„Unglingauppreisn“ bæld niður í Ljónsborg
Singapúr er merkilegt ríki. Í ár hefur það verið sjálfstætt í nákvæmlega hálfa öld. Á þessari hálfu öld hefur það komist í fremstu röð ríkja. Hvergi er hærra hlutfall auðjöfra. Ungbarnadauði er sá lægsti í heiminum og menntakerfið í toppklassa.
Singapúr er borgríki. Nafnið þýðir bókstaflega „Ljónsborg“, sem er nokkuð skondið því engin ljón eru í þessum heimshluta. Svo virðist sem gamalgróinn misskilningur, þar sem ljóni og tígri var ruglað saman, hafi stuðlað að þessari nafngift.
Óviðjafnanlegur vöxtur
Vöxtur ríkisins frá „þriðja heims þróunarríki“ til öflugs nútímaríkis á örfáum áratugum er óviðjafnanlegur. Raunar er allur þessi heimshluti á slíkri siglingu að mörgum óar við því á hinum rótgrónu Vesturlöndum. Við megum búast við því að sérstaða okkar í heiminum sé svo gott sem úr sögunni.
Aðdáunin á Singapúr hefur þó lengi verið nokkuð málum blandin.
Samkynhneigðir eru veikir
Á tímabili fullyrti Amnesty International t.d. að hvergi í heiminum væru hlutfallslega fleiri teknir af lífi. Stjórnvöld þrættu fyrir það og svo virðist sem aftökum hafi fækkað mjög hin síðari ár. Það er þó hafið yfir allan vafa að þeim hefur verið beitt í nokkuð stórum stíl í gegnum tíðina og dauðarefsing liggur enn við fjölda glæpa, allt frá morði og nauðgunum til fíkniefnasmygls og þess að skjóta af byssu í óleyfi.
Þá er samkynhneigð (karla) bönnuð í Singapúr á þeim forsendum að hún sé viðurstyggð. Fram til 2007 voru munnmök og endaþarmsmök bönnuð með öllu. Þá voru gerðar breytingar sem heimila gagnkynhneigðum og lesbíum að stunda það kynlíf sem fólk kýs en kynlíf samkynhneigðra karla er enn bannað. Lögunum er þó sjaldan beitt. Samkynhneigð er í lögunum skilgreind sem geðveila og fellur þar í flokk með kynáttunarvanda og barnagirnd!
Jafn margir milljónamæringar og fátæklingar
Á síðustu árum hefur misskipting auðs og raunveruleg fátækt komið upp á yfirborðið sem áður hulið vandamál. Talið er að á bilinu 10-20% þjóðarinnar lifi við fátækt. Þegar haft er í huga að á milli 15-20% eru milljónamæringar (eiga yfir milljón dollara) kemur ekki á óvart að misskipting auðs er líklega hvergi meiri. Þetta er þó hulinn vandi vegna þess að ýmsar ráðstafanir hafa hingað til komið í veg fyrir að fátæktin skili sér í mikilli félagslegri upplausn. Risablokkir tryggja öllum húsnæði og ríkið sér til þess að kostnaður við menntun er greiddur fyrir börn fátækra.
Skóli með aðgreiningu
Menntakerfið mælist reglulega eitt það besta í heimi. Nemendur mælast afar færir í alþjóðlegum samanburði. Árangurinn er þó umdeilanlegur hér eins og á fleiri sviðum samfélagsins. Singapúr neitaði til dæmis lengi vel að staðfesta sáttmála um rétt allra barna til menntunar. Börn, sem ekki þóttu fallin til náms, voru einfaldlega ekki tekin inn í skólana. Þetta er þó líklega að breytast.
Í fyrirsjáanlegri framtíð mun ríkið þurfa að treysta á innflutning fólks. Hver kona í ríkinu eignast ekki nema 0,6 börn að meðaltali. Það er auðvitað ávísun á gríðarlega fækkun íbúa. Nokkrar áhyggjur hafa vaknað þar (eins og raunar víðar í heimshlutanum) vegna kjara og lífsskilyrða aðfluttra. Sérstaklega þykir staða kvenna í þjónustuhlutverkum vond. Sumir telja að hún jafnist fyllilega á við nútíma þrælahald.
Lítil spilling
Í Singapúr er ekki ætlast til þess að fólk sé á framfæri hins opinbera í ellinni. Fólk á að afla sér nægra tekna til að geta séð um sig sjálft. Samfélagið allt er gríðarlega samkeppnisdrifið. Vafalaust spilar það ekki litla rullu í árangrinum sem náðst hefur. Samkeppnin hefur samt líka sitt að segja um það hvaða vandamál grassera. Leikreglurnar eru skýrar og þeirra er gætt. Í Singapúr mælist lítil spilling. Líklega yrði allt brjálað ef spilling færi að þrífast því þar með yrði grafið undan samkeppninni. Það er mikilvægt að hver og einn telji að hann eigi sama séns og næsti maður.
Samkeppnin nær ekki síst til skólakerfisins. Árangur skiptir öllu máli. Það er, árangur á prófum. Í einni athugun á 100 börnum kom í ljós að 97 þeirra sóttu tíma í einkakennslu utan skóla. Mikill markaður er fyrir slíka kennslu og hún er dýr. Þegar skóla lýkur flyst áherslan yfir á að ná í gott starf og eignast dýra hluti.
Flöktandi hamingja
Heilmikil undiralda hefur verið í samfélaginu síðustu ár vegna þess að margir telja að lífgæðakapphlaupið sé innantóm efnishyggja. Rannsóknir á hamingju virðast að einhverju leyti staðfesta það. Stundum mælist hamingja í Singapúr mikil (jafnvel sú mesta í Asíu) en stundum afar lítil. Svo virðist sem þar ráði mestu hvernig er mælt. Alþjóðlegar hamingjurannsóknir hafa nefnilega tilhneigingu til að leggja mikla áherslu á efnislega þætti eins og aðgang að menntun og heilsugæslu. Þar standa þarlendir sig ævinlega vel. En þegar kíkt er undir yfirborðið og sjálf líðanin mæld kemur í ljós önnur mynd.
Ég sá í dag að doktorsrannsókn við Birmingham-háskóla á skólakerfi S-Kóreu sýni allt aðra og óglæsilegri mynd af skólakerfi landsins en hingað til hefur sést í OECD-úttektum. Á yfirborðinu er S-Kórea að gera allt rétt í menntamálum. Undir niðri virðist grassera tilfinningalegt ofbeldi og kúgun. Allra síðustu mánuði hafa vaknað áleitnar spurningar um Singapúr í svipuðu samhengi.
16 ára unglingur dæmdur fyrir níð
Tilefnið er myndband sem þarlendur unglingur, Amos Yee, setti á netið þegar fyrrverandi leiðtogi og stofnandi ríkisins, Lee Kuan Yew, lést fyrr á þessu ári. Amos, sem er 16 ára, hefur verið afar gagnrýninn á samfélagið í Singapúr í myndböndum og í bloggi. Í áðurnefndu myndbandi sagði hann gott að gamli leiðtoginn væri dauður og að hann óskaði þess að hann hvíldi ekki í friði. Undir yfirborði manngæsku og góðvilja hefði hann skapað samfélag sem væri skrímsli. Það væri hægt að líkja honum við marga einræðisherra en best væri að bera hann saman við Krist. Kristnin væri stefna af sama sauðahúsi, ekkert nema dýrðin á yfirborðinu en kúgandi meinsemd undir niðri. Síðan beit hann höfuðið af skömminni með því að setja mynd á bloggið sitt af leiðtoganum látna í samförum við Margréti Thatcher.
Fjöldi Singapúra kærði Amos til lögreglu og hann var handtekinn tveimur dögum seinna. Í fyrradag féll svo dómur. Hætt var við að reyna að fá hann dæmdan fyrir níð um leiðtogann og þess í stað var hann kærður fyrir að smána kristna.
Verða ekki að vera mörk á málfrelsinu?
Viðbrögðin í Singapúr gagnvart honum voru afar harkaleg og neikvæð. Fjöldi unglinga setti inn sín eigin myndbönd þar sem honum var svarað (myndböndin eru raunar furðulík og byrja næstum öll á því að viðkomandi hrósar honum fyrir hugrekkið eða enskukunnáttuna en...). Þegar Amos mætti til dóms stökk á hann fimmtugur maður og löðrungaði hann. Hann sagðist vilja kenna honum lexíu. Barnastjörnur hafa komið fram í sjónvarpi til að áfellast hann. Yfirleitt alltaf með sömu rökum: „Verður ekki rétturinn til málfrelsis að vera afmarkaður af því að maður særi ekki aðra?“ Frægt fólk steig fram, eins og honum til varnar, og fullyrti að menn skyldu ekki dæma hann. Sumir sögðu að hann væri augljólega veill á geði og aðrir sögðu að þetta væri ekki honum að kenna heldur foreldrum hans. Þeir hefðu aldrei átt að leyfa honum að verða svona.
Andúð forsenda framfara
Í réttarhöldunum gekkst Amos við því að hann gerði sér grein fyrir því að með því að tala svona skapaði hann andúð. En það að skapa andúð væri nauðsynleg forsenda jákvæðra samfélagsbreytinga, sérstaklega ef málefnið væri umdeilt.
Mannréttindasamtök veittu málinu athygli. Á það var bent að það væri á skjön við öll eðlileg mannréttindi að dæma einstakling fyrir skoðanir og ummæli af þessu tæi. Allt kom fyrir ekki. Amos var fundinn sekur í fyrradag og mun í framhaldinu sæta refsingu sem væntanlega verður blanda af sekt, skilorðsbundnum dómi og meðferð.
Þeir sem vilja sjá myndbandið geta horft á það hér. Amos má ekki deila því en það er ekki ólöglegt fyrir aðra að deila því. Þess vegna finnst það enn á Youtube.
Unga kynslóðin óalandi
Í kjölfar þess að Amos var löðrungaður af fimmtuga manninum (sem fékk refsingu fyrir) spruttu nokkrar umræður um stóra samhengið.
Ýmsir af eldri kynslóðinni sögðu að Amos væri ekki eina vandamálið. Hann væri einungis enn eitt dæmið um það unga ungu kynslóðina í Singapúr skorti virðingu fyrir stöðu sinni í samfélaginu.
Líklega er það rétt. Jafnvel þótt hver einasti nemandi í ríkinu sé látinn fara með eið á hverjum degi í skólanum og reynt sé að halda gagnrýni í skefjum með refsingum og fjölbreytni stýfð með lögum er það líklega tapaður slagur að reyna að halda næstu kynslóð Singapúra í skefjum.
Efnishyggja erfist ekki vel
Í fyrsta lagi mun samkeppniskerfið framleiða „tapara“. Taparar eru ekki bundnir af sömu samfélagslegu fjötrum og aðrir. Einhverjir þeirra munu reyna að verða sigurvegarar í lífinu á sinn hátt. Þá mun mikill innflutningur fólks gera innrætinguna erfiðari. Loks á Singapúr mikið undir viðskiptum á alþjóðavettvangi. Raunar svotil allt. Þar eru engar náttúruauðlindir. Það þýðir að ríkið þarf að vera opið upp að einhverju marki. Alþjóðasamfélagið mun ekki þola það til lengdar að hommar séu settir í flokk með barnaníðingum eða að unglingar séu dæmdir fyrir að gagnrýna dauð átrúnaðargoð.
Þá er nokkuð ljóst að þegar ákveðinni velmegun er náð munu höftin losna af fólki. Það er gott að vera ríkur í Singapúr – en það er líka dýrt – ríka fólkið getur flutt í burtu. Loks er eðlilegasti hlutur í heimi að næsta kynslóð taki ekki umhugsunarlaust við gildum kynslóðarinnar á undan. Efnishyggja er að vísu lúmsk og viðvarandi en hún erfist ekki alltaf vel.
Blómabyltingin endurtekin?
Raunar virðist Singapúr standa frammi fyrir svipuðum áskorunum og áttu sér stað í Bandaríkjunum á seinni hluta síðustu aldar. Mikilli velmegun fylgdi gríðarleg efnishyggja og í kjölfarið kom ungmennauppreisn sem breytti öllu. Það þarf mikið að gerast til að einhver svoleiðis uppreisn sé ekki í uppsiglingu í Singapúr.
Eins og áður sagði er lítil spilling í Singapúr. Þar er átt við að leikreglur eru skýrar og þeim er fylgt. Það þýðir samt ekki að leikreglurnar sjálfar séu ekki spilltar. Raunar virðast þær augljóslega vera það. Maður rekur ekki samfélag með því að neyða alla til að ganga í takt og etja þeim saman í gegndarlausri samkeppni. Það getur vel verið að það skili háum einkunnum á Pisa – en það stuðlar aldrei að raunverulegri hamingju. Og hamingja er á endanum það sem lífið snýst um.
Athugasemdir