Stjórnarandstaðan er ekki svarið
Helgi Hrafn hafði á réttu að standa þegar hann fullyrti að síðustu dagar hafa snúist um ofsafengna leit stjórnvalda að minnsta mögulega undanhaldinu. Við hvert hænuskref er snúið við og búist til varna og vandséð er að raunverulegar umbætur eða uppgjör eigi sér stað nema ákefðin og ofsinn í málinu öllu sé þeim mun meiri. Sem er synd. Siðferði byggir ekki fyrst og fremst á ofsa heldur yfirvegun.
Það er þó löngu tímabært að sú hugsun sé orðuð upphátt að það er reginmisskilningur að andúðin á stöðu ríkisstjórnarinnar sé þar með sérstakur stuðningur við stjórnarandstöðuna. Reiðin í garð Sigmundar og Bjarna er ekki knúin áfram af aðdáun á Árna Páli og Steingrími Joð.
Vissulega hafa stuðningsmenn vinstri flokkanna komið sér fyrir meðal mótmælenda, alveg eins og síðast, en mótmælin snúast ekki um þá. Og það er alveg einstaklega rangt af Steingrími Joð að segja, eins og hann gerði, að stjórnmálaleg ábyrgð feli í sér að maður þurfi ævinlega að vera tilbúinn í kosningar með sáralitlum fyrirvara.
Þeir einu sem eru tilbúnir í kosningar með litlum fyrirvara eru þeir sem á einn hátt eða annan hafa kallað fram reiði almennings. Digurbarki Sjálfstæðismanna um að þeir séu óhræddir við kosningar kemur fyrst og fremst til af því að þeir vita að bráðar kosningar koma næstum örugglega í veg fyrir nýja hugsun og nýjar lausnir. Þær tryggja aðeins að enn einn umgangur verður tekinn á því gamla. Og þar eiga þeir alltaf sinn part tryggan.
Eftir allt sem á undan er gengið er staðan sú að íslensk stjórnmál eru hreinlega ekki nægilega góð. Hvorki stjórn né stjórnarandstaða. Mikill stuðningur við Pírata nú er ekki vegna þess að þeir haldi á lofti stórum svörum – heldur miklu fremur vegna þess að þeir hafa sýnt í verki viljann til að spyrja.
Meirihlutinn á þingi hefur í raun fullt umboð til að sitja út allt kjörtímabilið. Það er hálfgerð synd að hugmyndaleysi okkar hafi orðið til þess að krafa mótmælenda hafi ummyndast í einbera kröfu um kosningar. Krafan á að vera um siðferðilega ábyrgð og uppgjör gegn þeim ósóma sem þjóðin hefur orðið uppvís að, þar á meðal nokkrir oddvitar hennar.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn tæki upp á því að sýna siðferðiskennd og losa sig við Bjarna og Ólöfu væri raunar miklu meira unnið – en með því einu að hleypa stjórnarandstöðunni að.
Hún er ekki svarið.
Ein og ber krafan um kosningar er hænuskref í næstu skotgröf.
Athugasemdir