Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Taktu samræmt próf!

Taktu samræmt próf!

Samræmt próf er hannað til að kalla fram normalkúrfu. Mælikvarði á gæði þess er fullkomnun kúrfunnar. Á „vel heppnuðu“ samræmdu prófi mun aldrei öllum ganga vel. Þau eru ekki til þess. 

Til að kalla fram slíka kúrfu er auðveldast að setja inn hindranir af vaxandi hæð. Allir nemendur þurfa að komast yfir þá fyrstu og svo heltist fólk úr lestinni smám saman. Þeir nemendur sem ekki einu sinni komast yfir fyrstu hindrunina eru undanþegnir prófinu. Þegar staða nemenda er skoðuð í lok prófs á stærsti hópurinn að standa ráðalaus frammi fyrir hindrun um miðbikið og svo smækka hóparnir út frá miðju.

Samræmd próf eru með öðrum orðum samkeppnispróf. Það er verið að mæla einn nemanda miðað við annan. Inntak prófsins sjálfs er í raun hálfgert aukaatriði. Í þessu samhengi er ósköp skiljanlegt að skólar sem telja það sitt hlutverk að fleyta rjómann ofan af nemendaflórunni sakni prófanna. 

Ég skrifa a.m.k. einn pistil á ári um galla samræmdu prófanna. Ólíkt því sem margir halda eru þau enn til staðar. Þau eru bara ekki lengur inntökupróf í framhaldsskóla. Aðalvandinn er sá að þau eru afar takmörkuð að gerð og vinna jafnvel gegn markmiðum þeirra námsgreina sem þau þykjast mæla.

Tökum dæmi: Gefum okkur að kennari taki skáldsögu úr hillu og lesi þetta fyrir bekkinn:

„Helgi skreiðist fram með sængina á öxlunum. Af syfjusvipnum að dæma hefur hann sofið álíka laust og ég.

Kaffikannan þín er asnaleg, segir hann með stírurnar í augunum. Hljóðið í henni vakti mig.

Þú þurftir að vakna, segi ég og lít af fréttasíðunni á skjánum. Veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið, kafaldsbylur blæs í eldhúsinu og kuldinn stingur eins og grýlukerti. Augu Helga frjósa, ísblá þegar hann kveikir loftljósið. Hann hlammar sér á stól dregur sængina upp á haus og urrar: Ég má sofa ef ég vil. Ég má gera allt sem ég vil. Ég er foreldralaus.

Af skyldurækni hins fullorðna fullyrði ég að hann þurfi að mæta í skólann. Hver segir að ég þurfi að gegna þér? spyr hann fúll en nýtur greinilega reiðinnar í rödd sinni, hvers dropa af ögrun.“

Síðan loki hann bókinni og segi hópnum að þetta sé brot úr bók eftir Auði Jónsdóttur. Bókin heiti Vetrarsól. Nú sé komið að nemendum að leysa verkefni.

Hvernig verkefni myndi góður kennari láta vinna?

Myndi hann láta nemendur leika sér með myndmálið, skoða hvernig heitt og kalt kallast á, hvernig textinn er saumaður saman með tilvísunum í hamskipti og vökva?

Myndi hann biðja nemendur að spá fyrir um framhaldið eða það sem á undan hefur farið?

Myndi hann ræða um samskipti og þetta óbrúaða bil sem getur myndast á milli fólks? Ræða hvaða áhrif viðmót manns hefur á þær atburðarásir sem hægt er að spila í framhaldinu?

Góður kennari væri ekki í neinum vandræðum með að gera sér mat úr sögubrotinu. Hægt væri að hrífa nemendur með, japla á orðkynnginni, róta í tilfinningunum og koma kennslustofunni á flug.

En segjum nú sem svo að kennarinn léti nægja að spyrja:

Hvernig líður Helga þegar hann fer fram úr um morguninn?

Jafnvel hinn slappasti leshringur gæti komið fram með ótal svör. Það er yfir honum drungi. Hann er vansvefta, óttasleginn, reiður... Það er aðall góðra bókmennta að maður er sífellt að reyna að máta hugsanir sínar við persónur og atburðarás. Maður skiptir jafnvel oft um skoðun. Enda er fæst í góðum sögum hoggið í stein.

En gefum okkur að kennarinn stöðvaði umsvifalaust allar umræður og pælingar og segði að það mætti ekki hjálpast að. Hver og einn þyrfti að átta sig á skaplyndi Helga sjálfur. Og ekki nóg með það, velja ætti einn af eftirfarandi möguleikum:

Helgi er feiminn / Helgi er sorgmæddur / Helgi er stúrinn / Helgi er vandræðalegur.

Og veljið svo!

Enginn leshringur er svo góður að hann lenti ekki í vandræðum með svona afarkosti. Höfum í huga, við höfum ekkert að styðjast við nema brot af textanum. Við þekkjum Helga ekki neitt. Vitum ekkert um aðstæður hans. Vitum ekki hver það er sem stendur og hitar sér í makindum kaffi þegar litla þrumuskýið kemur á vettvang með allt á hornum sér. 

Hver veit, kannski kemur hann fram í eldhús í bullandi sókn vegna þess að hann veit ekki hvernig hann á að haga sér, er vandræðalegur eða feiminn í erfiðum aðstæðum. Og er hann ekki greinilega sorgmæddur? Reiður og hryggur, jafnvel stúrinn. Og þó ekki, stúrinn drengur rífur varla kjaft.

Kennarinn skipar öllum að skrifa niður svarið og tilkynnir svo:

„Svarið er c. Helgi er stúrinn.“

Áður en þú getur náð utan um svarið er næsta spurning komin fram:

„Hvað er verið að undirstrika þegar talað er um „kafaldsbyl í eldhúsinu“?“

Þú tekur fram blýantinn og býður spenntur eftir svarmöguleikunum.

„Er verið að lýsa þjakandi andrúmslofti, ríkjandi ósamkomulagi, rifrildi í uppsiglingu eða hrörlegu eldhúsi.“

Hmm... allt í lagi. Hér er bersýnilega ekki verið að lýsa ástandi eldhússins. Eða hvað? Við vitum ekkert um eldhúsið. Er kannski verið að nota allar þessar veðurlýsingar vegna þess að húsið er hreysi? Er hann kannski í höndum mannræningja sem geyma hann á ókunnum stað? Er það þess vegna sem hann er svona ... stúrinn? Nei, fjandakornið. Það getur varla verið, þá ætti hann varla að fara í skólann. En er ekki andrúmsloftið þjakandi? Jú. Eða hvað? Það er þrúgandi. Myndi maður tala um storm og vind til að lýsa þjakandi andrúmslofti. Væri það ekki meiri molla? Það fer samt ekki á milli mála að drengurinn er að snapa fæt. Ráðast svona á kaffikönnuna, heilagan gripinn. Og það er augljóst ósamkomulag um háværa kaffigerð á þessum tíma dags. En hverju skal svarað? Áðan var það stúrinn. Hvað er það nú? Valið stendur milli þjakandi ósamkomulags eða rifrildis. Úllendúllendoff...

„Svarið er þjakandi andrúmsloft“ heldur kennarinn áfram. „Næsta spurning.“

„Hvers vegna segist Helgi ætla að óhlýðnast konunni?“

Ehhh... það hlýtur að vera vegna þess að hann er svo stúrinn. Er það ekki?

Og kennarinn heldur áfram: 

„Er það vegna þess að... hann álítur hana sér óviðkomandi, hann kvíðir skóladeginum, hann langar til að særa hana eða að hann nennir alls ekki í skólann?“

Fokk!

Það gefur auga leið að hér er um afar undarlegan lestur á bókmenntum að ræða. Og rými nemenda til túlkunar er vægast sagt af skornum skammti. Ég vil leyfa mér að segja að bókmenntir séu yfirleitt ekki skrifaðar með svona notkun í huga. En vegna þess að í námskrá er fyrirskipað að börn skuli lesa bókmenntir telja höfundar samræmdra prófa sér skylt að nota bókmenntir á prófinu. Og gera það svona. Því þessi aðferð hefur sýnt sig og sannað þegar kemur að því að búa til normalkúrfu.

Ég hef stundum sagt frá því þegar ég kenndi sjöunda bekk að leysa stærðfræði með því að nota rökfræði og gagnrýna hugsun. Ég hef aldrei kynnst öðrum eins glundroða og þegar hver nemandinn á fætur öðrum kallaði á mig í samræmdu prófi og spurði hvað í ósköpunum væri verið að spyrja um hér:

Í 30 manna bekk vill 21 ost á ristað brauð og 15 vilja sultu.  Einhverjir vilja bæði ost og sultu á brauðið.  Hver margir eru í þeim hópi?

Ég, sem hafði stritað við að kenna nemendum að efast um allt, tæta í sig allar forsendur og leita að höggstað á röksemdafærslum hjá sjálfum sér og öðrum, var nú settur í þá aðstöðu að þurfa að segja nemendum að reyna að túlka hug þeirra sem sömdu prófin – sem að mörgu leyti er vandasamara verk en að túlka hegðun og atferli Helga kaffibana. 

Og ekki nóg með það. Á sama prófinu var spurt um það hvaða brot væru jafnstór. Rétta svarið var tveir þriðju og þrír sjöttu. En rangt var gefið fyrir einn þriðja og tvo sjöttu. Loks var á prófinu spurning sem síðan er alræmd:

Dýpt Öskjuvatns er 220 m. Þorvaldsfell, sem stendur þar við, er 1510 m hátt.  Hver er hæðarmunurinn á botni Öskjuvatns og toppi Þorvaldsfells?

 

Miðað við forsendurnar er ómögulegt að svara spurningunum um Öskjuvatn og ostinn. Það er bara ekki hægt. Ekkert frekar en að hægt sé að segja til um það hvort Helgi er stúrinn eða sorgmæddur með því að lesa nokkrar línur í bók.

Dæmið um ostinn fór alla leið fyrir einhverskonar nefnd sem úrskurðar um það hvort dæmi séu tæk til notkunar á samræmdum prófum. Þar fékk það heilbrigðisvottorð. Það þótti ekki til þess fallið að valda misskilningi. Normalkúrfan stóðst.

Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um samræmd próf í viðbót. Samræmd próf í íslensku eru bókmenntum það sem Hriflu-Jónas og Hitler eru nútímamyndlist. Þau afbaka og skrumskæla. Þau smætta listina niður í yfirborðskennt bull.

En nóg um það.

Ræðum aðeins um það hvort öll próf ættu ekki að skila normalkúrfu. 

Getur verið að það sé í lagi að einkunnir grunnskólanemenda á skólaprófum fari hækkandi?

Hér má etja saman tveim viðhorfum. Annarsvegar má halda því fram að prófin eigi að mæla raunverulegt framlag eða getu nemenda. Engin ástæða sé til að ætla annað en að nemendur standi sig misvel og því hljóti meðaleinkunn að endurspegla það. Það sé eðilegast að hún sé milli 6 og 7 og góðir nemendur séu þá kannski í kringum 8 eða 9.

Hitt viðhorfið má kannski orða með spurningu. Er eðlilegt að kennari komi námsefninu bara 60 - 70% til skila árum og áratugum saman? Og að nærri helmingur nemenda ráði við minna en helming námsefnisins?

Þetta er alvöru spurning sem krefst alvöru íhugunar.

Svarið við henni verður þeim mun nærtækara þegar haft er í huga að það þykir eðlilegt að nemendur tapi jafnvel meira en helmingi námsefnis á milli tveggja kúrsa í háskóla. Erum við þá að tala um það að það eigi að vera eðlilegt að nemendur hafi á valdi sínu 10 - 45% af námsefninu nokkrum mánuðum eftir próf?

Við getum gert smá sjálfspróf á okkur sjálfum. Við sem fórum hinn beina og breiða veg í menntamálum. Munum við hvað hættir sagna eru margir? Getum við útskýrt, málfræðilega rétt, af hverju það er „ý“ í „sýgur“? Vitum við af hverju tilvísunarfornöfn eru ekki lengur talin til fornafna?

Dregur það úr hæfni okkar til að nota íslensku og njóta hennar að geta ekki með nokkru móti útskýrt „ý-ið“ nema með yfirborðskenndu hálfkáki um að það sé vegna þess að „sýgur“ sé skylt orðinu „sjúga“?

Auðvitað ekki.

Ég sem kennari hef tilhneigingu til að líta á lága meðaleinkunn sem sönnun um að mér hafi mistekist að koma námsefninu til skila. Kennari hefur ekki bara það hlutverk að meta nemendur. Hann á líka að meta sjálfan sig. Ef honum mistekst getur hann ekki hlaupist undan ábyrgð sinni og kennt nemendum um.

En þýðir það þá að kennari þurfi að matreiða efnið á hraða snigilsins með þeim hætti að þeir tornæmustu skilja það og hinir bráðgeru sitji aðgerðarlausir og láti sér leiðast?

Um það fjallar næsti pistill.

 

Mynd með færslu: Shardayyy

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni