Lúter í Wittenberg 31. október 1517
Í dag eru 500 ár liðin síðan Marteinn Lúter hóf meinta siðbót með því að negla skjal á dómkirkjuhurðina í Wittenberg. Reyndar er umdeilt hvort skjalið hafi verið kynnt með þessum dramatíska hætti. En víst er um að það var í 95 greinum, einnig að í því er kaþólska kirkjan gagnrúynd harðlega m.a. fyrir að leyfa aflátsölu. Menn gátu fengið aflausn synda (uppreist æru!) gegn þóknun sem rann í sjóðir kirkjunnar. Í verkum Megasar má ávallt finna einhverja yrðingu sem heimfæra má á hinar ýmsu uppákomur, til dæmis siðbótina og Lúter. Megas kveður svo í bragnum Um grimman dauða jóns arasonar:
"Og hann hafði segja þeir einna minnstar mætur
á marteini saurnum lúter og hyski hans."
Ekki nóg með það, biskupinn hafi talið Lúter „helgaðan grillspjóti andskotans“, páfinn hefur örugglega verið sama sinnis. Reyndar ætlaði Lúter sér bara að endurbæta kaþólsku kirkjuna. En á ríkisþinginu í Worms árið 1521 kröfðust prelátar og veraldlegir valdsmenn þess að hann drægi gagnrýnina tilbaka og gerði iðrun og yfirbót. Lúter harðneitaði og mælti þessi fleygu orð „Ég stend hér og get ekki annað“. Er ekki að orðlengja kirkjan klofnaði, brátt logaði Evrópa í trúarstyrjöldum. Óttomanasóldaninum Súleimani hinum mikilfenglega til óblandinnar ánægju. Hann styrkti mótmælendur með það fyrir augum að veikja hina kristnu Evrópu, „deildu og drottnaðu“. Reyndar átti Súleiman það sameiginlegt með Lúter að vera skáld gott, margir þekkja sálm Lúters „Vor Guð er borg á bjargi traustu“.
Gallar siðbótar
Stendur siðbótin undir nafni? Það er engan veginn ljóst. Eitt er fyrir sig að hún leiddi til skelfilegra styrjalda í Evrópu, í þrjátíu ára stríðinu (1618-1848) dó um þriðjungur Þjóðverja. Þýskaland varð ein auðn eftir hildarleikinn. Annað er að kaþólskan forhertist, kaþólikkar settu á laggirnar hin illræmda rannsóknarrétt. Hið þriðja er að Lúter rak hatursáróður gegn Gyðingum. Hann hafði reyndar fyrst trúað því að þeir myndu turnast til kristni þegar þeir kynntust hinum sanna kristnidómi lúterskunnar. Hann fylltist hamslausri bræði er hann uppgötvuðu að þeir væru ekki á þeim buxunum að kristnast. Gyðingar voru náttúrulega ofsóttir af fylgismönnum Lúters. Hið fjórða er að galdrabrennur urðu tíðari eftir siðskiptin en fyrr, bæði meðal mótmælenda og kaþólikka. Hið fimmta er að siðskiptin stórjuku völd konunga og annarra valdsmanna sem lögðu hald á eigur kirkjunnar og máttu ráða hvað trú þegnar þeirra hefðu. Steinunn Kristjánsdóttir telur að siðbótin hafi verið Íslendingum skaðvænleg, klaustrin hafi verið lærdómssetur, spítalar og fátækrahjálp. Danakonungur lét greipar sópa um eigur þeirra og flutti úr landi, til Damnerkur.
Kostir siðbótar
En auðvitað hafði siðbótin sína kosti. Nú var hægt að lesa Biblíuna á móðurmálinu og jafnvel meðtaka boðskap hennar með gagnrýnum hætti. Í löndum mótmælenda var alþýðufræðsla stóraukin því allir áttu að geta lesið Heilaga ritningu. Fyrir vikið stórjókst læsi meðal mótmælenda. Auk þess var valdefling prótestantískra pótintáta ekki bara neikvæð. Hún stuðlaði að því að gefa ríkinu einkarétt á ofbeldi en slíkt var framfaraspor að mínu viti. Einnig efldi mótmælendatrúin einstaklingshyggju, það var verkefni einstaklings sjálfs að verða hólpinn, kirkjan gat ekki hjálpað. Í mótmælendatrú reynir einstaklingurinn að ná sambandi við Guði, ekki með fulltingi kirkjunnar. Ekki má gleyma Max Weber, hann lagði áherslu á að andi mótmælendatrúar hefði átt þátt í að gera kapítalismann mögulegan. Kapítalisminn var ótvíræð framför miðað við fyrri hagkerfi. Weber hafði þó kalvínismann fremur í huga en lúterskuna. Kalvín taldi það Guði þóknanlegt að safna auði, auðgist menn kann það að vera merki þess að Guð hafi velþóknun á þeim og þeir yrðu hólpnir. Einnig mælti hann með vinnusemi, sparsemi og skipulegum lífsstíl, án þessa er kapítalisminn ekki til mikils líklegur. Til viðbótar kemur sú einstaklingshyggju sem áður var nefnd. Um þessar kenningar Webers deila hinir lærðu, hagsagnfræðingurinn Werner Sombart hélt því fram að andi Gyðingdómsins hefði haft sitt að segja fyrir framrás markaðskerfisins. En auðvitað útilokar það ekki að Gyðingdómur og mótmælendatrú hafi lagst á eitt um að efla kapítalismann. Nema að kenningin um þátt trúarbragða í tilurð þessa hagkerfis sé röng.
Lokaorð
Á þessum degi fyrir hálfu árþúsundi hóf Marteinn Lúter siðbótarstarf sitt. Hvort hann var helgaður nefndu grillspjóti eða hvort siðbótin var til bóta skal ósagt látið.
Athugasemdir