Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

SALEK – Kennarar sitja uppi með Svarta-Pétur

Árið 2002 voru gerðir „tímamótasamningar“ sem forysta kennara þá sagði að væru einstaklega góðir. Þar voru kjarasamningar einfaldaðir og laun, að sögn, hækkuð stórkostlega.

Tveimur árum seinna stóð ekkert eftir. Launin voru aftur orðin hörmuleg, einföldunin reyndist fyrst og fremst hafa verið afsal réttinda – og kennarar fylltust bræði og örvæntingu; þeir ruku í blóðugt verkfall. Því lauk með lagasetningu í boði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Lagasetningu sem lamaði kennara í áratug á eftir.

Þegar kennarar þorðu aftur upp á dekk var baráttutónn í mörgum. Að minnsta kosti á yfirborðinu. Því lauk þannig að gerður var annar „tímamótasamningur“. Með áður óþekktum „einföldunum“ og meintum stórhækkunum á launum. 

Þegar samningurinn komst fyllilega til framkvæmda í haust uppgötvaði stór hópur kennara að launahækkanirnar reyndust grunsamlega litlar – og sumir lækkuðu. Óformleg könnun meðal kennara fyrir nokkrum vikum leiddi í ljós að vantraust á forystuna er nú um og yfir 90%.

Það verður eflaust rifist eitthvað áfram um það hvort launahækkanirnar voru alvöru launahækkanir eða bara blöff. Það rifrildi skiptir bara ekki nokkru máli lengur. Samningurinn var allur reistur á brauðfótum. Brauðfótum sem kennaraforystan vissi af en hélt leyndum fyrir kennurum.

Hið dularfulla fyrirbæri, SALEK-hópurinn (Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga), er nebblega búið að vera að vinna að því leynt og ljóst að eyða öllum mögulegum launahækkunum sem kennarar hafa fengið í þessari samningalotu. Í þessum hópi sat forysta kennara – og situr enn – allnokkuð örvæntingarfull, því hún er búin að átta sig á því sem hún hefur gert.

Formaður KÍ segist hafa tekið þátt í SALEK-vinnunni, vitandi að hverju stefndi, í óútskýrðri trú á að grundvallarforsendum yrði breytt þrátt fyrir að hafa blasað við allan tímann. Það kom auðvitað aldrei til greina.

Niðurstaðan er þessi: Búið er að skrifa undir samkomulag um að laun kennara skuli á næstu árum gjöra svo vel að rýrna aftur niður í það sem þau voru áður en síðustu kjarasamningar voru gerðir.

Það gildir einu þótt KÍ hafi neitað að skrifa undir lokagerð samkomulagsins. Viðsemjendur kennara skrifuðu undir og hafa því gert bindandi samkomulag við stærsta hluta vinnumarkaðsins um nákvæmlega þetta. Launastefnan hefur verið lögð og hún nýtur samþykkis og stuðnings alls fjöldans.

Kröfur kennara á næstu árum um sæmileg laun munu ekki aðeins lenda á daufum sveitarstjórnareyrum hér eftir sem hingað til – þær verða túlkaðar sem sérhygli og árás á stöðugleika alls vinnumarkaðarins.

Þvílíkt, stórkostlegt klúður!

Kennarar hafa sumsé í góðri trú samþykkt um að fella burt næstum öll eftirstandandi réttindi í kjarasamningum fyrir „launaleiðréttingu“ á sama tíma og forystunni var fullkunnugt um að á þessa leiðréttingu kæmi feitur bakreikningur – í umboði sameinaðs vinnumarkaðar!

Nú er staðan sú að kennarar eiga ekkert eftir til að selja nema aukna kennsluskyldu og forfallakennslu. Sveitarfélögin vita hvað þau eiga að heimta næst. Kennarar vita aftur á móti ekkert hvað þeir eiga að gera. Forystan sem ótraust var fyrir þarf nú, við birtingu SALEK-samkomulagsins, að gangast við því að líklega eru flest sund lokuð næstu árin. 

Formaður KÍ tók þó fram í Skólavörðunni að í honum blundaði von um að þetta færi allt vel á endanum. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni