Vídeóleiguveldi á brauðfótum
Frá 22. apríl til 2. maí 2004 háði ritstjórn Fréttablaðsins styrjöld við Davíð Oddsson. Tilefnið voru væntanleg lög um eignarhald á fjölmiðlum. Afstaða Fréttablaðsins var sú að hér væri verið að ráðast á eigendur blaðsins. Slíkt væri þöggun og valdníðsla. Davíð væri að reyna að þagga niður í þeim sem honum væru ekki hliðhollir.
Með örfáum undantekningum var málið fyrsta forsíðufrétt blaðsins í einn og hálfan mánuð. Fréttirnar hnituðust um nokkur þemu: Að óeining væri innan ríkisstjórnar um málið. Að frumvarpið væri vafasamt. Að þjóðin væri á móti frumvarpinu. Að ríkisstjórnin væri óvinsæl.
Smátt og smátt urðu árásirnar nákvæmari. Ónefnd óánægja í meirhlutanum varð að tveimur ósáttum framsóknarþingmönnum og óvinsældir ríkisstjórnar urðu á lokasprettinum að persónulegum óvinsældum Davíðs Oddssonar. Um svipað leyti stimplaði forsetinn sig inn í málið með því að mæta óvænt heim frá útlöndum og upp frá því varð hann ein af aðalpersónum þess. Enda lauk því svo að hann virkjaði málskotsréttinn og Davíð þurfti að hafa sig allan við í klækjum til að missa málið ekki í þjóðaratkvæði.
Þetta mál er ein þungamiðja í hinni alræmdu þörf Davíðs fyrir að „endurskrifa söguna“. Hann telur enn í dag að atburðarásin hafi sannað þörfina fyrir frumvarpið. Þar hafi einum öflugasta fjölmiðli landsins verið beitt markvisst gegn ríkisstjórn til að gæta hagsmuna eigenda sinna. Eigenda sem stuttu síðar sátu uppi ærulausir og búnir að setja landið á hausinn.
Einn vandi við íslensk stjórnmál er annaðhvort-eða-hugsun. Annaðhvort þarf maður að halda að Davíð hafi ráðist gegn fjölmiðlaveldi Baugs vegna þess að það var honum persónulega ekki hliðhollt eða að þarna hafi sannast hvílík tök Jón Ásgeir og skósveinar hans hafi haft á samfélaginu sem m.a. gerði þeim kleift að steypa landinu fram af efnahagslegri hengibrún án þess að nokkur kæmi alminlega við nokkrum vörnum.
Þetta mál er ekki annaðhvort eða.
Málið sannaði svo ekki væri um villst að báðir höfðu rétt fyrir sér um hinn. Davíð var ekki knúinn áfram af hugsjón um frjálsa fjölmiðlun sem varin er gegn hagsmunaöflum og ritstjórnarlegt „frelsi“ Fréttablaðsins var ekki meira en svo að hagsmunir eigendanna réðu öllu um efnistök þess í málinu.
Fjölmiðlamálið reyndist síðan vera undanfari þess að málgögn voru endurreist um hríð. Losarabragur og óreiða í samfélaginu varð til þess að það blasti við að fæstir voru að standa sig. Enginn átti neina inneign hjá þjóðinni. Stjórnmálamenn brugðust við með því að endurvekja gamaldags flokksblöð, sem höfðu fyrst og fremst það hlutverk að skila skömminni á „réttan stað“. Í hinu sprungna samfélagi eftirhrunsáranna ríkti kalt stríð milli stjórnmálaafla.
Nú eru flest málgögnin dauð aftur. Eftir þrjú ár verður Davíð orðinn jafn gamall og Styrmir var þegar hann hætti að ritstýra Mogganum. Samfylkingin virðist sjálf vera í dauðateygjunum – og fær líklega þann dóm sögunnar að hafa aldrei orðið annað en langdregin dauðastuna úr munni R-listans. Vinstri grænir nenntu ekki einu sinni að lesa Smuguna sjálfir eftir að ljóst varð að þeir voru komnir í hefðbundinn sess aftursætisbílstjóra í íslenskum stórnmálum. Eini flokkurinn sem virðist vera á fullri fart við að sölsa undir sig fjölmiðla er blessunin hún Framsókn.
Stóra samhengið er auðvitað það að fjölmiðlun er að breytast fyrir augunum á okkur. Fjölmiðlun hefur alltaf snúist um hvaða efni fer fyrir augu fólks og í hvaða búningi. Vald yfir því hefur flust yfir til eigenda tækni- og hugbúnaðarfyrirtækja frá hefðbundnum ritstjórum. Allur þunginn um þessar mundir er á því að skapa réttar „upplifanir“ og stuðla að sölu.
Hversu langt slíkt módel getur þróast og hversu lengi það getur hjarað er óráðið spil. Sjónvarpið er að mestu leyti dautt. Að hluta til vegna þess að það drekkti sér í sölumennsku. Að hluta til vegna þess að það er úrelt tækni. Þörfin fyrir alvöru blaðamennsku verður áfram til. Alveg eins og þörfin fyrir alvöru kvikmyndir eða tónlist. En það mun reynast nokkuð erfitt að koma henni fyrir í öndvegi næstu árin að minnsta kosti.
Alveg óháð því hve ótímabær útrás í prentmiðlun er hefur títtefndur Björn Ingi spilað marga afleiki upp á síðkastið. Það er enginn hörgull á illa stæðum miðlum sem hægt væri að sópa undir einn hagræðingarhatt. Það væri hægt að kaupa einn miðil á viku á hrakvirði ef maður væri á þeim skónum. Það er álíka erfitt og að kaupa notaðar vídeóspólur í Góða hirðinum.
Það bitnar samt óneitanlega á trúverðugleika þegar keyptir eru upp miðlar sem reynst hafa erfiðir þeim stjórnmálaöflum sem maður sjálfur er handgengur. Og gera það með hætti sem vekur spurningar um tilganginn.
Yfirtakan á DV var auðvitað margþætt. Miðillinn hafði eignast ýmsa óvini og ritstjórn hans hafði verið með þeim hætti að í einhverjum tilfellum var óvildin skiljanleg. Síðustu mánuðina áður en Björn Ingi sölsaði DV undir sig var þó greinileg togstreita í gangi þar sem stjórnvöld, m.a. þau stjórnmálaöfl sem Björn Ingi er persónulega mjög tengdur, reyndu án afláts að hunsa réttmætar uppljóstranir blaðamanna um alvarleg misferli í meðferð valds. Enn í dag neita formenn ríkisstjórnarflokkanna og aðrir viðkomandi að horfast í augu við aðgerðir sínar – eða öllu heldur aðgerðaleysi. Málið var þeim mun alvarlegra vegna þess að tveir af stærstu miðlum landsins höfðu frekar kosið að gerast þjófsnautar í málinu en að vinna vinnuna sína svo sæmilegur bragur væri að.
Öll meðferð Björns Inga á yfirtökunni verður að skoðast í þessu ljósi. Annað er ekki hægt. Að velja síðan almannatengil og áróðursmeistara sem hefur atvinnu af því að slá ryki í augun á fólki til að gera úttekt á blaðinu og sölsa það svo undir sjálfan sig er ámælisvert í sjálfu sér. Sama þótt áróðursmeistarinn sé gamall blaðamaður sem sverji fyrir tengsl við Framsókn en hreyki sér síðan af því við hátíðleg tækifæri að hafa á fylleríi slegist með Halldóri Ásgrímssyni í Skagafirði – og unnið.
Mér var að minnsta kosti persónulega misboðið af atburðarásinni og yfirgaf bloggið á Eyjunni í kjölfarið. Færði skrif mín hingað og í Kjarnann – og tel mig hafa gert rétt.
Yfirtakan nú á vikublöðunum er brennd sama marki. Bæði blöðin hafa haft brodd. Reykjavíkurblaðið hefur verið mjög vinstri sinnað (nánast málgagn) og Akureyrarblaðið hefur komið við ýmsa kauna upp á síðkastið.
Þegar faðir formanns Framsóknarflokksins steig fram og kvartaði undan Reykjavíkurblaðinu hefðu menn með alvöru blaðamennskuprinsipp aldrei látið sér detta það í hug að reyna að sölsa blaðið undir Framsóknarflokkinn. Það er of augljóst. Of rangt.
Samt er það gert.
Fyrst og fremst vegna þess að það er hægt. Blaðaútgáfa á Íslandi er eins og fyrrverandi eigandi vikublaðanna: Aldurhnigin og leið á því að komast ekki til Costa del Sol í alminlegt frí.
Það er auðvelt að láta sem þetta skipti sáralitlu máli. Á vissan hátt er það meira að segja rétt. Það er pínulítið eins og Björn Ingi sé að kaupa upp vídeóleigur, fylla þær af Falcon Crest og Dalalífi og henda óþægilega ögrandi efni í ruslið.
Á hinn bóginn má segja að það sem fyrst og fremst hefur veikst í íslenskri fjölmiðlun eru stórir miðlar. Einstaka blaðamenn og ritstjórar, jafnvel smárra miðla, búa við óþekkt tækifæri til að opna á mál. Þeir þurfa aðeins markmvisst að nýta sér breytta miðlun. Eins og Ingimar Karl, Björn, Jóhann Páll og Bjarki hafa raunar margsannað á síðustu mánuðum og misserum. Í öllum þessum mönnum hefur verið þróttmikill púls. Mun öflugri en styrkur þess rekstrar sem haldið hefur utan um þá.
Þess vegna er ömurlegt að horfa upp á þá kramda í greipum stuðningsmanna valdsins. Alveg sama hvaða búningi það er klætt.
En þegar öllu er á botninn hvolft þurfti DV meira á Jóhanni Páli og Bjarka að halda en þeir á DV. Og vikublöðin þurftu svo sannarlega meira á ritstjórum sínum að halda en þeir á blöðunum. Og miðað við atburðarásina þurfti Ámundi Ámundarson meira á Costa del Sol að halda en alvöru ritstjórum.
Tilraunir til að staðdeyfa íslenska blaðamennsku með því að sölsa undir sig veikburða fjölmiðla eru dæmdar til að fara á sama hátt og tilraunir til að banda frá sér vespu með upprúlluðu vikublaði. Ef maður gætir sín ekki á maður á hættu að þurfa annaðhvort að forða sér á hlaupum – eða verða stunginn.
Mynd með færslu (CC): Orin Zebest
Athugasemdir