Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Af hverju er ég evrópusinni?

Af hverju er ég evrópusinni?

Af hverju?

Ég gat ekki annað en spurt mig að þessu aftur og aftur þegar ég fór á fréttasíður þessa viku. Því ég hafði misst trúna.

Og það hafa fleiri gert. Oxi, þetta gríska nei, hefur umbreytt Evrópusambandinu í eitt Oxymoron, þar sem eina leiðin áfram er leiðin aftur á bak. Ég er núna staddur í Frakklandi, (landi þar sem mun hærra hlutfall íbúa hefur samúð með Grikkjum en Þýskalandi, þótt það skili sér lítið pólitískt), og núverandi ástand virðist hafa verulega hrist trúna í fólki á þessu evrópska samstarfsverkefni.

Hugmyndin um Evrópu þar sem ríkir friður og þjóðir starfa saman er gömul. Hún hefur eflaust virst jafn fjarlæg á nítjándu öld þegar Frakkar og Þjóðverjar slátruðu hvor öðrum í hverju Napóleónsstríðinu á fætur öðru, og heimur John Lennons í Imagine virðist okkur í dag.

Samt voru menn eins og Victor Hugo sem leyfðu sér að dreyma:

Un jour viendra où les armes vous tomberont des mains, à vous aussi !
Sá dagur kemur sem þið missið vopnin úr höndunum, þið líka!

Un jour viendra où la guerre paraîtra aussi absurde et sera aussi impossible entre Paris et Londres, entre Pétersbourg et Berlin, entre Vienne et Turin, qu'elle serait impossible et qu'elle paraîtrait absurde aujourd'hui entre Rouen et Amiens, entre Boston et Philadelphie.

Sá dagur kemur þar sem stríð virðist álíka absúrd milli París og London, Pétursborg og Berlín, milli Vínar og Turin, það mun virðast álíka ómögulegt og milli Rúðuborgar og Amiens, milli Boston og Fíladelfíu.

(Já ég veit, það er tilgerðarlegt að droppa frönskum tilvitnunum inn á blogg). Árið 1846 þegar Victor Hugo fór með þessa ræðu var stríð milli London og Parísar normið, ekki frávik. 

Höfundur Vesalinganna sá nefnilega fyrir sér sameinuð bandaríki Evrópu í framtíðinni. Hann ímyndaði sér að hver þjóð myndi halda sínum sérkennum og að fylkin hefðu að mestu algjöra sjálfstjórn, en að fólk myndi hafa fullt ferðafrelsi, vinnufrelsi og að þetta ríki yrði kommúnískt. (Bara fyrri tvö atriðin hafa ræst). 

Ég er svolítið skotinn í þessari rómantísk-kommúnísku hugmynd Victor Hugo um ómiðstýrða Evrópu, sósíalíska og frjálsa. Hún væri góður staður til að búa á. Evrópa dagsins í dag er þó að mestu hægrisinnuð hugsjón:

We must build a kind of United States of Europe. In this way only will hundreds of millions of toilers be able to regain the simple joys and hopes which make life worth living.

Sagði Winston Churchill árið 1946. Á þeim tíma var ennþá ekki komið kola og stál samband milli Frakklands og Þýskalands, en vafalaust var Churchill fyrst og fremst í huga að einhvern veginn yrði að tryggja frið í Evrópu. Íhaldsmenn í Evrópu rétt eins og róttækasta vinstrið virðist vera að snúast frá Evrópu-hugsjóninni. Íhaldsflokkurinn í Bretlandi sem undir forystu Churchills átti þátt í að stofna mannréttindadómstól Evrópu. Mannréttindadómstóllinn var ein af viðbrögðunum við Helförinni og öðrum hörmulegum mannréttindabrotum heimsstyrjaldarinnar. (Nú í dag virðast breskir íhaldsmenn vilja draga Bretland úr þessu evrópska samstarfi, og ég hugsa að mörgum pólitískum afglapa á Íslandi myndi hugnast það líka).

 

En ef óttinn um stríð verður einn helsti sölupunktur evrópuhugsjónarinnar þá erum við illa stödd. Fyrir mér er ekki hægt að selja ESB sem tryggingu gegn þjóðarmorðum, vígvöllum og blóðbaði ef það þýðir auðræði, þar sem bankar troða skuldum sínum upp á ríkisstjórnir sem kenna svo öðrum ríkisstjórnum um í stað bankanna. Það er ekki sú framtíð sem ég myndi vilja stefna að.

 

Merkel og Tsipras hefur tekist það sem morgunblaðinu tókst ekki, að fá mig til að efast um alþjóðlegt samstarf sem gengur út á að tryggja frið og velsæld, (en er farið að snúast upp í að tryggja að bankar fari aldrei á hausinn þótt að þjóðir megi gera það). Samt veit ég innra með mér að Victor Hugo hafði rétt fyrir sér:

Elle s´appellera l´Europe, au xxe siécle, et, aux siécles suivants, plus transfigurée encore, elle s´appellera l´Humanité.

Hún heitir Evrópa á tuttugustu öld, og á næstu öldum, aftur umbreytt mun hún nefna sig Mannkynið.

Því trú mín á Evrópu kemur kannski þrátt fyrir allt ekki frá hugmyndum Victor Hugo um sósíalískt sambandsríki eða ótta Winston Churchill um þriðju heimsstyrjöld.

Ég byrjaði að trúa á betri framtíð þegar ég sjö, átta ára að aldri settist fyrir framan sjónvarpið og sá heim þar sem ekki ríkti skortur og maðurinn var loksins frjáls til að kanna til fullnustu möguleika sína.

Og það var að sjálfsögðu Star Trek sem færði mér þá draumsýn.

And you may call me a dreamer but I´m not the only one.

Ég held að það sé hollt að dreyma. Að vona. Ég vona að Frakkar nái að hafa vit fyrir Þjóðverjum, og að næstu skref verði að auka evrópskt samstarf og gera það lýðræðislegra. Við höfum ekki efni á að klúðra þessu. Og þá er ég ekki að tala um fjárhagslegu hliðina. Ég er að tala um þá mannlegu.

Og af hverju er ég Evrópusinni ennþá? Af því að ég sé ekki rökin fyrir því að verkamenn úti um allan heim fái borgað í missterkum mynteiningum, í því að þjóðir séu sundraðir hvor á móti annarri og finni til stolts yfir því að aðrir hafi það meira skítt en maður sjálfur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni