Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Vefþjóðviljinn og þjóðareignir

Vefþjóðviljinn og þjóðareignir

Morgunblaðið birtir með nokkurri velþóknun hluta af pistli úr Vefþjóðviljanum um það að krafan um þjóðareign á auðlindum sé ruglumbull. Þjóðir geti ekki átt neinar eignir, ekki einu sinni eldspýtustokka.

Án þess að það komi fram í pistlunum er hér verið að enduróma gamla umræðu sem á rætur að rekja til starfa Auðlindanefndar fyrir síðustu aldamót. Þá skrifuðu lögfræðingarnir Sigurður Líndal og Þorgeir Örlygsson lögfræðiálit fyrir nefndina um þjóðareign á auðlindum. Niðurstaða þeirra var að þjóðareignarhugtakið væri byggt á sandi.

Þar sem hugtakaskilgreiningar eru viðfangsefni heimspekinnar kom ekki á óvart að Þorsteinn Gylfason svaraði viðhorfi lögfræðinganna (að vísu ekki þessu tiltekna áliti heldur grein Þorgeirs um sama efni sem hnitaðist um sömu röksendafærslu). 

Umræður um þjóðareignarhugtakið voru m.a. inntak í heimspekiritgerð sem ég og Árni Guðmundsson skrifuðum um réttlæti og ranglæti í kvótakerfinu fyrir hálfum öðrum áratug. Þar röktum við ofangreindar umræður um þjóðareignina og ræddum niðurstöðurnar. Að vissu leyti er það fagnaðarefni að málið sé aftur komið á dagskrá. Þjóðareignarumræðan er nefnilega alls ekki eins einföld og bæði stuðningsmenn þjóðareignar á auðlindum og andstæðingar vilja vera láta.

Sigurður og Þorgeir voru beðnir um að útskýra hvað felst í hugtakinu „þjóðareign“ eða „sameign þjóðarinnar“. Þeir komast að tvíþættri niðurstöðu: Í fyrsta lagi þeirri að sérstakt eðli fiskistofnanna komi í veg fyrir að hægt sé að tala um þá sem eign. Í öðru lagi því að ekki sé hægt að tala um þjóðina sem eiganda.

Svar Þorsteins er á þá leið að hér skorti lögfræðingana víðsýni. Eignarhugtakið sé flóknara en svo að hægt sé að skilgreina það út frá einföldum rétti til ráðstöfunar (svo sem veðsetningar, sölu og arfleiðslu). Hann bendir á að hver maður eigi augun í sjálfum sér. Það þýði ekki að hann geti selt þau eða veðsett. Óumdeilanlega staðreyndin sé að þjóðin eigi fjöldamargar eignir og því sé ekki hægt að hafna þótt lögfræðingar eigi í erfiðleikum með að skilgreina áhrif þess. 

Og víst á þjóðin eignir. Á 50 ára afmæli lýðveldisins pöntuðu Bretar tónverk og gáfu íslensku þjóðinni að gjöf. Efnislegra dæmi er Skarðsbók sem keypt var á uppboði árið 1965 fyrir tilstuðlan íslensku bankanna og færð þjóðinni að gjöf. Það að þjóðin hafi ekki kennitölu dregur ekki úr þeirri staðreynd að hún á eitt og annað. Hver á íslenska ríkið ef ekki hún?

Af hverju skyldi íslenska þjóðin ekki geta átt fiskinn í sjónum?

Eitt álitamál kemur upp. Samkvæmt alþjóðlegum samningum er munur á landhelgi og efnahagslögssögu. Eitt er það að sá eignaréttur sem óumdeilt er til staðar innan landhelgi er ekki til staðar utar í lögsögunni. Í efnahagslögssögu sinni hafa ríki nýtingarrétt en ekki beinan eignarétt. Ef íslenska ríkið vill fara eftir alþjóðlegum sáttmálum má færa rök fyrir því að óheppilegt sé að halda því fram að þjóðin eigi fiskinn utan 12 mílna. Þar getur hún strangt til tekið aðeins átt réttinn til að veiða hann. En þessi sami réttur er það sem gjarnan er kallað kvóti.

Því er oft ranglega haldið fram að þjóðin eigi kvótann. Íslensk lög kveða aðeins á um að þjóðin eigi fiskinn. Kvótinn er það sem gengur kaupum og sölum milli einstaklinga. Kannski er rétt að breyta lögum á þann veg að þjóðareign á veiðiheimildum sé staðfest ef raunverulegur vilji er til að skilgreina eiganda auðlindarinnar með þeim hætti sem gert er. Innan 12 mílna eru engin slík vandkvæði.

Vandinn við afgreiðslu Sigurðar og Þorgeirs er, eins og við Árni bentum á, að lögfræðiálit þeirra um inntak þjóðareignarhugtaksins er hvorki fugl né fiskur ef grannt er gáð. Það blasir eiginlega við ef niðurstaða þeirra er lesin:

„Með hliðsjón af framansögðu er það álit okkar, að orðalagið „sameign íslensku þjóðarinnar“ í 1. gr. laga nr. 38/1990 sé villandi, ef með því orðalagi er verið að gefa til kynna hefðbundinn eikaeignarrétt þjóðarinnar yfir þessum auðlindum“

Þetta álit er í senn ódýrt og ómerkilegt. Það sést ef við skerum allt burt nema kjarna þess:

Það er álit okkar að villandi sé að segja sameign ef maður er að tala um einkaeign.

Þetta er í raun það sem lögfræðingarnir eru að segja. Þetta er líka það sem Vefþjóðviljinn er að tala um og það sem Mogginn er að vísa til. 

Aðferðin er þessi: Eignarhugtakinu er lýst með einkennum einkaeignar og síðan er sagt að þessi einkenni passi illa við sameignir. Þess vegna geti sameign ekki verið eign.

Svona framsetning er auðvitað ekki boðleg. Sérstaklega ekki þegar haft er í huga að Sigurður og Þorgeir voru alls ekki beðnir um að álykta um það hvort með sameign þjóðarinnar væri verið að gefa í skyn að um einkaeign væri að ræða. Þeir voru beðnir um að útskýra hvað fælist í hugtakinu „sameign“. Þeir gerðu enga tilraun til þess. Afgreiddu málið með léttu spjalli um að sameign væri flókin, sósíalísk hugmynd.

Kvótamálin verða aldrei afgreidd með einföldum vísunum í auðskilið hugtakakerfi einkaeignar. Það væri ekkert kvótakerfi ef menn höfnuðu sameiginlegum hagsmunum. Kvótakerfið er réttlætt með því að það sé andstætt þjóðarhagsmunum að láta einföld samkeppnislögmál gilda um sjávarútveg. Tryggja þarf sterk og góð rekstrarskilyrði með því að verja stöðu þeirra sem fá að sækja sjó.

Því skyldu þjóðarhagsmunir vera til en ekki þjóðareignir?

 

Mynd með færslu (CC): Jenny Downing

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni