Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Mörg sorgleg dæmi í Versló

Mörg sorgleg dæmi í Versló

Ef ég ætlaði mér að skrifa alvöruþrunginn pistil um versnandi íslenskukunnáttu (sem ég myndi aldrei gera – nema í því samhengi sem brátt verður ljóst) myndi ég reyna að vanda mig óskaplega svo að ég yrði ekki uppvís að of mörgum villum. Ég myndi jafnvel tví- eða þrílesa textann yfir til að losa mig við fljótfærnisvillur (en ég leyfi þeim yfirleitt annars að standa – og ekki er ólíklegt að einhverjar leynist í þessum pistli).

Þess vegna gat ég ekki annað en kímt þegar ég las fréttatilkynningu frá Versló um að einkunnir í stærðfræði og íslensku séu orðnar alltof háar í grunnskólunum.

Ég hef stundum vorkennt Versló óskaplega. Skólinn missir á hverju ári af ótal frábærum nemendum vegna þeirrar áráttu sinnar að hleypa nemendum nær eingöngu inn eftir einkunnum. Það er löngu vitað að það eru yfirleitt ekki dúxarnir sem blómstra frekast. En þetta vill Versló – og þetta fær hann. Einu undanþágurnar frá reglunni virðast vera þær að forgjöf fylgir forhúð.

En gott og vel. Ég hef nákvæmlega engan áhuga á að skipta mér of mikið af því hvernig Versló velur inn nemendur sína. Ef skólanum er lífsins ómögulegt að átta sig á því að þroskavænlegasta skólaumhverfið felst í ákveðinni fjölbreytni og víðsýni þá verður svo að vera.

En ef menn ætla á annað borð að skrifa bréf og skamma fólk fyrir að ofmeta íslenskugetu ungdómsins hefði maður haldið að svona texti kæmist ekki alla leið á prent:

Hin síðari ár höfum við of mörg sorgleg dæmi þess að nemandi með einkunn upp á 9,0 og 9,5 í stærðfræði og íslensku í skólaeinkunn úr grunnskóla nái jafnvel ekki lágmarksviðmiðum í hvorugri greininni á sínu fyrsta ári í Verzlunarskólanum.

 Fleiri meinlegar villur leynast í textanum en ég nenni ekki að eltast við þær. Punkturinn er nefnilega ekki sá að í eftirsóttum skóla megi ekki leynast brestir í íslensku. Hann er sá að samskonar brestir ættu líka að mega leynast í eftirsóttum námsmönnum.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni