Versló vill samræmdu prófin sín aftur
Fæst fólk er því miður meðvitað um átakalínur í íslenskum menntamálum. Menn taka skólakerfinu sem gefnum hlut og hafa annað hvort þá skoðun að allt sé í himna lagi eða að allt sé í kalda kolum. Raunin er sú að alþjóðlegar stefnur og straumar leika um íslenskt samfélag að þessu leyti sem öðru.
Setulið skólakerfisins
Þegar skólastjóri Versló kemur fram í fjölmiðlum og vill fá samræmdu prófin sín aftur er það ekki einangrað tilvik. Tilgangur hans er a.m.k. tvíþættur.
Í fyrsta lagi eru inntökureglur skólans með þeim hætti að fjöldi fólks verður alveg óskaplega reiður á hverju sumri þegar höfnunarbréfið berst. Þá er betra að beina athyglinni eitthvert annað og reyna þannig að verða ekki fyrir reiðinni sjálfur.
Í öðru lagi er verið að halda á lofti skólastefnu sem tengja má við Verslunarráð og atvinnulífið. Gögnin í bréfi Versló í gær birtust til að mynda í skólastefnu verslunarráðs fyrir nokkrum mánuðum. Sú skýrsla er athyglisverð lesning. Þar er til dæmis gengist við því að framhaldsskólinn sé undirfjármagnaður en þð megi samt græða peninga með því að stytta hann í þrjú ár – og að stóra, fjárhagslega tækifærið í íslensku skólakerfi sé að hagræða í launum grunnskólakennara. Skólastjóri Versló er ekki aðeins að tala fyrir hönd síns skóla – hann talar fyrir hönd heilla herbúða. Hann stillit sér upp með setuliðinu sem hefur skólakerfið á valdi sínu.
Samræmd próf eru í fullu fjöri
En tölum aðeins um samræmd próf. Ég hef oft gert það áður. Þau er léleg. En þau eru fyrirsjáanleg. Þegar ég sem kennari hef undirbúið börn undir þau markvisst hafa nemendur mínir náð á þeim góðum árangri. Samt á ekki að undirbúa nemendur undir þau. Það skaðar nákvæmni þeirra sé það gert. Þegar ég hef kennt án þess að stíla inn á samræmdu prófin hafa einkunnir á þeim lækkað – en kennslan um leið orðið miklu betri.
Byrjum samt á byrjuninni. Það er ekki búið að leggja samræmd próf niður. Bara alls ekki. Þau eru í fullu fjöri og þeim á bara eftir að vaxa fiskur um hrygg. Það er hinsvegar búið að klippa burt aðgang framhaldsskóla að einkunnum úr þeim. Þau eru ekki lengur inntökupróf fyrir framhaldsskóla. Þess saknar Versló.
Ef Versló hefur svona miklar áhyggjur af stöðu nemenda ætti skólinn auðvitað fyrir löngu að hafa tekið upp inntökupróf sem miða eingöngu við þær námskröfur sem skólinn setur á oddinn. Það er að vísu ágætt að það sé ekki gert. Slíkt próf gæti til dæmis valdið því að nemendur vanræktu nám sitt að öðru leyti til að standa sig vel á inntökuprófinu. Það gæti komið skólanum og nemendum í koll seinna eins og ég mun fjalla um á eftir.
Aðlaðandi röksemd
Horfumst fyrst í augu við aðdráttarafl eftirfarandi röksemdar:
Samræmd próf hljóta að vera mikilvægur þáttur í því að fá raunsanna og samræmda mynd af árangri og hæfni nemenda. Þau ætti að endurvekja – ekki síst í ljósi þess að skólaeinkunnir eru augljóslega ekki nógu áreiðanlegar.
Þetta er sannfærandi röksemd.
Hún er samt röng. Munum að samræmd próf eru haldin. Þau mæla hitt og þetta (að vísu aðallega ómerkilega þætti) en ekkert lát er á þeim. Hér er aðeins verið að fást við þá spurningu hvort framhaldsskólar eigi að mega stjórna inntöku nemenda með því að styðjast við samræmd próf.
Skólastjóri Versló gefur okkur viðmiðið. Hann segir:
„Hin síðari ár höfum við of mörg sorgleg dæmi þess að nemandi með einkunn upp á 9,0 og 9,5 í stærðfræði og íslensku í skólaeinkunn úr grunnskóla nái jafnvel ekki lágmarksviðmiðum í hvorugri greininni á sínu fyrsta ári í Verzlunarskólanum.“
Geymum það í smá stund að þessi texti um hnignun íslenskukunnáttunnar er ábendingarskilgreining um vond tök á íslensku. Það er aukaatriði (þótt það skipti pínulitlu máli í samhenginu). Horfum aðeins á þann vinkil að þær einkunnir sem nemendur eru valdir inn á í framhaldsskóla ættu að hafa forspárgildi um árangur þeirra í grunnfögum viðkomandi framhaldsskóla. Skoðum tvennt í því samhengi.
(Eiga einkunnir) að spá fyrir um árangur?
Í fyrsta lagi er einhver ónotakennd tengd því að námsmat í grunnskóla ætti að taka mið af kennsluháttum og efnistökum í tilteknum framhaldsskólum. Ég skoðaði til dæmis grunnáfanga í stærðfræði í Versló frá því fyrir tíu árum og svo nú. Ég sá ekki að hann hefði breyst nokkurn skapaðan hlut. Að vísu hefur hann rýrnað eitthvað örlítið en að öðru leyti er áfangalýsingin sú sama þá og nú. Raunar er mikilvægur kjarni hans rúmlega 2300 ára gamall. Sem ég kann í sjálfu sér alveg að meta á sinn hátt.
Hinu verð ég þó að gangast við að ég hef fyrir löngu tekið upp annað viðhorf til náms og kennslu en það að mestu skiptir að koma til skila ákveðinni, innpakkaðri þekkingu til stórra hópa nemenda í einu. Að mínu mati skiptir ekki minna máli að efla með nemendum sjálfstæði í hugsun, ábyrgð á eigin námi, frumkvæði, frumleika og tilfinningu fyrir tilgangi með þessu öllu. Ég held að til lengri tíma litið skili slíkir nemendur mun meiri árangri þótt þeir geti virst fara hægar yfir í fyrstu en þeir sem opna bara kokið og éta það sem í þá er borið.
Ég ætla því að gangast við ákveðinni hugmyndafræðilegri togstreitu í garð námsmats og kennsluhátta sem litar viðhorf mitt til þess að samræma skólakerfið. Jafnvel þótt ég viðurkenni að meiri samræming geri ýmislegt auðveldara, eins og það að gera upp á milli nemenda.
Tökum þann vinkil samt alveg út fyrir sviga. Gefum okkur að ég og aðrir á sömu tíðni höfum rangt fyrir okkur um þetta mikilvæga grundvallaratriði. Það sé einfaldlega afar mikilvægt að einkunnir við lok grunnskóla hafi forspárgildi í framhaldsskóla.
Gott og vel.
Hversu góður mælikvarði eru samræmd próf?
Það hefur lengi verið næstum óvefengjanleg „staðreynd“ að illt sé að treysta á flöktandi einkunnir einstakra skóla. Nær sé að hafa burðug og stöðug samræmd próf til að tryggja að framhaldsskólinn njóti einhvers gæðaeftirlits í námsmati.
Vandinn er að þessi skoðun er ekki studd með þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið.
Ég ætla að leyfa mér að birta hér hluta af niðurstöðum slíkrar rannsóknar. Hún er bandarísk og skoðar hvort tengsl eru milli mælanlegra þátta við lok framhaldsskóla (high school) og árangurs í háskóla (university). Í BNA útskrifast nemendur 18 ára úr framhaldsskóla en 16 ára úr grunnskóla hér. Ein af röksemdunum fyrir því að stytta framhaldsskólann hér um eitt ár er sú að tvítekning sé í grunnfögum á milli grunnskóla og framhaldsskólastigs. Þessi rannsókn ætti því að vera marktæk í þessu samhengi. Þess má loks geta að einstök samræmd próf eru greind sérstaklega í þessari rannsókn.
Fylgni er gefin upp í sviga aftan við áhrifaþátt. Hér skoðum við niðurstöðurnar fyrir Berkeley-háskóla (þær eru í samræmi við alla hina skólana í rannsókninni):
Stórt meðaltal af námsárangri á fyrra skólastigi (0,23).
Samræmt próf A (-0,03),
Samræmt próf B (-0,01),
Samræmt próf C (0,13),
Samræmt próf D (0,05),
Samræmt próf E (0,05),
Menntunarstig foreldra (0,06),
Efnahagur foreldra (0,01),
API-einkunn* fyrri skóla (0,06).
Niðurstaðan blasir við. Ef undan er skilið samræmt próf C eru samræmd próf augljóslega vonlaus mælikvarði ef ætlunin er að spá fyrir um gengi á næsta skólastigi. Sá mælikvarði sem gefur lang skýrasta mynd ef námsárangur nemandans yfir lengra tímabil á fyrra skólastigi. Sá árangur er að sjálfsögðu ekki staðlaður, einfaldur eða auðskilinn.
Samkvæmt þessu ætti Versló að skoða allt einkunnaspjaldið. Og helst þyrfti hann að sjá hvernig nemandanum gekk í 8. og 9. bekk. Nemendinn mun líklega fyrr eða seinna falla aftur í það far sem honum er eiginlegast. Árangur á samræmdu prófi getur verið tilfallandi eða jafnvel blekkjandi. Hið sama myndi ég ætla að gilti um inntökupróf væri þeim komið á.
Í stað breiðs mats miðar Versló við einkunn í íslensku or stærðfræði og lætur hvora einkunn um sig gilda tvöfalt. Síðan eru fiskaðar út tvær hæstu einkunnir af spjaldinu í viðbót úr ákveðnum flokki greina (sem munu í flestum tilfellum vera 10 eða 9,5). Og svo er skólinn hissa á því að forspárgildið sé lítið og meðaleinkunnir háar! Ef eitthvað er að marka rannsóknina hér að ofan er næstum öruggt að svona inntökuferli hefur sáralítið forspárgildi. Skólinn þarf miklu meiri upplýsingar um nemandann vilji hann að gögnin spái fyrir um árangur.
Samræmda prófið sem virðist geta spáð
Skoðum samt aðeins þetta samræmda próf C. Prófið sem virðist hafa nokkuð forspárgildi. Þetta próf er próf í ritun. Það er ekki stafsetningarpróf eða smásmyglipróf. Það mælir t.d. gagnrýna hugsun. Nemendur eru látnir skrifa texta og greina texta með tilliti til innihaldssins. Nemandi sem stendur sig vel á þessu prófi myndi til dæmis aldrei verða uppvís að því að nota tvöfalda neitun eins og tildæmis þessa:
„Hin síðari ár höfum við of mörg sorgleg dæmi þess að nemandi[...] nái jafnvel ekki lágmarksviðmiðum í hvorugri greininni á sínu fyrsta ári í Verzlunarskólanum.“
Hann myndi heldur ekki falla fyrir eftirfarandi röksemd gagnrýnilaust:
„Samræmd próf hljóta að vera mikilvægur þáttur í því að fá raunsanna og samræmda mynd af árangri og hæfni nemenda. Þau ætti að endurvekja – ekki síst í ljósi þess að skólaeinkunnir eru augljóslega ekki nógu áreiðanlegar.“
Nemandi sem stendur sig vel á þessu tiltekna prófi er næmur á tengsl forsendna og niðurstaðna og gagnrýninn á rökleiðslur. Og hann er ritfær.
