ekki græða nóg á því. Rétt eins og þau þéni ekki nóg á einokunaraðstöðu sinni. Önnur ógn er ferðamennskan og erlent vinnuafl. En aðalógnin kemur innanfrá, frá ungmennum sem gjamma oft við hvert annað á ensku. Eins frá businesstossum og tískuhyski sem vilja móðurmál vort feigt vegna þess að það er svo kúl að vera enskumælandi.

Málfeigðarsinninn og rök Kymlicka

Þá kann málfeigðarsinni að spyrja hvers vegna varðveita beri íslenskuna, á það ekki bara að vera ákvörðun hvers og eins hvaða mál hann tali? Gegn þessu viðhorfi má tefla rökum kanadíska heimspekingsins Will Kymlicka. Hann segir forsendu þess að einstaklingurinn geti valið milli kosta (t.d. hvaða mál hann kjósi, innskot mitt) með skynsamlegum hætti sé að hann tilheyri samfélagslegri menningu (e. societal culture). Slík menning veiti meðlimum sínum möguleika á merkingarbærum lífsmáta á sem flestum sviðum. Hún geti því ekki verið afkimamenning sem aðeins nær til fáeinna sviða. Skóladæmi um samfélagsmenningu sé þjóðmenning með tilheyrandi þjóðtungu. Móðurmálið sé nauðsynlegt tæki til að ljá kostum merkingu og skýra eðli athafna. Þetta getur málið aðeins gert í krafti þess að vera ofið inn í sögu og hefðir mælendanna. Ofan á þetta bætist sú staðreynd að tiltekin menning ákeði mörk þess sem menn geti gert sér í hugarlund og þar með mörk þeirra kosta sem menn geti valið. Mál og menning móti því val vort. Einstaklingurinn sem hvorki hefur móðurmál né  tilheyrir samfélagslegri menningu hefur ekkert raunverulegt val milli kosta. Sé þetta rétt þá falla áðurnefnd rök málfeigðarsinnans um sig sjálf, til að geta valið um kosti verður maður að hafa móðurmál sem byggir á öflugum hefðum. Einstaklingurinn getur ekki valið frjálst um mál fremur en að toga sig sjálfan upp á hárinu. Einnig þýðir þetta að unglingar sem sveiflast milli lélegrar íslensku og engu betri ensku eru ekki fyllilega sjálfráða. Sé rétt að varðveitta og efla einstaklingsfrelsi þá ber að berjast fyrir varðveislu móðurmáls okkar, að því gefnu að Kymlicka hafi á réttu að standa.

Charles Taylor og íslenskan

Meginkjarninn í rökfærslu Kymlickas  er sá að einstaklingurinn verði ekki skarplega aðgreindur frá menningu sinni. Margt bendir til þess að einstaklingur og samfélag séu samofin. Svonefnd úlfabörn, sem ekki hafa notið félagsmótunar, hafa ekkert einstaklingseðli: Án samfélags, enginn einstaklingur!

Annar kanadískur heimspekingur, Charles Taylor, leggur mikla áherslu á hið samfélagslega við manninn. Hann staðhæfir að stundum sé rangt að draga alla upp á sömu seil réttinda, þ.e. réttinda einstaklingsins. Það geti verið ósanngjarnt í garð sumra hópa því sérleiki samsemda (e. identity) þeirra verði ekki virtur með þeim hætti. Vega verði einstaklingsréttindi gegn réttindum hópa með sérstakar samsemdir. Í sumum tilvikum er í lagi að gefa sérhópum ákveðin sérréttindi þótt það valdi smávægilegri frelsisskerðingu hjá öðrum. Québecstjórn í Kanada hafi rétt til að banna skilti á ensku til að vernda franska tungu svo fremi hún banni ekki sölu á enskum blöðum ph tímaritum. Sé þetta rétt hjá Taylor má heimfæra rök hans á íslenskuna, sé rétt að varðveita sérleika íslenskrar samsemdar má verja bann við auglýsingum á ensku. Og verja afnám bókaskatts, berjast fyrir því að íslenskir fjölmiðlar fái opinbera styrki, varðveita RÚV  o.s.frv. Það þótt slíkt og þvílíkt hæfi ekki formúlum frjálshyggjunnar.

Hví varðveita þennan sérleika og íslenska tungu? Meðal annars vegna þess að sérhvert tungumál geymir heim, mannlífið á hnettinum öllum verður litríkara ef til eru fjöldi mála og samsemda. Menn geta lært margt með því að skyggnast inn í heim ýmissa tungumála. Sé litauðgi og lærdómur af hinu góða ber að varðveita íslenskuna. Einnig ef varðveita beri hæfni einstaklinga til að velja milli kosta, samanber rök Kymlicka.

Herhvöt

Í ljósi þess sem hér hefur verið ritað má telja rétt að stofna málbjörgunarsveit. Henni ber að berjast fyrir því að lögleiða íslenskuna sem ríkistungu. Í ofan á lagi væri rétt að efla hlut íslenskunnar á Netinu, t.d. með því að skrifa wikipediugreinar í stórum stíl. Og berjast fyrir aukinni íslenskukennslu. Einnig ætti málbjörgunarsveitin  að standa fyrir sniðgengi við fyrirtæki og stofnanir sem hampa enskunni.  Og leggja þrýsting á einokunarfyrirtækin í Kísildal, neyða þau til að íslenskuvæða afurðir sínar.

Engar harmtölur, takk, engan aumingjaskap, heldur harðsvíraða baráttu! Íslendingar, látið ekki businesstossa, tískuhyski og amerísk einokunarfyrirtæki rífa úr ykkur tunguna! Fram til orrustu undir gunnfána okkar gamla og fallega tungumáls!

Heimildir:

Ég vitna nánast beint í bók mína Ástarspekt, um Kymlicka á blaðsíðu 126, um Taylor á blaðsíðu 106. Í bókinni má finna greinina  Úlfahjörð vinda (bls. 301-321) þar sem ég skýt skildi fyrir íslenskuna.

Stefán Snævarr (2004) Ástarspekt. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Will Kymlicka (1998): Multicultural Citizenship.Oxford: Clarendon Press.

Charles Taylor (1992). „Multiculturalism and the Politics of Recognition“. An Essay by Charles Taylor; with Commentary by Amy Gutman. Princeton: Princeton University Press.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni