Rof milli skynjunar og veruleika í Reykjavík
Sigurður Bessason, formaður Eflingar, vappaði fram á völlinn í mars og sakaði hið opinbera um að ganga gegn kjaramálastefnu á almennum vinnumarkaði. Hann talaði sérstaklega um kennara og hinar gríðarháu launahækkanir sem þeir hefðu fengið. Nú væri eðlilegt að fara fram á svipaðar hækkanir fyrir aðra.
Skoðum hinar miklu launahækkanir kennara aðeins nánar.
Ítrekað hefur því verið haldið fram að kennarar muni hækka um 17 til 29% á samningstímanum. Samningurinn gildir út næsta ár. Nær allar hækkanirnar hafa tekið gildi eða eru væntanlegar á þessu ári. Aðeins 2% hækkun bætist við á næsta ári.
Skoðum nú hvaða áhrif hinar miklu launahækkanir hafa á rekstur Reykjavíkurborgar skv. fjárhagsáætlun.
Berum saman árin 2013 og 2015. Á milli áranna taka gildi hvorki meira né minna en sex launahækkanir sem sumir vilja meina að skili kennurum allt að 30% launahækkun og setji þá loks í flokk með viðmiðunarstéttum.
Til að hafa samanburð skulum við sjá hvað Reykjavíkurborg áætlar að laun hækki mikið hjá öðrum hópum sem ekki fá jafn ríflegar hækkanir.
Byrjum á íþrótta- og tómstundasviði. Þar er reiknað með að launakostnaður hækki á þessu tímabili um 13,7%.* Þá er það menningar- og ferðamálasvið með 6,5% hækkun. Á skrifstofum miðlægrar stjórnsýslu er hækkunin slétt tíu prósent. Þá er það flokkur sem kallast „sameiginlegur kostnaður“. Þar munu laun hækka um 34,5%. Á umhverfis- og skipulagssviði lækka laun um 1,8%. Á velferðarsvið hækka þau um 6,4%.
Á þessum sviðum hækka laun að meðaltali um 11,5%**. En hér verður að hafa í huga að á þessum sviðum er ekki um að ræða hina ríflegu 17 - 29% hækkun. Hér er aðeins verið að fylgja verðlagi og eðlilegum grunnsveiflum.
Þess má geta til gamans að skóla- og frístundaráð hækkar greiðslur til sín um 36,8% á tímabilinu. Það er hinn pólitíski vettvangur sem stjórnar skólamálum. Embættismaðurinn sem situr svo yfir kerfinu ætlar skrifstofu sinni hækkun upp á 26,4%. Þetta fólk er mest í því að semja við sjálft sig. Og kannski eru þetta eðlilegar hækkanir. Munum jú, að kennarar fá allt að 29%.
Þá er það skóla- og frístundasvið. Þar sem hinar ofsafengnu launahækkanir upp á 17 - 29% koma til framkvæmda. Reykjavíkurborg metur það sem svo að það muni auka launakostnað á sviðinu um 9,1%.
Kennarar, sem eiga að hafa fengið gríðarlegar hækkanir, hafa sumsé í för með sér hlutfallslega minni hækkun á launakostnaði að jafnaði en aðrir hópar innan borgarinnar!
Hvernig má það vera?
Jú, svarið getur verið tvíþætt. Í fyrsta lagi getur verið að launahækkanirnar séu engar launahækkanir. Þvert á móti sé einfaldlega hætt að greiða fyrir ákveðin verkefni sem hingað til hafi verið greidd sérstaklega.
Einnig má vera að um raunverulegar launahækkanir sé að ræða en þá að uppfylltu því skilyrði að starfsfólki sé fækkað og að þeir sem eftir eru taki að sér meiri vinnu.
Ætli sannleikurinn sé ekki blanda af þessu tvennu.
Það er allavega erfitt að sjá að 17% hækkun á launum geti á undraverðan hátt aðeins valdið helmingi lægri hækkun á launakostnaði. Hvað þá ef menn reyna að trúa því að hækkunin sé nær 30%.
Það kemur hinsvegar ekki á óvart að stjórnsýslan og pólitíkin sjái ástæðu til að auka veglega við sig. Það er jú meira til skiptana. Kreppan er búin. Skrifstofa sviðsstjórans ein kostar á milli 200 -250 þúsund krónur á ári fyrir hvern kennara sem starfar í borginni. Miðstýring skólakerfisins í Reykjavík kostar um 650 þúsund á hvern kennara á ári.
Ef rekstrarfé skólanna í borginni er skoðað sést að þótt sumir skólar eigi vissulega að fá auknar fjárheimildir árið 2015 miðað við 2013 þá virðast flestir skólar vera að fá svipað fjármagn – og sumir minna. Því fer fjarri að þar sjáist einhver 17 - 29% launahækkun á línuna.
Það er semsagt algjört rof milli þeirrar skynjunar að kennarar séu að fá stórkostlegar launahækkanir og þess veruleika sem blasir við. Hvað þá að það sé við hæfi eða eðlilegt að reyna að nota kennarasamningana sem tylliástæðu fyrir launahækkunum upp á tugi prósentna hjá öllum öðrum stéttum. Hin háa hækkun kennaralauna var aldrei til sem annað en sölumennska og áróður. Hún er svogott sem öll fjármögnuð af kennurum sjálfum. Að minnsta kosti í Reykjavík.
*Þetta getur auðvitað bæði þýtt launahækkanir og aukinn fjölda starfsfólks.
**Taka verður til greina að þetta er ekki vegið meðaltal.
Mynd með færslu: Jean Paul Holmes
Athugasemdir