Samræmdi vorboðinn ljúfi
Eftir að ég byrjaði að skrifa um skólamál hafa mér af og til borist tölvupóstar frá foreldrum sem segja af reynslu sinni af ýmsum þeim meinum sem ég hef reynt að draga fram í dagsljósið.
Sum þessara erinda hafa snúist um stýrandi áhrif samræmdra prófa á skólastarf. Foreldrar barna sem ekki eru talin líkleg til afreka hafa sagt mér frá því að þau séu beitt þrýstingi til að halda börnunum frá prófunum. Það veit ég að er rétt. Hitt hef ég efast um þegar mér hefur verið sagt frá því að í sumum skólum tíðkist það að æfa börn sérstaklega undir samræmd próf allt haustið sem prófin eru haldin og að auki vorið áður.
Ég hef ekki viljað trúa þessu vegna þess að í fyrsta lagi kemur skýrt fram í máli aðstandenda prófanna að þeir vilja alls ekki að börn séu æfð með þessum hætti, enda rýrir það samanburðargildi þeirra. En einnig vegna þess að vorið og haustið er einfaldlega alltof verðmætur tími til að sóa í drill yfir ljósritum af gömlum samræmdum prófum. Það eru mjög mörg markmið með skólastarfi sem aðeins er hægt að ná á vorin og haustinn meðan veðrið er milt og náttúran að vakna eða enn vakandi.
Ég hef heyrt að þeir skólar sem þetta gera séu gjarnan knúnir áfram af góðum árangri fyrri ára. Þetta séu skólar sem séu búnir að fullkomna þá list að taka samræmd próf – og þótt stjórnendur þeirra tali gjarnan prófin niður opinberlega sé raunveruleikinn samt sem áður sá að prófin eru gríðarlega þykkur, rauður þráður í skólastarfinu.
Þess vegna birti ég með óánægju þessa mynd af stúlku í þriðja bekk í einum af þeim skólum sem þessar sögur hafa gengið um. Myndin, sem birt er með leyfi foreldris, er tekin nú í lok mars. Stúlkan er að undirbúa sig undir samræmdu prófin sem hún tekur í september. Ætlast er til að hún vinni í þessu heima líka.
Athugasemdir