Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Nokkrir punktar um menntun

Gunnar J. Straumland er snjall kennari í Borgarnesi. Hann skrifaði þessa áminningu á fésbókina í gær sem ég birti hér með hans leyfi:

Nokkrir punktar um menntun:

Nemandi í leikskóla er ekki þar til að undirbúa sig undir grunnskóla. 
Nemandi í grunnskóla er ekki þar til að undirbúa sig undir framhaldsskóla.
Nemandi í framhaldsskóla er ekki þar til að undirbúa sig undir háskóla.
Nemandi er í skóla, á hvaða skólastigi sem er, til að þroskast, nema, uppgötva, skapa og upplifa lífið á eigin forsendum með möguleika á leiðsögn og kennslu.
Einstaklingur er í skóla þar sem hann á að fá tækifæri til að búa sig undir lífið, til að fá hjálp við að upplifa sína samtíð, fræðast um sína fortíð og búa sig undir sína framtíð.

Nám í framhaldsskóla er þar af leiðandi í eðli sínu ekkert merkilegra en nám í grunnskóla eða leikskóla. Öll stig skólakerfisins hafa jafn mikilvægt hlutverk til þroska einstaklings.

Sú ofuráhersla á námsmat sem skín í gegnum starfsemi menntamálayfirvalda er tímaskekkja. Þar virðist skipta mestu máli að búa til staðla svo að næsta skólastig geti metið nemendur fyrirfram.

Hugmyndafræðin um einstaklingsmiðað nám var innleidd í grunnskólum landsins án þess að nokkur hugsun virðist hafa farið í það að slíkt skólastarf kallar á umfangsmikla stoðþjónustu. Það er efni í langan pistil sem kemur síðar. En þversögnin hjá menntamálayfirvöldum er sú að á meðan starfsfólk grunnskólanna keppist við af fremsta megni að framfylgja hugmyndafræðinni um einstaklingsmiðað nám er á sama tíma allt kapp lagt á það að búa til staðlað, miðstýrt námsmat.

Einstaklingsmiðað nám – staðlað námsmat.

Sjá ekki allir þversögnina í því?

Ef ég hefði eitthvað um það að segja myndi ég afgreiða námsmat í einstaklingsmiðuðu námi svona:

Gerði sitt besta, tók framförum.
Eða.
Lagði sig ekki nægilega fram, getur betur.

Lifið heil!

Til að kóróna þetta súmmeraði hann grunnhugsunina upp í dróttkvæði:

Tæpir ljóð á tali
tungu nema ungir
opnar huga efni
eykur þroska leikur.
Yrkjum frjó sem örva
ungan við frá drunga
ungvið helsi angrar
ei skal dóma þreyja.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni