Þingmannaþvæla um ættarnöfn
Þórarinn Eldjárn segir á feisbók að nú sé lögð tillaga fram á þingi um að leyfa ættarnöfn. Rökstuðningurinn fyrir því sé þessi m.a. sá að á síðustu öld hafi einungis forréttindafólk fengið taka upp eða halda gömlum ættarnöfnum, nú sé kominn tími til að leyfa alþýðunni slíkt hið sama. Þórarinn bendir á að þetta sé tóm þvæla, í byrjun síðustu aldar voru sett lög sem kváðu á um að öllum skuli vera leyft að taka upp ættarnöfn og almenningur jafnvel hvattur til þess. Gerðir hafi verið listar yfir ættarnöfn sem alþýðumenn voru hvattir til að taka upp. Ekki hafi það kostað nein ósköp að taka upp ættarnafn þannig að alþýðu manna hafi vel haft ráð á því. Þingmennirnir sem sömdu þennan þvætting vita greinilega ekki að í byrjun síðustu aldar varð til fjöldinn allur af alþýðuættarnöfnum, ættarnöfnum sem alþýðumenn tóku upp þegar leyfi var gefið til þess. Eða hvaða ríkisbubbar og valdhafar hafa borið ættarnöfn á borð við Hafstað, Önfjörð, Skagfjörð, Heiðdal, Geirdal o.s.frv? Afi minn, Valdemar Valvesson, var bláfátækur barnaskólakennari sem tók upp ættarnafnið Snævarr. Hann var sonur vinnukonu, svalt á harðindaárunum og fékk ekki að læra með börnunum á bæjunum vegna sinnar lágu stéttarstöðu. Faðir minn vann fyrir öllu sínu námi frá þrettán ára aldri enda voru afi og amma of fátæk til að styðja hann.
Ættarnafnið Snævarr er því í hæsta móta alþýðuættarnafn. Þessu til áréttingar skal litið á hvað núlifandi einstaklingar sem bera þetta ættarnafn starfa: 3 kennarar, 2 fóstrur, 1 lögregluþjónn, 1 bankastarfsmaður (fremur lágt settur), 3 lögfræðingar (þar af 2 ríkisstarfsmenn), 1 sendiherra, 1 blaðamaður, 1 myndlistarmaður og stúdent, 1 háskólaprófessor, 1 hagfræðingur (vinnur hjá ríkinu). Sem sagt, ósköp venjuleg íslensk ætt en ekki einhver valdayfirstéttarætt eins og ættarnafnahatararnir ímynda sér. Svei þeim!
Þingmennirnir sem settu þessa dellu saman ættu að skammast sín.
Athugasemdir