Stjórnmálamenn missa tökin á Reykjavík og sjálfum sér
Í grundvallaratriðum er ég sammála Björk Vilhelmsdóttur um það að lært hjálparleysi sé óþolandi ástand. Ég er að vísu hjartanlega ósammála henni um að það sé hlutverk stuðningsaðila að „sparka í rassinn“ á fólki sem búið er að gefast upp. Mér finnst svona tal ósköp innantómur töffaraskapur. Það er munur á því að tala hreint út og af yfirlæti; og það er munur á því að toga fólk af stað og styðja við það. Sé fólk komið í þá stöðu að ekkert hjálpar því nema meðferð sem best verður lýst með ofbeldisyrðingum hefur eitthvað voðaástand verið látið ganga of langt.
Ég er svosem ekkert hissa á því að Björk hætti hjá borginni. Ég er svolítið hissa samt á því að hún hætti vegna þess að henni finnst hún hafa brugðist í því að svelta ákveðna hópa fólks til hlýðni. Ég hefði orðið minna hissa ef hún hefði hætt þegar ljóst varð endanlega hvílíkur yfirgangur og rugl flutningur ferðaþjónustu fatlaðra varð undir hennar stjórn og annarra. Ég hefði trúað á það samviskubit. Og þótt mannsbragur að því.
Mér finnst semsagt eðlilegasti hluti í heimi að yfirmenn mennta- og velferðarmála hjá borginni taki pokann sinn. Þeir hafa misst tökin. Það er ekki eftirsóknarvert hlutverk að þurfa að horfast í augu við það að stærsta og voldugasta sveitarfélag landsins ræður ekki lengur við að halda úti grunnþjónustu.
Yfirmaður menntamála hjá borginni er líka að láta sig hverfa þessa dagana svo lítið beri á. Undir hans stjórn hefur tekist að knésetja sveitarfélagið. Reykjavík er orðin ábendingarskilgreining um ónýta forystu í menntamálum á landsvísu. Velferðarsvið var löngu orðið sér til háðungar.
Bæði svið bregðast við háðung sinni með því að leita blóraböggla. Björk bendir á aumingja – og kennara. Hún segir að til kennara þurfi að gera meiri kröfur. Þeir hafi fengið stórkostlegar launahækkanir sem þeir hafi ekki verðskuldað. Hún vill sparka í rassinn á þeim líka.
Fyrir þá sem á annað borð hafa einhverja nennu á því að grafast fyrir um hinar stórkostlegu launahækkanir þá er þetta hér ekki verri upphafsstaður en hver annar. Þetta er myndræn framsetning á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015. Þar er samanburður við árin 2013 og 2014. Ef smellt er á Skóla- og frístundasvið sést glögglega að hin himinháa launahækkun kennara er alls engin hækkun. Hana stóð til að greiða nær eingöngu með því að flytja yfirvinnu inn í grunnlaun – og sparkið sem Björk vill gefa kennurum í rassinn – snýst um að sparka yfirvinnuverkefnum inn í dagvinnuna. Og borga þá sömu laun fyrir sömu vinnu.
Fulltrúar í Skóla- og frístundaráði virðast í alvöru trúa því að þeir hafi gefið kennurum launahækkanir og vísa í tölur sem sanna eiga aukin útgjöld í málaflokkinn. Þeir sem skoða áætlunina sjá strax að nær öll hækkunin felst í því að nú á að reyna að skila aftur fjármunum sem stolið var frá sérkennslubörnum á síðustu misserum. Börnin sem stóðu höllustum fæti tóku á sig mestu fórnirnar í síðustu hagræðingu. Það er óþægileg tilhugsun . Kannski gáfust þau mörg upp eins og borgin gafst upp á þeim. Þá er nú gott til þess að hugsa að einhver sé tilbúinn að sparka í þau og segja þeim að þau séu aumingjar. Þau batna eflaust við það.
Reykjavíkurborg getur sem sagt ekki lengur sinnt mennta- og velferðarmálum. Yfirmenn málaflokkanna eru að forða sér í burtu. Undir yfirborðinu er allt í kalda kolum. Fjöldi fólks hefur nú unnið á sviðunum í gegnum geggjaðan niðurskurð og margar vondar ákvarðanir frá miðstjórnarvaldinu – og nú skera þessi tvö svið sig algjörlega frá öðrum. Álag á starfsfólk er orðið svo yfirgengilegt að heilsa starfsmanna er farin að bila. Langtum fleiri tapa heilsu á að vinna fyrir borgina að mennta- og velferðarmálum en eðlilegt getur talist eða tíðkast á öðrum sviðum. Vísbendingar um þetta má líka sjá í áætluninni hér að ofan.
Borgin hefur þess vegna sett sér markmið og stefnu sem lúta að heilbrigði starfsmanna. Nú var að byrja átak sem felst í því að gera fólki eins erfitt fyrir að verða veikt og mögulegt er. Sé maður veikur þarf maður að fara yfir ýmsar nýjar hindranir sem áður voru ekki til staðar. Og ef maður verður svo óheppinn að missa börnin sín eða maka er ætlast til þess að maður glími við það í eigin orlofstíma eða taki sér launalaus leyfi.
Það þarf nefnilega að sparka stundum í fólk. Hver veit, kannski væru menn annars bara heima að tjilla og reykja gras í góðum fílíng.
Vitlaust fólk hefur gjarnan þann háttinn á að reyna að laga bilaða vél með því að sparka í hana eða lemja. Það virkar auðvitað ekki. Það getur samt skapað hjá manni þá tilfinningu að maður sé að gera eitthvað í málinu. Stundum skröltir vélin aftur í gang og gengur í smá tíma. Svo bilar hún aftur en þá lemur maður bara aftur. Svona heldur þetta áfram þar til vélin er endanlega ónýt eftir einhverja samsuðu þess sem upphaflega var að og þess skaða sem maður sjálfur hefur valdið.
Þannig er Reykjavík núna. Stjórnmála- og embættismenn sitja á brún fílabeinsturnsins síns og láta höggin dynja á byggingunni fyrir neðan sig. Skilja svo ekkert í því að byrjað er að rjúka úr öllu saman.
Lærð uppgjöf er raunar stórmerkilegt fyrirbæri. Það er fáránleg einföldun að kalla hana aumingjaskap. Það er líka fáránlega vitlaust að ætla að lækna hana með fautaskap. Leiðin úr slíku ástandi snýst um að gefa fólki trú á að það geti vaxið við áskoranir. Þar skiptir hreinskilni máli. En eitt megineinkenni lærðrar uppgjafar er að jafnvel þótt aðstæður breytist eykst sjálfsbjargarviðleitnin ekki neitt. Það þarf að ganga ansi langt til að svelta þann sem gefist hefur upp úr aðgerðaleysinu. Svo langt raunar að slíkt getur ekki talist annað en ómannúðleg meðferð. Enda er hún ólögleg. Mannleg reisn er enn varin að einhverju leyti í lögum, þótt þjösnar telji það þvælast fyrir þeim.
Eina leiðin til að fara mannúðlega og löglega að því að byggja upp brotið fólk er að sinna því áður en skaðinn skeður – í stað þess t.d. að skera burt allt fjármagn til sérkennslu. Ef fólk er viðkvæmt og þarf þjónustu þarf að tryggja að maður hafi yfir að ráða hæfu, nærgætnu og upplýstu starfsfólki – í stað þess t.d. að reka þá hæfu og hrúga öllum verkefnum yfir á fullkomlega vanhæfa strætóforstjóra. Ef koma þarf fólki út úr óþolandi aðstæðum þarf að opna dyr – í stað þess að sparka því fram af svölum.
Hér er eitt ráð til borgaryfirvalda. Ráð sem ég gaf þeim fyrir nokkrum árum þegar ljóst var hvert stefndi: Hættið að koma fram við fólk, hvort sem það eru starfsmenn eða skjólstæðingar, sem tölur í excelskjölum. Stillið ykkur um að beita afli og draga til ykkar völd. Valdeflið þá sem sitja skör fyrir neðan ykkur og hvetjið þá til að gera það sama. Hættið að láta sóa starfsorku ykkar og vitsmunum með endalausum fundum og skýrslum sem hafa í raun það hlutverk að deyfa ykkur og koma í veg fyrir að þið hrindið nokkru í verk. Hættið að fela ykkur á bak við Star Wars hettur og vöfflujárn þegar þið eigið samskipti við fólkið – og verið ekki hrædd við þá sem þið þjónið. Stillið ykkur um að gera annað fólk að blórabögglum þegar þið bregðist. Ef þið standið ykkur að því að leita blóraböggla reynið þá að minnsta kosti að stilla ykkur um að sparka í þá.
Athugasemdir