Hinn ginnhelgi einkabíll
Þetta sungu menn í den: „Halló þarna bíllinn ekki bíður, æ blessuð flýtið ykkur, tíminn líður“. Á Íslandi bíður bíllinn ekki heldur treður sér alls staðar, veður upp á gangstéttir og ýtir almenningssamgöngum til hliðar. Ofurbílvæðing Íslands hófst fyrir um þremur áratugum, mér skilst að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafi gert óformlegan samning við verkalýðshreyfinguna. Tollar yrðu snarlækkaðir af bílum gegn því að verkalýðshreyfingin héldi sig á mottuni. Afleiðingin varð bílasprenging sem haldið hefur áfram og eflst með ári hverju. Fyrir vikið hafa Íslendingar ófríkkað mjög, líkast helst rauðríkjakönum. Einnig mun þráseta í bílum eiga eftir að skaða heilsu þeirra all verulega. Til að bæta gráu ofan á svart er loftmengun orðin að alvarlegu vandamáli í Reykjavík. Ekki bæta umferðahnútar úr skák, borgin og landið allt eru einfaldlega offyllt af bílum. Þá spyr einhver hvort almenningur hafi ekki bara kosið einkabílinn. Svar mitt er að svo einfalt er málið ekki. Sjálfsstæðisflokkurinn réði lögum og lofum í Reykjavík áratugum saman og gerði lítið til að efla almenningsamgöngur. Skortur á þeim gerði bílinn að „mösti“ hinu mesta, menn höfðu ekki raunhæft val milli einkabíls og almenningssamgangna sem voru og eru miklu verri en í nágrannalöndunum. Bílsprengingin um 1990 stuðlaði líka að versnandi almenningssamgöngum. Þegar jafnvel heimiliskötturinn var kominn á eigin bíl fækkaði farþegum í strætó all verulega og strætóferðum fækkaði fyrir vikið. Athugið líka að ungt fólk sem ekki var komið til vits og ára þegar bílsprengingin hófst átti engan þátt í að skapa núverandi ástand þar sem almenningssamgöngur eru ekki raunhæfur kostur. Þau völdu ekki endilega einkabílinn þótt foreldrar þeirra hafi gert það. Bíllinn valdi unga fólkið, ekki öfugt. Af þessu má sjá að það er í besta falli villandi, í versta falli della að almenningur hafi si svona tekið hinn ginnhelga einkabíl fram yfir almenningssamgöngur. Einnig má nefna að sé frelsi fólgið í því að breyta svo fremi maður skaði ekki aðra þá er endalaus bílakstur ekki frelsisathöfn því loftmengunin frá bílunum skaðar aðra. Í Noregi, Danmörku og Spáni hafa menn raunverulegt val, geta valið milli þess að fá sér bíl eða nota almenningssamgöngur. Ekki á Íslandi. En nú er á teikniborðinu merkileg hugmynd um lausn á þessum vanda, hugmyndin um borgarlínuna. Meira að segja sumir Sjálfsstæðsimenn eru henni fylgjandi, t.d. Áslaug Friðriksdóttir. En ekki merkisberi flokksins í borgarstjórnarkosningum, Eyþór Arnalds. Blessunarlega sýna skoðanakannanir að drjúgur meirihluti borgarbúa er borgarlínunni fylgjandi. Vonandi flykkjast menn á kjörstað og veita Degi borgarstjóra og hans vösku sveit brautargengi. Og gefa Sjöllum ærlega ráðningu.
Athugasemdir