Andri á Alþingi
Ræðuskörungur er risinn á Alþingi Íslendinga! Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundurinn snjalli! Hann hélt sína jómfrúrræðu með kurt og pí um daginn og mæltist vel. Ég var sammála flestu sem hann sagði en hnaut um eitt: Hann segir að sjúklingar séu á göngum í íslenskum sjúkrahúsum rétt eins og í stríðshrjáðum löndum. Ekki er hinn vellauðugi velferðar-Noregur stríðshrjáður en þar hefur hugtakið „korridorpasient“ (gangnasjúklingur) unnið sér þegnrétt í umræðu. Hvorki meira né minna en 17000 sjúklingar voru vistaðir á sjúkrahúsgöngum í Noregi árið 2016.
Hliðstæð vandamál
Alltof margir íslenskir álitsgjafar gefa sér að Ísland hafi einhverja ógnarmikla sérstöðu en athuga ekki að margt af því sem miður fer á Fróni á sér hliðstæður í öðrum þróuðum ríkjum. Ég hef áður nefnt bullandi spillingu á írlandi og í Þýskalandi, Íslendingar eiga engan einkarétt á spillingu, ekki einu sinni meðal þróaðra ríkja. Ég held ég hafi líka minnst á spillingu í Bandaríkjunum. Nóbelshagfræðingnum Joseph Stiglitz er tíðrætt um hana, auðmenn hafi nánast keypt stjórnmálastéttina og auðlindir í almanneigu seldar stórfyrirtækjum fyrir spottprís, samanber orku- og kvótaruglið íslenska. Bæta má við að hefð er fyrir spillingu í bandarísku lögreglunni, í þætti um kókaínsmygl til Miami segir að á tímabili hafi all stór hluti lögreglunnar þar í borg verið á mála hjá kolumbísku mafíunni. Meira að segja Noregur er ekki sneyddur spillingu. Eitt sinn komst enginn að í ríkiskerfinu nema að vera í krataflokknum, það hefur blessunarlega breyst. En nú hafa tvö norsk dagblöð, Morgenbladet og Dagbladet, haldið því fram með réttu eða röngu að bullandi spilling sé í norska fiskeldinu. Embættismenn sitji beggja vegna borðsins, eigi hlutabréf í fiskeldisfyrirtækjum en eigi um leið að sinna fiskeldinu í krafti embættis síns. Vísindamenn sem rannsaki fiskeldisfisk séu beittir þrýstingi til að fá niðurstöður sem hæfi fiskeldisfyrirtækjunum. Sjávarútvegsráðherrann, Per Sandberg, hefur verið gagnrýndur harðlega og sakaður um að ganga erinda fiskeldisauðmagnisns. Um þetta skal ekki dæmt en málið er Íslendingum skylt þar eð norsk fyrirtæki fjárfesta í íslensku fiskeldi.
Hvernig leysa vanda
En um annað skal dæmt: Til að leysa ýmis aðkallandi vandamál á Íslandi verða menn að hyggja vandlega að því hvort vandinn sé séríslenskur eða alþjóðlegur. Eigi nágrannaþjóðir við sama vanda að stríða má velta því fyrir sér hvort orsakirnar séu alþjóðlegar og lausnin því fjölþjóðleg. Það er að vísu ekki gefið að sama gerð vanda í fleiri ríkjum eigi sér sömu orsök, það er fleiri en ein leið að sama marki. Eigi próblemið sér séríslenskar rætur ber að bregðast við því sem slíku.
Lokaorð
Andri, þingmaður og rithöfundur, er nú í þeirri aðstöðu að geta stungið á ýmsum kýlum samfélagsins. Vonandi ber hann gæfu til að greina milli frónskra vandamála og þeirra sem hnattræn eru.
Áfram Andri, til orrustu gegn sóðaskapnum!
Athugasemdir