Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Gomringer og "metoo"

 

Eugen Gomringer er háaldrað svissneskt skáld sem á sínum tíma var frumkvöðull hins svonefnda  konkretisma í ljóðum. Einn af samherjum hans var fjöllistamaðurinn Diter Rot sem er Íslendingum að góðu  kunnur. En hvað í ósköpunum er konkretismi? Konkretistar vildu tálga ljóð þannig að eftir stæðu nakin orð, án ljóðmynda, án skrauts. Nota sér eiginleika lyklaborðsins til að raða orðunum með geometrískum hætti. Yrkja með kerfiskenndum hætti, láta ljóðin líta út eins og lista yfir hluti eða hluta af bókhaldi. Samt tókst Gomringer að yrkja ljóð sem hafa tilfinningalegt gildi í allri sinni nekt og einfaldleika (hans skáldskapur er í  anda kjörorðsins „less is more“). Hann yrkir á ýmsum tungumálum, aðallega á þýsku en stundum á ensku, frönsku og ekki síst spænsku enda var móður hans frá Bolivíu. Eitt ljóða hans á spænsku hefur valdið miklum metoo-stormi í Þýskalandi. Það var letrað á vegg í háskóla nokkrum og er svona í íslenskri þýðingu minni:

                               breiðgötur

                              breiðgötur og blóm

 

                                 blóm

                                 blóm og konur

 

                               breiðgötur

                               breiðgötur og konur

 

                               breiðgötur og blóm og konur og

                               aðdáandi.

 

Hvað þótti metoo-fólki svo hneykslanlegt við þetta? Það taldi að konum væri lýst eins og viðfangi sem karlpungur (aðdáandi) skoðaðið, ekki eins og raunverulegum manneskjum. Spurt er: Ganga mettoo-verjar ekki nokkuð langt í þessu máli? Er rétt að nota tíma og orku í svona pjatt? Væri ekki betra að nota tímann til að berjast gegn sæmdarmorðum á konum og umskurði á kynfærum þeirra? Og nauðgunum á vinnustöðum, valdamiklum karlpungum sem þvinga konur beint og óbeint til samræðis við sig o.s.frv.?

Öllu má ofgera.

 

 

                                 

                                 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni