Jones gegn Moore, Young gegn Lynyrd Skynyrd.
Lesendur vita sjálfsagt flestir að í dag fara fram þingkosningar í Alabama þar sem eigast við hinn umdeildi Roy Moore og demókratinn Doug Jones. Moore er til hægri við Atla húnakonung og er sem kunnugt ásakaður fyrir kynferðislega áreitni, jafnvel pedofílu. Hann vill banna samkynhneigð og banna múslimum setu á þingi, allt náttúrulega í nafni frelsisins. Hinir heittrúuðu fylgismenn hans hunsa ásakanir á hendur honum og styðja banntillögur hans, náttúrulega í nafni frelsisins. Litlum sögum fer af Jones, hann virðist aðallega vera andhverfa Moores. Átökin í Alabama minna á söngvastríð hins kanadíska Neil Youngs og Alabamahljómsveitarinnar Lynyrd Skynyrd. Young söng um Alabama á plötu sinni Harvest sem út kom 1972. Hann var ómyrkur í máli um þetta afturhalds- og rasistabæli, hafði reyndar áður sent hvítum Suðurríkjamönnum tóninn í miklu betra lagi, Southern Man. Lynyrd Skynyrd tóku upp hanskann fyrir heimaríki sitt í laginu Sweet Home, Alabama. Hressilegt kántrílag en textinn með ólíkindum lélegur. Á youtube má finna myndskeið þar sem grúppan spilar lagið og veifar fána þrælahaldaranna, Suðurríkjafánanum. Má ég heldur biðja um Neil Young með sína sérstæðu, brothættu rödd, þokkalegu texta og siðmenntuðu viðhorf? Má ég heldur biðja um hinn litlausa Jones en pödduna Moore? Reyndar eru Repúblíkanar í tapa-tapa stöðu. Vinni Moore tapa þeir því bæði gæti hann misst kjól og kall vegna mögulegrar áreitni, eins vegna þess að hann mun aldrei fylgja flokkslínunni heldur vera enn lengra til hægri en Ted Cruz. Tapi Moore yrði meirihluti Repúblikana í Öldungardeildinni svo tæpur að Trump gæti reynst örðugt að koma „stefnu“-málum sínum í framkvæmd. Fátt myndi gleðja mig meir.
Það verður gaman að fylgjast með kosningunum þarna suður í óæðri enda Bandaríkja Norður-Ameríku.
Athugasemdir