Þegar þessi færni fer saman með minnkandi metnaði í námi er hún stöndum kölluð eiginleikinn til að „kjafta sig fram úr prófum“. Heldur er litið niður á eiginleikann. Nemendur af þessu sauðahúsi er gjarnan erfitt að samræma. Þeir fara þá oft sínar eigin leiðir og ef menntakerfið reynist þeim ekki áskorun eiga þeir það til að sóa hæfileikum sínum.
En áfram með smjörið. Ritunarprófið er ágætur mælikvarði á framtíðar árangur. Getur þá ekki verið að íslenska samræmda prófið sé eftir sem allt ágætur mælikvarði fyrir Versló og aðra skóla? Er ekki ómögulegt að vita hvaða áherslu grunnskólarnir leggja á ritun og gagnrýna hugsun?
Verri er slappur fugl í hendi en lifandi í skógi
Í sjálfu sér er næstum ómögulegt að vita hvaða áherslu skólar leggja á ritun og gagnrýna hugsun. Við vitum það þó með fullkominni vissu að ritun er skipulega úthýst af íslenska samræmda prófinu. Í dag er hún varla mæld. Ástæðan er sú að það er vesen að meta ritun. Það kostar peninga, það er varla gert með krossaspurningum og því þarf manneskjur til að fara yfir. Og þær manneskjur sem yfirfara ritunina eru vægast sagt mistækar. Ég hef lesið algjörlega stórkostlegan texta sem skrifaður var á samræmt próf sem í meðförum prófdómara fékk mjög slaka einkunn. Textinn ólgaði af frumlegri, gagnrýnni hugsun. Það voru bara engin stig fyrir það.
Ritun hefur verið helminguð á samræmdum prófum upp á síðkastið og nú er svo komið að hún fæst ekki við innihald lengur, aðeins ytri formseinkenni.
Rýnum dýpra í spákúluna
Annars eru þessi vísindi um forspárgildi afar áhugaverð. Það virðist til dæmis ekki hafa haft nein neikvæð áhrif á aðsókn að Versló að nemendur þaðan virðast ekki ná nærri því eins góðum árangri í háskóla og nemendur með svipaða námshæfni í lok grunnskóla sem fara í aðra framhaldsskóla. Skólinn tekur inn nemendur með hæstu eða næsthæstu einkunnameðaltöl á landinu en skilar inn í háskóla nemendum sem virðast ósköp venjulegir og lítið framúrskarandi.
Þeim mun undarlegra er að það sveitarfélag á Íslandi sem mest stærir sig af árangri á samræmdum prófum (og Pisa) virðist skila nemendum afar illa stemmdum í háskólanám.
Með öðrum orðum: Nemendur sem fá staðfestingu frá umhverfi sínu um að þeir séu framúrskarandi góðir snemma á námsævinni virðast hafa tilhneigingu til að koðna niður eftir því sem námsævin lengist.
Til hvers er menntun?
Menntun er miklu viðameira verkefni en svo að hún verði smættuð niður í einfaldar hagstærðir. Góð menntun byggir á skólakerfi sem verðlaunar hugrekki, þor og ástríðu. Það á að gefa fólki næði til að átta sig. Fólk á að fá að hrasa og standa upp aftur. Fyrst og fremst þarf fólk að fá að þroskast af námi sínu og sjá einhvern tilgang í því.
Nemandi sem fær að vera dirfkraftur í eigin námi mun aldrei ná jafn „skilvirkum árangri“ og nemandi sem situr að mestu aðgerðalaus og lætur kennara mata sig fyrir prófin. En munurinn er sá að fyrri nemandinn mun vaxa og eflast með tímanum. Sá seinni verður á endanum lítið annað en mennsk útgáfa af útkrotaðri hurð á almenningssalerni.
*API-einkunn stendur fyrir Academic Performance Index og er tilraun til að meta gæði skóla innbyrðis með samræmdum hætti.
Mynd með færslu: Richard Masoner
Athugasemdir