FRELSIÐ OG VEIRAN
Meintar frelsisskerðingar vegna kóvíddarinnar valda miklu fjaðrafoki. Eins og venjulega nota menn hugtakið um frelsi umhugsunarlaust.
Ekki er gætt að því að frelsi hvers einstaklings hlýtur takmarkast af frelsi annarra. Honum er ekki frjálst að taka eigur annarra án þeirra samþykkis og ekki frjálst að smita þá óumbeðna af kórónuveirunni.
Heimspekingurinn John Stuart Mill var mikill frelsisunnnandi. Hann sagði að virða bæri tjáningarfrelsi, t.d. ætti mönnum að vera frjálst að formæla tilteknum, óvinsælum, mönnum í dagblöðum.
En hugsanlega mætti takmarka frelsi manna til að formæla þeim á fundum sem haldnir væru fyrir framan bústað þeirra.
Það gæti leitt til þess að áheyrendur trylltust og réðust inn í bústaðinn í þeim fróma tilgangi að lúskra á íbúanum.
Það er heilmikið til í þessu. Því er engin goðgá að velta því fyrir sér hvort banna eigi mönnum að valsa um óbólusettir, þeir gætu hæglega smitað aðra og valdið þeim óbætanlegu tjóni.
Það er alls ekki ljóst að öll boð og bönn varðandi kóvíddina séu frelsisskerðandi. Þau gætu sum hver, jafnvel öll, verið í þeim skilningi frelsiseflandi að þau verndi menn gegn því að verða fyrir skaða af völdum annarra (hinna óbólusettu).
Alla vega þarf að gaumgæfa þessi mál áður en menn reka upp org og fordæma meinta frelsisskerðingu, veirunnar vegna.
Hve oft á ég að þurfa að segja þetta? Frelsishugtakið er flókið og margþætt, það er stórt, grátt svæði milli frelsis og ófrelsis.
Athugasemdir (2)