Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Sælir eru einfaldir

Sælir eru einfaldir

Eitt af einkennum mannskepnunnar er að henni finnst best að díla við heiminn á sem viðráðanlegastan og einfaldastan hátt. Þar gegnir lykilhlutverki sú tilhneiging að ofureinfalda félagslegar og siðferðilegar aðstæður. Það er auðveldara að taka afstöðu eða ákvörðun þegar málin eru borðleggjandi. Það er að sama skapi hættulegt; heimurinn er flókinn.

Sálfræðin hefur varpað áhugaverðu ljósi á þessa tilhneigingu. Hún er nokkurnveginn almenn. Hún dofnar líka með aldrinum. Í flestum tilfellum. Hjá flestu fólki virðist heimurinn breytast úr svarthvítu í grátóna með aldrinum, hjá ákveðnum hópi festast einfaldanirnar í sessi. Það eru gjarnan þeir sem hafa ómanneskjulegustu afstöðuna til að byrja með.

Þessu tengt er að draga fólk í dilka. Staðalmyndir verða til í svarthvítum heimi. Það má vel vera að það sé siðferðilega rétt að skora staðalmyndir á hólm þegar maður verður var við þær í sjálfum sér en þær eru þarna samt. Í bandarískri rannsókn kom til dæmis í ljós að ef myndastokki var flett og þátttakendur áttu að segja hvað væri á myndunum var fólk fljótara að þekkja bæði byssur og körfubolta ef svartur maður hafði verið á myndinni á undan. Fólk var komið áleiðis í hugrenningartengslunum áður en myndin birtist.

Barátta fyrir félagslegu eða siðferðilegu réttlæti ber yfirleitt mjög stæk merki ofureinföldunar. Baráttufólkið sjálft virðist eiga mjög erfitt með að sætta sig við það að grá svæði séu til staðar. Það skiptir ekki máli hvort verið er að berjast fyrir rétti samkynhneigðra til að ganga í hjónaband, gegn hvalveiðum eða misskiptingu auðs. Lykilatriðið er alltaf að einfalda málstaðinn eins og mögulegt er – og reyna síðan að verja þá afstöðu fram í rauðan dauðann.

Að því leyti eru einfaldanir afar öflugt tæki til samfélagslegra úrbóta. Þær þjappa krafti saman svo að úr verður hreyfiafl, sem oftar en ekki bætir samfélagið. Þó þurfum við auðvitað að horfast í augu við það að stundum eru einfaldanir einmitt alls ekki aflvaki til nauðsynlegra breytinga heldur þvert á móti, límið sem neitar samfélaginu um að taka sönsum. 

Nokkur tilfelli upp á síðkastið hafa orðið mér tilefni til að hugleiða nákvæmlega þessa tilhneigingu í samfélaginu okkar. Eftirmæli Péturs Blöndals eru eitt slíkt. Pétur er mærður af mörgum fyrir það að hafa verið óbilandi í afstöðu sinni. Að vísu taka flestir fram að yfirleitt hafi afstaða þeirra og hans oftast verið á sitthvorum pólnum – en það sé virðingarvert að menn viti hvar viðkomandi stendur. 

Auðvitað er hans líka minnst fyrir ýmsa persónulega eiginleika, orðheldni, ráðheldni, þrautsegju og tryggð. Sem eflaust er allt verðskuldað. Pétur var eftirtektarverður þingmaður sem skar sig að mörgu leyti úr hópnum.

Þetta fékk mig samt til að hugsa. Er það sérstök dygð að vera fastur fyrir? 

Hugleiðingin bar mig að eftirfarandi niðurstöðu (í bili): Það er vissulega dygð þegar þingmaður stendur fastur gegn því að tileinka sér þær einfaldanir sem samherjar hans koma sér saman um að halda á lofti í hinum pólitíska slag. Það er þó nær því að vera löstur þegar menn standa fastir gegn mögulegum málamiðlunum þar sem þeirra er kostur.

Og talandi um málamiðlanir. Mér varð hugsað til þessa nákvæmlega sama þegar hver kom fram á fætur öðrum og sagði tímabært að „grafa stríðsöxina“ eða „koma sér upp úr skotgröfunum“ í flugvallarmálinu vegna skýrslu „Rögnunefndarinnar“ (sem raunar er ekki nefnd).

Deilan um flugvöllinn er fyrst og fremst deila um núverandi staðsetningu. Þeir sem vilja flugvöllinn áfram á sínum stað nota þá meginröksemd að staðsetning hans auðveldi fólki af landsbyggðinni aðgengi að stofnunum og fyrirtækjum í Höfuðborginni, þ.á.m. í heilbrigðisþjónustu. Þeir sem vilja flugvöllinn burt hafa þá meginröksemd að flugvöllurinn taki upp mikið rými sem hægt væri að nýta á verðmætari hátt. 

Skýrsla sem gengur út frá þeirri grunnforsendu að flugvöllurinn skuli fara burt er ekki líkleg til að sætta þessa hópa, hvað þá slá á röksemdir þeirra sem vilja ekki að hann fari. Ef skýrslan hefði átt að jarða stríðsaxir og moka umframmoldinni í skotgrafirnar hefði hún þurft að bera saman þær afstöður sem mætast í deilunni. Það var ekki gert. Það næsta sem hún komst því var að gefa sér að flugvöllurinn væri grafinn upp og settur aftur niður nokkrum metrum frá þeim stað sem hann er nú, með brjálæðislegum tilkostnaði. Svona fyrir utan það hve undarlegt það er að taka þá ekki inn í myndina augljósasta kostinn fyrir utan þessa tvo: Það er, að færa flugið til Keflavíkur.

Sem fékk mig til að hugsa um þetta: Maður á auðvitað að byggja brýr og forðast skotgrafir. En það er líka til staðar tilhneiging til að einfalda málamiðlanir og láta sem sátt felist í einhverju sem alls ekki snertir kjarna deilunnar.

Síðasta dæmið sem kveikti hugrenningatengsl af þessu tæi eru málefni Vigdísar forseta. Og raunar um leið, Framsóknarflokksins.

Það er sterk hneigð í samfélaginu einmitt núna að gera Vigdísi að einhverskonar dýrlingi. Sem í sjálfu sér er bæði skiljanlegt og að mörgu leyti eðlilegt. Við eigum ekki margt merkilegra fólk en hana. En Vigdís verður ekki gerð að dýrlingi án töluverðra einfaldana. Þótt ég sé rétt að komast á miðjan aldur man ég vel eftir síðustu árum Vigdísar í embætti forseta. 

Samband hennar og þjóðarinnar var alls ekki hnökralaust. Og hún varð heldur en ekki umdeild þegar hún virtist taka undir þá afstöðu Kínverja opinberlega að mannréttindi væru að einhverju leyti afstæð.

Sem ég held að sé rétt. Og einmitt dæmi um framúrskarandi tilraun til að varast það að ofureinfalda heiminn.

En aftur, ef það er gert af réttum ástæðum. Það má velta fyrir sér afstæði mannréttinda vegna þess að maður er áhugasamur um raunverulegt eðli þeirra eða vegna þess að það auðveldar manni samskipti við lið eins og það sem stjórnaði þá Kína. Annað er dygð, hitt tæplega.

Ég held raunar að ferill og líf Vigdísar standi undir sér og rúmlega það. Hún er merkileg kona og virðingarverð. En til þess að hægt sé að virða hana þarf líka að virða þá þætti hennar sem að mörgu leyti stangast á við tíðarandann. Ég heyrði hana tala á samkomu í vor þar sem hún kallaði ungar stúlkur skjaldmeyjar Íslands og vildi að þær tækju slaginn fyrir íslenska tungu og menningu. Að ýmsu leyti er Vigdís það sem Sigmundur Davíð vill vera. Og hann er hataður. Ekki bara fyrir það sem hann er, heldur líka það sem hann er að reyna að vera. Til að búa til helgimynd af Vigdísi þarf í raun að smætta hana niður í eitthvað sem hún er alls ekki eða a.m.k. bara skuggann af sjálfri sér. Vigdís er ekki bara kona sem svaraði hrokafullum körlum á meðan slíkt þótti varla við hæfi. Hún er miklu meira um það. Og margt af því sem hún stendur fyrir er smáð af þeim sem nú hefja hana upp á stall.

Niðurstaðan af þessum pælingum er því kannski þessi: Það er rétt að minnast Péturs Blöndal með hlýju og virðingu. Það er ástæða til að koma flugvallarmálinu upp úr skotgröfunum. Það er ástæða til að dá Vigdísi Finnbogadóttur. 

En alveg eins og flest fólks þroskar smám saman með sér tilfinningu fyrir gráskala og tapar þörfinni fyrir svarthvítan heim, þá hafa menn lítið að gera upp úr skotgröfunum ef menn ætla að ríghalda í svartan eða hvítan fána – og virðing eða aðdáun fyrir manneskju, lifandi eða liðinni, ætti að taka mið af gráu tónunum líka.

Ég hygg, að það komi í ljós, að grátóna samræða um mál er enn meira gefandi en svart hvítar málamiðlanir – og að raunverulegar manneskjur eru miklu virðingarverðari en helgimyndir.

 

Mynd með færslu: Gúnna.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni