Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Skóli / samfélag án aðgreiningar

Skjálftar eru eðlilegir í lifandi skólakerfi. Þeir eru raunar bæði óumflýjanlegir og æskilegir. Þessi misserin er töluverður hasar þar sem tekist er á við tilteknar brotalínur. Tvö dæmi eru alveg ný:

Hópur fólks safnar nú stofnfé fyrir nýjan skóla sem ætlaður er einhverfum börnum. Miðað við það sem ég hef séð hefur söfnunin (og hugmyndin á bak við skólann) mætt nokkurri andstöðu.

Síðan er það Magga Pála sem ætlar að taka við óhreinu taui og nemendum að morgni og skila af sér gáfaðri börnum, ilmandi kvöldmat og nýþvegnum þvotti að kvöldi.

Hvaða fyrirstaða skyldi vera gagnvart þessum fyrirætlunum?

Í fyrsta lagi eru ákveðin átök vegna hlutverks og stöðu starfsmanna skólanna. Einhverf börn þola t.d. mörg mjög illa uppbrot og breytingar og eiga sérstaklega erfitt með hefðbundin frí. Þarfir þeirra, þegar kemur að slíku, eru aðrar en flestra annarra. Það er einhver fyrirstaða við það að starfsemi skóla verði líkari starfsemi t.d. sambýla eða annarra stofnanna með tilheyrandi vaktavinnu og breyttu hlutverki kennara.

Ég held að það séu ekki mjög veigamikil rök.

Hinsvegar er viðkvæmari átakapunktur í því að hér er að einhverju leyti horfið frá hugmundafræðinni um skóla án aðgreiningar – eða skóla margbreytileikans.

Stefnan hefur verið sú að hér á landi séu ekki tvö aðskilin samfélög fatlaðra og ófatlaðra. Þessir hópar tengjast fjölskylduböndum og sækja að verulegu leyti sömu fjölskylduboðin. Ætlunin er að samskonar skörun eigi sér stað um allt samfélagið. Fatlaðir borði á sömu veitingastöðum, búi í sömu húsum, sæki sér sömu afþreyingu, vinni á sömu vinnustöðum og – sæki sömu skóla.

Á móti þessu má tefla tvenns konar rökum. Annarsvegar því að ýmsir hópar fatlaðra hafi af því bæði hag og gagn að dvelja með „jafningjum“ og hinsvegar því að með því að dreifa fólki með mikla og sérhæfða þörf fyrir þjónustu um víðan völl sé raunar verið að tryggja að þjónustan verði ófullnægjandi og ómarkviss.

Af þessum tveimur röksemdum held ég að seinni rökin séu mun sterkari. Ég held að bæði fatlaðir og ófatlaðir hafi margvíslegan hag af því að tilheyra sama samfélagi. Mér sýnist líka að það sé verulega vafasöm hugmyndafræði að búa til sérstök, aflokuð samfélög fatlaðra. Eflaust er þó hér einhver öfgalaus millivegur sem þarf að feta. 

Það er erfiðara að mótmæla hinu. Börn fá því miður alls ekki alltaf þá hjálp sem þau þurfa í skólakerfinu. Ástæðurnar eru margvíslegar en meðal annars þær að skólar gera ekki ráð fyrir eðlilegum fjölbreytileika, stöðlun er ofaukið (og færist raunar í aukana), stuðningsnet eru svifasein og gisin – og atgervisvandi er gríðarlegur. Síðastnefndi vandinn mun aukast og þess sjást nú merki að ástandið versni frá mánuði til mánuðar í skólum á þettbýlustu svæðum landsins.

Það hlýtur að vera óverjandi að koma upp kerfi þar sem viðkvæmustu börnin  sitja uppi í aðstæðum sem uppfylla ekki lágmarkskröfur um að vera þroskavænlegar – allt í nafni hugmyndafræði sem stórir hópar innan kerfis trúa hvorki alminlega á í orði né á borði. Það er að minnsta kosti ekki sérlega erfitt að færa sterk rök fyrir því að þörf fyrir sérstakt skólaúrræði sé brýn. 

Þá vaknar auðvitað spurningin hvers vegna fólk „úti í bæ“ þurfi að safna fé fyrir slíkum skóla. Hvers vegna er ekki sjálfsagt að slíkum skóla sé komið á fót af hinu opinbera? 

Ég leyfi þeirri spurningu að vaka áfram.

Um þvottinn hennar Möggu Pálu er það að segja að persónulega finnst mér þetta frekar kjánalegt. Þetta er samt alveg skiljanlegt. Stór hluti barna afplánar nú þegar stóran hluta hvers dags í frekar ómarkvissri barnapössun á frístundaheimilum. Það kemur ekki til af faglegum ástæðum. Þetta er þjónusta við fólk í samfélagi sem er hugfangið af langri vinnuviku. Því miður er það svo að samverutími með fjölskyldu og vinum er minni en hann ætti að vera.

Að því leyti gengur röksemd Möggu Pálu alveg upp. Með því að hætta að þvo þvott og elda er hægt að auka samverutíma fjölskyldunnar (að því gefnu að maður hafi ekki haft hugmyndaflug í að gera þvottinn og eldamennskuna að samverutíma).

Hvers vegna truflar þetta þá fólk?

Í fyrsta lagi auðvitað af svipuðum ástæðum og í fyrra dæminu. Það eru fá fyrirtæki sem ráða hámenntað starfsfólk í sérhæfð störf sem láta sér það til hugar koma að setja starfsfólkið í allskonar óskyld aukastörf. Læknar eru ekki látnir ganga um með snittubakka á biðstofunni, lögfræðingar eru ekki látnir pakka niður búslóðum þeirra sem bornir eru út, sveitaprestar moka ekki heimreiðar á sunnudögum.

Aftur finnst mér þetta heldur veigalítil rök. 

Önnur sterkari rök snúast líklega mest um velsæmi.

Ef heilsugæslustöð í Garðabæ færi að bjóða upp á hundapössun og bílabón á meðan eigendurnir fara í fitusog, kranæðavíkkanir eða augnaðgerðir þætti mörgum það eflaust jaðra við að vera ósæmilegt. Sérstaklega þegar fjöldi fólks kemst ekki einu sinni að hjá heimilslækni og fólk er farið að deyja í almenna heilbrigðiskerfinu vegna niðurskurðar.

Ég veit alveg að það er nánast trúarsetning hjá ýmsum að opinber kerfi séu sjálfkrafa full af hugmyndasnauðu og lötu fólki. Fólk úti á þessum jaðri vill trúa því að niðurlæging heilbrigðiskerfisins stafi af því að það sé fullt af ríkisstarfsmönnum. Hið sama gildi um skólakerfið. Svona fólk heldur að skólakerfi geti aldrei orðið góð fyrr en þau fara að reka sig í samkeppni á markaði.

Fólk á þessari línu telur að hreinn þvottur og veganmatur séu einhvernveginn til marks um hugmyndaauðgi og drifkraft. Þetta sé enn eitt sannindamerki þess að almenna skólakerfið sé sofandi á meðan einkaaðilarnir blómstra.

Að einu leyti er ég sammála þessu fólki. Skólakerfi (og önnur kerfi sem krefjast sérhæfðrar þekkingar og hæfni) verður alltaf betra ef einstaklingaframtakið (ath. ekki það sama og einkaframtakið) fær að blómstra. Miðstýrð skólakerfi verða aldrei verulega góð.

Að flestu öðru leyti held ég að fólk sé hér á villigötum. Á meðan fjöldi barna fær ekki lögbundna menntun, biðlistar fyrir börn og fjölskyldur í vanda eru tröllvaxnir og skólakerfið hikstar og höktir af heimatilbúnu stefnu- og metnaðarleysi þá einfaldlega finnst mér kjánalegt að einkaframtakið sé virkjað til að dekstra við vel stæða foreldra sem nenna ekki að koma við á þvottahúsi og veitingastað á leið til og frá vinnu. 

Svipaðir hlutir voru í tísku í Svíþjóð fyrir ekki svo löngu þar sem fín kaffihús voru með rekstur inni í skólabyggingum og margt var gert til að fólk fengi að upplifa froðukennda yfirburði. Niðurstaðan varð auðvitað sú að svona lagað gerir skóla alls ekkert betri. Í röðum voru svona skólar afhjúpaðir fyrir yfirborðsmennsku og skrum árin eftir að þessi tíska komst á fót.

Ef einkaframtakið er lausn skólakerfisins þá vil ég sjá því beitt til að takast á við einhver af hinum raunverulega brýnu vandamálum sem skólakerfið stendur frammi fyrir. Einkaframtak í þágu einhverrar elítu er, þegar öllu er á botninn hvolft, harla ómerkilegt.

Fæstir hafa efni á að láta aðra þvo þvottinn sinn. Fæstir hafa efni á því að kaupa alltaf tilbúinn mat. Þeir sem á annað borð hafa efni á því eru ekki sá hópur í samfélaginu sem glímir við þau vandamál sem brýnast er að takast á við.

Í sjálfu sér finn ég engin sterk rök gegn því að einkareknir skólar þvoi og eldi ofan í fjölskyldur nemenda sinna. Þeir gætu jafnvel boðið upp á sértilboð á Valentínusardaginn þar sem þú kemur eftir vinnu og sækir mat, vín og kerti og skilur börnin eftir í skólanum yfir nótt. Ekkert af þessu skiptir í raun og veru neinu svakalegu máli. 

Það mun alltaf vera markaður fyrir að stjana við þá sem eiga peninga. Auðvitað líður einkaframtakinu vel inni á þeim markaði. Það er erfiðara að tilheyra grunnkerfi, eins og heilbrigðis- eða menntakerfi, sem hefur það að markmiði að þjónusta fólk hvort sem það á peninga eða ekki. Þar getur áhugi einkaframtaksins horfið eins og dögg fyrir sólu.

Magga Pála þekkir það raunar vel. Ef hún græðir ekki á þjónustunni þá einfaldlega hættir hún að veita hana. Hún getur það. Ef henni finnst að ekki sé hægt að veita þjónustu fyrir uppsett verð getur hún alltaf skellt í lás. Það geta aðrir skólar ekki. Þeir hafa nú þegar þurft að starfa í þeim veruleika í mörg ár að veita þjónustu sem hið opinbera er ekki tilbúið að greiða fyrir. Þetta er löngu farið að há þeim verulega og margir skólar eru stórskaddaðir eftir að hafa búið við krónískt svelti, jafnvel frá stofnun. Þeir geta ekki skellt í lás og einbeitt sér að þjónusta þá sem borga betur með sér.

Ástæða þess að við rekum opinbera skóla er einfaldlega sú að við vitum ekki hvort næsta þjóðskáld býr í einbýlishúsi á Seltjarnarnesi eða ósamþykktu iðnaðarhúsi á Völlunum. Við vitum ekki hvort fremsti vísindamaðurinn okkar verði lesblindur eða bókaormur. Við höfum ekki hugmynd um það hvort fremsta fótboltafólkið í næsta landslið æfi með Leikni eða Stjörnunni. 

Það sem við vitum hinsvegar er að hæfileikar varða leiðina að betra samfélagi fyrir okkur öll. Og að hæfileikar eru ekki ber sem tínd eru af trjám. Þá þarf að rækta og að þeim þarf að hlúa. Ef það er gert kemur alltaf í ljós að það sem samfélaginu reyndist fyrir bestu er einmitt ekki að púkka mest upp á þá sem hafa það best fyrir. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni