Súkkulaðicaca í stjórnmálaflórnum við Austurvöll
Núverandi stjórnvöld eru hægt en örugglega að dragast inn í sömu sjálfheldu og síðasta ríkisstjórn.
Í fyrsta lagi er vaxandi gremja innan stjórnarflokkanna með að þeir njóti ekki sannmælis fyrir það sem þeir telja sín mestu afrek og stærstu grundvallarmál. „Stóra leiðréttingin“ er búin, farin og skildi lítið eftir sig. Engar vinsældir spruttu af þeim fræjum.
Síðasta ríkisstjórn átti sér líka ýmis prinsippmál sem á endanum breyttu engu um þá staðreynd að fylgið hrundi af henni og hélst lélegt allan seinni líftíma hennar.
Hitt er síðan það, að síðasta ríkisstjórn mætti endanlega örlögum sínum þegar hún færðist of mikið í fang. Hún réð ekki við Evrópumálið, hún réð ekki við stjórnarskrármálið, hún réð ekki við fiskveiðistjórnunarmálið – a.m.k. ekki allt í einu.
Núverandi ríkisstjórn er í sama baslinu. Hún réð ekki við lekamálið (það er lygilegt að síðustu orð forystumanna ríkisstjórnarinnar um það voru í raun þau að þjóðin ætti að læra sína lexíu af því að hrekja ráðherra sem enn nyti pólitísks stuðnings frá völdum), hún ræður ekki við náttúrupassann og hún ræður ekki við sjávarútvegsmálin. Og hún hefur ekki einu sinni reynt við stóru, óleystu málin.
Sjávarútvegsmálin, jafnvel í mýflugumynd, eru alltaf á leið í málþóf og hugsanlega þjóðaratkvæðagreiðslu – nema þau strandi inni í þinginu og deyi þar, ásamt pólitísku lífi ríkisstjórnarinnar.
Óheilbrigt Alþingi
Ríkisstjórnunum verður þó ekki einum um kennt. Frá hruni (og lengur) hefur ríkt einstaklega óheilbrigt ástand á Alþingi. Grímulaus hrossakaup hafa endanlega gengið frá öllu sem kalla má þinglega meðferð. Ráðherra í núverandi ríkisstjórn missti frá sér smáskilaboð í vódafónlekanum þar sem sést nákvæmlega hversu langt fólk er tilbúið að ganga til að koma í veg fyrir eðlilegan framgang mála. Alþingi er trunta. Trunta með þingsköp.
Klikkun vegna köku
Það hefur undarleg áhrif á sálarlíf fólks að sitja á Alþingi. Þar sitja menn mánuðum saman í einhverjum hlutverkaleik með flóknum og undarlegum reglum og prótókólum og vanda sig svo við það að finna fyrirlitningu sinni á því sem Alþingi stendur fyrir svo hárnákvæma útrás að þeir snappa gersamlega ef einhver litar út fyrir línurnar. Þannig geta salir þingsins verið meira og minna tómir heilu sólarhringana þar sem syfjaðir þingmenn standa í pontu og blaðra út í loftið – og engum finnst neitt athugavert – en svo labbar forsætisráðherra burtu í einhverri umræðu sem hann er hvorteðer ekkert að hlusta á – og allt verður vitlaust! Þingmenn renna í pontu eins og hýenur á bráð til að lýsa skömm sinni á þeirri fyrirlitningu sem ráðherrann sýnir með þessu.
Ég held að hér sé stjórnarandstaðan og stuðningsmannafélag hennar doldið ein á báti í vandlætinginarbrímanum. Ekki það að almenningur sé ekki alltaf til í að hatast við stjórnmálamenn, og sérstaklega ráðherra, og lætur í þeim efnum ekkert trufla sig hvort hneykslunin er vegna þess að hann mætir í mislitum sokkum í veislu eða tekur köku fram yfir Kötu. Málið er bara það að allur almenningur veit sem er að allar raunverulegar prinsipplínur um virðingu þingmanna fyrir þinginu er búið að vaða yfir svo oft og ítrekað að það virkar pínulítið klikkað þegar þingmenn verða í alvöru reiðir vegna þess að einhverju prótíkóli er ekki fylgt. Almenningur upplifir virðingu þingmanna fyrir störfum sínum sem dálítið úrkynjaða.
Að misbjóða virðingu sem engin er
Í hugum okkar flestra stendur þingið fyrir vanmátt, málþóf, tuð, klækjabrögð, hagsmunapot og allskonar barnaskap. Við höfum horft upp á þingmenn og jafnvel ráðherra ganga viljandi utan í aðra þingmenn, rífa í axlir þeirra, kalla þá skítlega og gungur. Við höfum séð atkvæðagreiðslu endurtekna vegna þess að foringinn ruglaðist á takka. Við höfum séð þingmann neyddan til að kjósa með máli og biðja forsetann að staðfesta ekki það sem hann sjálfur var að samþykkja. Við höfum séð að þeir sem hafa valdið mæta illa og hlusta ekki á aðra og þeir sem vilja valdið standa dögum saman og rífast við sjálfa sig.
Það er misskilningur að það sé sterkur pólitískur leikir að gera stórmál úr því að virðingu Alþingis sé misboðið, til þess þyrfti þyngið að njóta raunverulegrar virðingar. Stóra kökumálið verður á endanum ekki til þess að almenningur telji illa farið með stjórnarandstöðuna. Það verður til þess að gulltryggja að almenningur heldur áfram að örvænta yfir því hverskonar fíflaskapur það er sem viðgengst í steinkofanum við Austurvöll. Og almenningur mun halda áfram að velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að hreinsa út úr löggjafarsamkundunni í einni svipan líkt og þegar Herkúles veitti fljótinu gegnum fjósið á sínum tíma.
Vald á nauðungarsölu
Íslenskum hefðarstjórnmálum er að blæða út. Þar til nýlega kusu níu af hverjum tíu einhverja útgáfu af sama, litla litrófinu. Fólk nennir því ekki lengur. Það hefur ekki áhuga á stjórnmálum eins og þau eru ástunduð.
Á meðan þeir sem standa á sviði stjórnmálanna neita að sjá að óánægjan gildir ekki síður um þá en hina eiga þeir sér ekki viðreisnar von. Ef stjórnarandstæðan væri klók og ætti stuðningsmenn sem eru í tengslum út fyrir klíkuna væru menn ekki í þessum langdregna, óþolandi leik sem felst í því að djöflagera andstæðinginn og reyna að komast til valda með því að grafa hinum gröf. Stjórnarandstaðan á þingi þarf að fara að horfa í eigin barm og stíga markviss skref í þá átt að leita sátta við þjóðina.
Stjórnarandstaðan virðist föst í þeim leik að reyna að sannfæra þjóðina um að henni hafi orðið á mistök í síðustu kosningum. Hún hafi kosið yfir sig. Hún hafi leitt til valda stjórnmálamenn sem í raun megi ekki ráða. Hún verði að læra af þessu sína lexíu og tryggja að þetta gerist ekki aftur.
Vandinn er að núverandi stjórnarandstaða hefur engan rétt á því að vera sjálfgefinn valkostur við núverandi ríkisstjórn. Stjórnarandstaðan á enga heimtingu á að draga til sín valdið eins og fulltrúi Íbúðarlánasjóðs á uppboði.
Almenningur vill eitthvað betra.
Landið þarf eitthvað betra.
Athugasemdir