Spegill þjóðar
Í dag, 10. júlí árið 2015, opnaði Landsbókasafnið fyrir aðgang að hinu forboðna tölublaði Spegilsins frá árinu 1983. Tölublaðið hefur verið óaðgengilegt lengst af þeim tíma (fyrir utan að nokkur síðustu ár hefur verið hægt að sækja það á vef Vantrúar). Ástæða ritskoðunarinnar á sínum tíma var guðlast.
Úlfar Þormóðsson ritstjóri Spegilsins sagði frá því í viðtali við Vísi á dögunum að guðlastsmálið hefði orðið til þess að hann hefði þurft að selja ofan af sér til að borga sekt. Fáir, ef einhverjir, eru augljósari dæmi um píslarvotta málfrelsis á Íslandi í seinni tíð.
Þetta er því nokkuð stór dagur.
Róttækni sjötta, áttunda og níunda áratugarins hefur tilhneigingu til að vera bæði krúttleg og borgaraleg í dag. Megas er til dæmis löngu hættur að hneyksla. Grúppíur hans eru stöndugt miðaldra millistéttarfólk. Guðlast Spegilsins kemur sáralítið við kauninn á okkur. Raunar hefur það ekki elst neitt rosalega vel. Það er frekar ófyndið og broddlaust.
Hinsvegar hljóta atburðirnir að vekja okkur til umhugsunar um málfrelsið almennt. Ég held nefnilega að það sé hættulegt þegar málfrelsið hnitast fyrst og fremst um tiltölulega óumdeilanlega hluti.
Dagurinn í dag er líka merkilegur að því leyti að hann markar 45 ára afmæli þeirra hörmunga þegar forsætisráðherra landsins dó í eldsvoða á Þingvöllum ásamt eiginkonu sinni og barnabarni.
Umhugsun um málfrelsið leitar því ósjálfrátt til gjörningalistahópsins Bruni BB sem starfaði um svipaðar mundir og Úlfar var dæmdur fyrir guðlast. Nafn hópsins var bein skírskotun í banaslysið á Þingvöllum. Hópurinn gerði sér far um að ganga fram af fólki. Frægast er þegar hæna var afhausuð á tónleikum með pappírsskera.
Umræður um málfrelsi hafa tilhneigingu til að snúast um tvær gjörólíkar spurningar. Hvað má og hvað á? Það er tilgangslaust að reyna að nota sama svar við báðum spurningum. Í umræðum um Múhameðsteikningar fyrir nokkrum árum var mjög algengt að þessu væri ruglað saman. Menn voru á móti þeim vegna þess að þær voru tillitslausar, óþarfar og jafnvel skaðlegar. Það má þegar verið er að svara spurningunni Hvað á. En það er ekki gilt svar við spurningunni Hvað má.
Jafnvel þótt við náum að gera þennan mikilvæga greinarmun er umræða um málfrelsi og ritskoðun afar flókin. Það er ekki bara með lögum og dómum sem haldið er aftur af óæskilegum skoðunum. Önnur hver fréttaveita í BNA hefur flutt fréttir af því að ferill leikarans Jim Carreys sé í stórkostlegri hættu eftir að hann lét frá sér gagnrýnin ummæli um bólusetningar og auðjöfurinn Donald Trump er í enn verri málum eftir að hafa orðið uppvís að yfirgengilegum fordómum í garð innflytjenda.
Raunar er áhugavert í þessu samhengi að skoða umrætt tölublað Spegilsins. Dómur féll vegna þess að í blaðinu var rætt um að fermingar gerðu börn að rónum. Nokkuð sem myndi varla stuða nokkurn mann í dag. En það sem væri mjög líklegt til að valda nokkurri úlfúð nú á dögum er myndavalið með pistlinum. Þar er búið til ímyndað dæmi um drenginn Ólaf sem missti tök á tilverunni við það að vera boðið vín í fermingunni og leiddist út í lífsstíl „ofdrykkju, glæpa, rána, morða og alkóhólisma.“ Á fyrri myndinni er hvítur drengur í fermingarkirtli. Á seinni myndinni, sem á að vera af Ólafi þegar hann fannst eftir margra ára sukk, er svartur útigangsmaður. Með myndinni stendur: „Myndina tók Erna er hún loks hafði upp á bróður sínum en hann „býr" í Harlemhverfinu sem svo er nefnt. “
Væri Spegillinn að koma út í dag er viðbúið að rasisminn færi verr í fólk en árásir á guðdóminn og kirkjuna. Og raunar er álitamál hvort nákvæmlega svona framsetning sé heimil samkvæmt núgildandi, íslenskum lögum. Er ekki hér verið að hæða fólk eftir uppruna og litarhætti? Og er það ekki bannað?
Mig grunar nefnilega sterklega að þótt guðlastslögin séu loks numin úr gildi þá séu skorður á málfrelsi alls ekki minni nú en áður þótt tíðarandinn sé breyttur.
Þjóð sem ætlar að halda aftur af ritskoðun og takmörkun borgaralegra réttinda þarf nauðsynlega að hafa til að bera þá hæfni að hefja sig upp yfir tíðarandann. Nú standa miklar deilur í BNA um fána Suðurríkjanna. Ástæðan er sú að ungur maður tók myndir af sér með fánann áður en hann fór inn í kirkju svertingja og drap þar fjölda saklausra. Í þessu sambandi má minnast þess að gerð var tilraun til þess um miðja nítjándu öld að gera flóttahneigð og óvilja til vinnu að viðurkenndum geðsjúkdómum í fari þræla. Í Kína er pólitískt andóf enn skilgreint sem geðveiki. Wang Wanxing, lýðræðissinni, sat í 13 ár lokaður inni á „ankang“ eða hæli vegna þess að hann hélt á mótmælaborða á Torgi hins himneska friðar á þriggja ára afmæli fjöldamorðanna. Hann býr nú í útlegð í Þýskalandi. Enginn veit hve margir eru lokaðir inni á slíkum stofnunum í Kína en þeir eru einhverjar þúsundir, fyrst og fremst pólitískir andófsmenn og Falun gong iðkendur. Og hér má hafa í huga að það er ekki ýkja langt síðan íslenska ríkið sá ástæðu til að hneppa í varðhald hóp þeirra síðarnefndu án nokkurrar gildrar ástæðu.
Fyrir nokkrum árum varð frægt þegar trúlausir mótmæltu kirkjunni með því að setja Svarthöfða aftast í prestagöngu. Mörgum þótti það mjög fyndið og viðeigandi leið til mótmæla. En síðan er fjöldi fólks á því að banna eigi friðsamleg mótmæli við Landspítalann vegna þess að það trufli konur sem koma þangað til fóstureyðinga.
Og loks er ekki hægt að klára umræðu um málfrelsi nema nefna annan „píslarvott“. Hlynur Freyr Vigfússon fékk dóm fyrir eftirfarandi ummæli:
„Það þarf engan snilling eða erfðavísindamann til að sýna fram á hver munurinn er á Afríkunegra með prik í hendinni eða Íslendingi.“
Í dómsorði var meðal annars nefnt sem rökstuðningur að svertingjar víða um heim hefðu beðist undan því að vera kallaðir negrar. Meginröksemdin var þó sú að málfrelsið væri ekki skilyrðislaust. Það mætti hefta m.a. til að vernda ákveðin „gildi“ svo sem þau að gæta réttinda eða mannorðs annarra.
Nýlega féll svo dómur þar sem íslensk kona var dæmd fyrir að veitast að oddvita í hrepp einum. En hún taldi hann flaðra upp um auðjöfur, sem nú situr í fangelsi, og meðal annars þiggja af honum gjafir. Oddvitinn náði ekki upp í nefið á sér fyrri hneykslan. Hann hefði ekkert fengið gefið – hann hefði bara fengið lánað.
Því ber að fagna að guðlast sé ekki lengur refsivert. Þó ber miklu frekar að hugleiða stöðu málfrelsis mjög alvarlega. Eins og áður er bent á er augljósi munurinn á ógæfusömum svertingja og Íslendingi útgangspunkturinn í „fyndni“ Spegilsins. Samfélagið var bara svo rasískt á þeim tíma að það kippti sér ekki upp við það. Í ljósi dómsins yfir Hlyni Frey má færa fyrir því sannfærandi rök að umburðarlyndi íslenska samfélagsins hafi ekki aukist við það að afnema refsingar við guðlasti, óumburðarlyndið hefur bara færst til.
Athugasemdir