Svartur á leik
Stundum er ég óttalegur fáviti. Ég er ekki viss um að ég vildi hafa það öðruvísi. Ég hef meira lært á því að standa sjálfan mig að því að vera fáviti en flestu öðru. Einu sinni fyrir löngu skrifaði ég t.d. pistil um baráttumenn fyrir lögleiðingu kannabis og benti á hve óheppilegt það væri að þeir sem þar færu fremstir í flokki væru eiginlega allir gangandi ábendingarskilgreiningar um skaðleg áhrif efnisins. Það var ómerkilegt af mér og lélegt. Í kjölfarið fékk ég mjög ólík viðbrögð. Mér var hótað lífláti og pyntingum (sem auðvitað staðfesti fordóma mína enn frekar). En einstaka fólk reyndi að ræða málefnið af viti.
Þetta rifjaðist upp þegar ég las að einn ástsælasti leikari þjóðarinnar (eins og hann kallar sig sjálfan) gaf skít í bréf sem óopinber heimsmeistari barna í hraðlestri (sama) skrifaði til íslensks dómstóls. Sá síðarnefndi hafði verið gripinn með slatta af kannabisefnum en harðneitaði að viðurkenna rétt dómstóla til að skipta sér af því.
Leikarinn hafði sumsé sagt að kominn væru tími til að „hasshausarnir“ legðu eitthvað af mörkum til samfélagsins og hættu að væla yfir því hvort og hvernig löggan mætti leita á/hjá þeim. Hraðlesarinn skrifaði langa varnarræðu um að lögum væri stefnt gegn skaðsemi í garð annarra, menn hefðu enga heimild til þess að skipta sér af því þótt einhver skaðaði sjálfan sig. Síðan útskýrði hann að neysla sín stafaði af því að hann hefði átt hroðalega æsku sem hann hefði alla tíð flúið, fyrst með því að lesa nokkrar bækur á dag, seinna með því að dópa.
Inn í málið flækjast svo tveir vaxtarsprotar í viðbót. Svo vill nefnilega til að leikarinn ástsæli hefur ekki síst hlotið frægð sína fyrir að leika harðsvíraðan undirheimamann. Og svo það að systir dópistans skrifaði opinbert bréf um það að frásagnir hans af hinni hræðilegu æsku, sem hann notar til að réttlæta flest sem aflaga hefur farið, séu ýkjur og rangfærslur. Hann hafi sjálfur verið bölvað fól sem gert hafi æsku annarra hroðalega. Munurinn á honum og fórnarlömbum hans sé einungis sá að þau hafi ákveðið að hætta að ala sorg sína og reyna nú að bera sjálf ábyrgð á lífi sínu – hann sé pikkfastur í sjálfsefun og -réttlætingu.
Upp á síðkastið hefur verið vaxandi undiralda þeirra sem hafa óþol fyrir því hve umræðan um lögleiðingu fíkniefna er komin langt. Annar þjóðþekktur maður skrifaði í gær eitthvað á þá leið að hann freistaðist stundum til að vilja lögleiðingu því það myndi neyða dópistana til að fara loks að hugsa um eitthvað annað.
Allir virðast sammála um að kannabisefni geti verið skaðleg. Stuðningsmenn lögleiðingar neita því ekki. Afstaða þeirra er hinsvegar sú að skaðsemin ein og sér réttlæti ekki bann. Áfengi sé líka skaðlegt. Engum detti í hug að banna það – enda sé slíkt bann enn skaðlegra. Auk þess benda þeir gjarnan á að fjöldi fólks noti kannabisefni sér að skaðlausu. Þeir sem komi illa út úr því sé yfirleitt fólk sem skaðað sé fyrir.
Heitustu andstæðingar efnanna segja að efnin séu afar skaðleg. Það þurfi ekki annað en að skoða þann mikla fjölda fólks sem notar þau og ber skaðann utan á sér. Þá benta þeir á að talsmenn lögleiðingar séu langt því frá svarnir málsvarar skaðaminnkunnar. Skaðaminnkun sé yfirvarp. Í raun og veru séu menn fylgjandi neyslunni. Ungu fólki séu seldar þær hugmyndir að kannabisefni séu skaðlaus, náttúruleg og jafnvel gagnleg – þrátt fyrir að vitað sé að ef einhver skýr fylgni er milli neyslu efnanna og tjóns þá sé það þegar ungt fólk byrjar í neyslu.
Ég verð að viðurkenna að rök stuðningsmanna lögleiðingar virka sterkari í mín eyru. Það er samt ekki það sem mig langar að ræða.
Það sem mig langar aðeins að ræða er þetta viðhorf sem kristallast í afstöðu eins og þessari: Þegar hasshausarnir fara að leggja eitthvað til samfélagsins skal ég hlusta á þá væla yfir broti á réttindum sínum.
Ég held nefnilega að þegar öllu sé á botninn hvolft snúist málið barasta minnst um fíkniefni – en þeim mun meira um stöðu borgaralegra réttinda og samfélagsgerðina.
Þessi pistill á ekki að vera um pólitík en hér má alveg skjóta því inn að einn mótmælandinn á Austurvelli sagði á dögunum að Sjálfstæðisflokkurinn væri slík meinsemd í þjóðfélaginu að það jafnaðist við Nasistaflokkinn í Þýskalandi. Þess vegna væri eðlilegt að banna hann.
Þetta er auðvitað sturlunartal. Það má vel vera að maðurinn trúi því í alvöru að Sjálfstæðisflokkurinn sé hræðilega vondur. Hann er samt sjálfur alltaf verri ef þetta er hans raunverulega skoðun.
Að sama skapi er algjörlega fráleitt að láta sem fólk þurfi á einhvern hátt að ávinna sér borgaraleg grundvallarréttindi. Ef manneskja er í alvöru þeirrar skoðunar að framlag fólks til samfélagsins sé skilyrði þess að á það sé hlustað þá á sú manneskja heima hér á fávitabekknum við hliðina á mér og hinum fávitunum.
Raunar er viðhorf af þessu tæi líklega á endanum skaðlegra samfélaginu en neyslan.
Setjum þetta aðeins í samhengi. Skoðum hvernig við tökum á því þegar þeir sem valdið hafa gera upp á bak.
Við búum í samfélagi þar sem oddvitar íþróttahreyfingarinnar nota sameiginlega sjóði félagsmanna til að kaupa kampavín á strípibúllum. Einn frægasti lögmaður landsins er sagður bera vín í barn og barna það svo. Áhrifin er lítil sem engin. Íþróttaforystan kóar með sínum manni og málinu gegn lögmanninum er vísað frá.
Á sama tíma er fjöldi fólks á einhverjum grænum lista hjá lögreglunni og virðist þess vegna sæta stöðugum ofsóknum. Krabbameinssjúkur maður sem var stöðvaður í flugstöðinni og sagðist hreinskilningslega hafa notað kannabisefni í Amsterdam (þar sem það er löglegt) var stöðvaður að ástæðulausu þar sem hann ætlaði að aka burt frá heimili sínu stuttu seinna og tekinn í próf. Vegna þess hve efnin mælast lengi í líkamanum á eftir má búast við því að hann verði kærður fyrir vímuakstur, þrátt fyrir að hafa ekki notað efni dögum saman.
Fjöldi fólks hefur lýst því einelti sem það er lagt í af hálfu lögreglunnar vegna þess að það er á lista yfir dópista. Skiptir þá engu hvort fólkið er skaðlegt.
Við fávitarnir eigum mjög auðvelt með að hugsa þannig að fólkið sé að brjóta lög og þess vegna eigi það þetta allt skilið.
Raunin er sú að auðvitað er það ekki þannig.
Í fyrsta lagi er líklega betra fyrir alla ef samfélagið hættir að pönkast á sjúku fólki og býður því hjálp í staðinn. En þar fyrir utan ef gríðarlega mikilvægt að samfélagið búi ekki til mennskan ruslflokk eða setji upp skilyrði fyrir borgaralegum réttindum.
Þegar fólk þarf að ávinna sér með einhverjum hætti grundvallarréttindi hefur samfélagið tekið afar hættulega beygju.
Grundvallarréttindi eiga að vera réttindi af því tæi sem þú myndir berjast harðast fyrir í tilfelli þíns versta óvinar.
Ef við erum tilbúin að kalla hóp fólks afætur á samfélaginu sem við neitum að hlusta á fyrr en það verður einhvernveginn öðruvísi hefur það í raun og veru gerst sem yfirleitt er undanfari verstu hörmunga sem dynja yfir samfélög – það hefur átt sér stað afmennskun.
Afmennskun er blóðeitrun samfélagsins.
Leið okkar fávitanna frá fáviskunni er vörðuð áföngum í glímu okkar við afmennskuna. Við förum frá óþoli, yfir í umburðarlyndi og ef okkur tekst að drepast í kærleikanum hefur okkur tekist vel upp.
Í deilu leikarans og dópistans óttast ég bara viðhorf annars. Og það eru viðhorf þess sem þykist líta niður á hinn.
Mynd: Fora do Eixo
Athugasemdir