Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Söngvaskáldið Jack Marks og kunnugleg stemmning

Hvað er í gangi?

Það er á hverrar konu vitorði að Ísland dregur að sér fjöldann allan af ferðafólki. Flest sækir það landið heim sakir náttúrunnar. Einnig kemur fyrir að Íslandsgesti fýsi í menningu og ekki svo óalgengt að túristi sæki íslenska menningarviðburði. Ísland er móðins um þessar mundir.

En það er ekki nóg með að gestkomendur njóti þess sem eyjan hefir að bjóða heldur er ekki óalgent að erlendir listamenn láti sjá sig á landinu og troði upp. Nægir að nefna stórstjörnuna Justin Bieber í því samhengi. En Justin stígur á stokk í Kórnum 8. og 9. þessarar viku. Justin bætist því í fríðan flokk stóra og frægra tónlistarmanna sem heiðrað hafa landið með veru sinni.

Ekki njóta allir þeir tónlistarmenn sem spila á tónleikum á Íslandi viðlíka lýðhylli og Justin og fer þar af leiðandi minna fyrir heimsókn þeirra. Einn þeirra sem minna fer fyrir er Kanadamaðurinn Jack Marks sem spilar á fernum tónleikum í vikunni. Fyrstu tónleikarnir eiga sér stað á Bryggjunni í Grindavík á morgun, 8. September, aðrir tónleikarnir á Dillon 9. September. 10. September stígur hann svo tvisvar á stokk í Lucky Records um daginn og á Boston um kveldið. Á Dillon og á Boston sér Heiða trúbador um upphitun.

Hvað kemur til?

Friðrik Atlason og Berta Finnbogadóttir bera veg og vanda af skipulaggningu tónleikana en þau kynntust Jack þegar þau voru á ferð í heimaborg tónlistarmannsins, Toronto, fyrr á þessu ári. Bar fundum þeirra saman fyrir utan bar einn þar sem í ljós kom, eftir að þau tóku tal saman, að Jack þykir mikið til Halldórs Laxness koma. Eitt leiddi af öðu og áður en þau vissu af voru þau komin í skoðunarferð með tónlistarlegu ívafi um borgina svo komið var við á allnokkrum stöðum með lifandi tónlistarflutningi. Kveldið endaði svo með stofutónleikum heima hjá Jack þar sem hann spilaði ásamt vinkonu sinni Merrimen fyrir þau Friðrik og Bertu. Daginn eftir gerðust þau svo fræg að hlýða á Jack ásamt hljómsveit sinni á tónleikum. Eftir ferð þessa hefir kunningsskapur haldist á milli þeirra þannig að þegar Jack bað þau um að skoða það að útvega tónleikastaði fyrir hann í september var það auðsótt mál. En Jack er á leiðinni til Ítalíu í tónleikaferð.

Við hverju má búast?

Jack Marks er einn af þeim sem spyrða má við nafngiftina söngvaskáld og sver hann sig í ætt við Bob Dylan og fleiri af því söngvahúsi. Hefir honum aukinheldur verið líkt við hinn snjalla lagahöfund Tom Waits. Því hefir og verið haldið fram um Jack að hann semji snjöll og tímalaus  lög er hljóma einhvern veginn líkt og einhver annar hafi samið þau þó fjarri því sé hægt að saka Jack um lagastuld. Aðspurður segist Jack ekki semja lögin heldur finni hann þau.

Margvíslegt lof hefir Jack hlotið í gegnum tíðina. Kanadíska þjóðskáldið Catherine MacLellan

Vill meira að segja meina að hann sé einn af bestu lagahöfundum okkar tíma. Auk þess hafa allnokkrir aðrir tónlistarmenn tekið lagasmíðar hans upp á sína arma og flutt þær. Það verður að teljast lof.

Má því eiga von á kunnuglegri stemmningu á tónleikum Jacks. Og það þrátt fyrir að eigi megi bera honum á brýn að apa eftir öðrum meira ein góðu hófi gegnir.

Klukkan hvað byrjar dæmið og hvað kostar?

Kveldtónleikarnir hefjast allir klukkan 21:00  en tímasetning tónleikanna í Lucky Records verður auglýst síðar. Frítt er á tónleikana í Grindavík sem og í Lucky Records en miðaverði á hina verður, að sögn Friðriks, stillt í hófi sem þýðir að ekki verður ekki fram á 15.999 til 29.990 krónur eins og á tónleika Justins Biber.

Tóndæmi

Hér má hlýða á eitt laga hans sem hann ku ætla að leitast við að flytja með íslenskum texta á tónleikunum

 Viðbót 18:36: Tónleikarnir í Lucky Records byrja klukkan 16:00 og það verður frítt inn á Boston.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni