Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Opinberar aftökur í nýjum búningi

Opinberar aftökur í nýjum búningi

Tuttugasta og sjötta maí 1868 fór fram síðasta opinbera aftakan í Bretlandi. Þá var norður-írskur aðskilnaðarsinni hengdur fyrir misheppnaða tilraun til að frelsa félaga sína úr haldi. Hjólbörusprengja hafði kostað 12 vegfarendur lífið við fangelsi í London. Um tvöþúsund áhorfendur voru viðstaddir aftökuna. Þeir gerðu hróp að hinum dauðadæmda manni og sungu Rule Brittania þegar hann féll gegnum opið á gálganum. Daginn eftir var skrifað í dagblað að hér hefðu Írar fengið sinn píslarvott sem fórnað hefði verið fyrir það grundvallarlögmál Íhaldsmanna að ekkert væri betra en blóð.

Síðasta opinbera aftakan í Bandaríkjunum fór fram í ágúst 1936. Það var líka henging. Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin af því tilefni. Hinn dauðadæmdi fangi er eini svarti maðurinn á myndinni. Tíu sinnum fleiri mættu á þessa aftöku en þá bresku. Hún þótti heldur ömurlegt sjónarspil. Skerfarinn var kona og til að hlífa henni við þeirri raun að drepa hinn dæmda mann höfðu fjölmargir karlar boðist til að framkvæma verknaðinn. Hinn útvaldi böðull, fyrrum lögreglumaður, mætti svo augafullur til aftökunnar að allt lenti í handaskolum. Að endingu framkvæmdi óbreyttur aðstoðarmaður aftökuna.

Sautjánda júní, þremur árum seinna, fór síðasta opinbera aftakan fram í Frakklandi. Nú var notast við fallöxina. Maður í nálægri byggingu tók aftökuna upp á myndband og nú má sjá hana á Youtube langi mann til þess. Breski hrollvekjuleikarinn Christopher Lee var viðstaddur. Hann var 12 ára. Hegðun múgsins var svo ofsafengin að franski forsetinn bannaði í kjölfarið opinberar aftökur.

  Í dag hafa opinberar aftökur tekið á sig ögn breytta mynd. Þótt þær hafi að nafninu til verið aflagðar í siðuðum löndum áratugum saman er ljóst að gamla íhaldslögmálið um að fátt taki blóði fram er enn í fullu gildi.

Nú hefur Seymor M. Hersch birt sláandi grein um morðið á Osama bin Laden. Samkvæmt heimildum hans var bin Laden geymdur eins og rotta í búri þangað til það hentaði að senda flokk manna til að drepa hann. Hann var drepinn 2. maí 2011. Morðið á honum er talið hafa gegnt mikilvægu hlutverki við að tryggja Obama forseta endurkjör (frá lokum seinna stríðs hafa aðeins Truman og Carter notið að meðaltali minni vinsælda sem forsetar en Obama, sem líklega mun enda sem óvinsælastur allra). 

Raunar er sérlega áhugavert að skoða vinsældir Bandaríkjaforseta í þessu samhengi. Téður Jimmy Carter, einhver óvinsælasti forseti seinni tíma, jók skyndilega vinsældir sínar gríðarlega um miðjan vetur 1979. Ástæðan voru gíslatökurnar í sendiráði Bandaríkjanna í Teheran. George W. Bush naut ótrúlegra vinsælda í kjölfar árásanna þann ellefta september 2011. Eftir það fóru vinsældir hans mjög þverrandi en þær tóku nokkuð stökk þegar Saddam Hussein var dreginn fúlskeggjaður og niðurlægður úr felum og fram fyrir myndavélarnar. Raunar jók handtaka Saddams vinsældir sitjandi forseta meira en drápið á bin Laden. Kannski vegna þess að leynileg aftaka um lágnættið er ekki eins fjölmiðlavæn og myndræn niðurlæging.

Alræmdasta bragð af þessu tæi átti sér þó stað í stjórnartíð Bill Clintons. Ágústmánuður 1998 hafði reynst honum mjög erfiður. Á einum og sama deginum hafði verið ráðist á þrjú bandarísk sendiráð. Hundruðir dóu. Viðbrögð hans voru að gera flugskeytaárás á lyfjaverksmiðju í Súdan. Erfitt er að meta manntjónið sem fyrst og fremst stafaði af því að fárveikt fólk fékk ekki lengur lyf. Það er jafnvel talið nema tugum þúsunda. Lyfjaverksmiðjan hafði engin tengsl við árásirnar sem verið var að hefna fyrir þótt því væri einarðlega haldið fram af bandarískum stjórnvöldum. Þau virðast ekki hika við að ljúga.

Gamla íhaldslögmálið er enn í fullu gildi. Ekkert er betra en blóð. Óvinsælir forsetar úthella blóði. Gamla, barbaríska aðferðin við að draga einhvern subbulegan smáglæpamann eða terrorista út undir vegg eða upp á gálga og sálga honum þar fyrir framan æstan múg er úrelt. Vígið þarf helst að fara fram fyrir framan sjónvarpsmyndavélar og raunar er áhrifaríkara að handsama einhvern óvin og niðurlægja hann áður en hann er drepinn.

Tími opinberra aftaka leið ekki á lok á fyrstu áratugum síðustu aldar. Félagslegar breytingar og tækni gerðu aðeins það að verkum að finna þurfti þeim nýjan búning.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni