Misrétti gegn stúlkum í skólakerfinu
Ismar eru vafasöm fyrirbæri. Allir ismar. Ég undirskil þar hvorki húmanisma né femínisma; kapítalisma né sósíalisma. Ismar eru mannshuganum skæðir vegna þess að þeir smellpassa við hina frumstæðu þörf okkar fyrir röð og reglu. Þörfina sem bjó til guð. Þörfina sem leitast við að einfalda heiminn – og er uppspretta margs þess besta, og versta, í menningunni.
Ég tek sérstakan vara við ismum sem byggja á falsvitund. Ismum sem halda því fram að fólk upp til hópa sé dáleitt og skynji heiminn rangt. Ekki vegna þess að það geti ekki einmitt verið rétt að vitund fólks sé skekkt, heldur vegna þess að það að afgreiða vitund fjölda fólks sem fals ætti að krefjast nákvæmra sannana. Sá sem afneitar dómgreind annarra getur stundum komist upp með að byggja hvað sem er í staðinn, gagnrýnilaust. Afhjúpari falsvitundarinnar getur hæglega verið falsari sjálfur.
Falsvitund var meginstef í kommúnisma og hún átti svo endurkomu í róttækum femínisma.
Talskona Femínistafélagsins mætti til útvarps í gær til að ræða kvennabaráttuna almennt. Sem auðvitað er bæði gott og viðeigandi.
Hún taldi að nauðsynlegt væri að rétta stöðu kynjanna í skólunum. Eins og staðan væri núna fengu strákar meira hrós og meiri stuðning. Þetta væri dulið kynjamisrétti sem rífa þurfi upp með rótum. Réttast væri að byrja á frekari sigrum í jafnréttisbráttunni þar.
Það sem satt er, er að erfiðleikar stúlkna á grunn- og framhaldsskólaaldri taka stundum á sig aðra birtingarmynd en drengja. Vandi þeirra brýst síður út í hegðun. Af þessu er dregin sú ályktun að þær séu látnar þjást í hljóði á meðan meira sé gert til að hjálpa drengjunum.
Hjálp getur verið af ýmsu tæi. Í fyrsta lagi getum við rætt um sértæka eða almenna námsaðstoð. Þar að ofan má nefna stuðning í skóla af öðru tæi. Loks gætum við rætt utanumhald eða aðhald utan skóla (t.d. af hálfu foreldra, barnaverndaryfirvalda eða annarra).
Við þekkjum nokkuð gjörla að dálítill munur er á kynþroska eftir kynjum. Það virðist vera erfiðari reynsla að vera bráðþroska stúlka en bráðþroska drengur. Það virðist þó vera mjög erfitt að vera seinþroska drengur, sérstaklega ef þroskinn lætur bíða eftir sér. Það, að kynin fylgist að eftir fæðingarárum en ekki þroska, hefur vafalaust áhrif á líðan og sjálfsmynd sem enn eru ekki að fullu útskýrð.
Hér verður þó að hafa í huga (þótt það kunni að vera stuðandi hugmynd) að það er ekki endilega æskilegt markmið að nemendur sé með sterka sjálfsmynd. Raunar hafa fræðin fyrir löngu varpað verulegum efasemdum yfir gagnsemi þess að einbeita sér að sjálfsmyndaruppbyggingu. Þrautsegja og vaxtarhugarfar eru miklu verðugri markmið.
Raunar, ef ég ætti að leggja til mín vafasömu sent til umræðunnar, teldi ég ekki ólíklegt að hluti af þeim kynjamun sem er á árangri í íslenskum skólum stafi af því að drengjum er oftar hrósað fyrir það hvað þeir eru („þú ert góður í fótbolta“) en stúlkum fyrir það sem þær gera („þú ert dugleg að læra“). Annað stuðlar að vaxtarhugarfari, sem felur í sér að maður geti breyst en hitt byggir á því að maður sé einhvernveginn og eigi að gera það besta úr því. Það getur vel verið að maður fái sterka sjálfsmynd ef manni er iðulega hrósað – en það vængstýfir mann um leið. Undirliggjandi í gagnrýni sumra femínista er að þeir þykjast hafa tekið eftir þessum sama mun og túlka hann, fræðakerfis síns vegna, sem drengjum í hag. Fyrst og fremst vegna þess að allur merkjanlegur munur á aðbúnaði kynjanna er kerfisbundið metinn sem mismunun gegn konum.
Það er algjörlega pottþétt að röng tegund af hrósi er skaðleg. Við eigum áhrifaríkar rannsóknir sem sýna fram á það. Ég vona í lengstu lög að innan kynjafræðanna sé a.m.k. næg þekking á þeim til að það verði ekki í alvöru farið að reyna að „byrja á skólakerfinu“ og jafna þann mun sem er á „athygli“ kynjanna með þeim hætti að fara að eitra hrós stúlkna vegna þess eins að drengirnir fái eitrað hrós.
En skoðum hina þættina. Sértækan námsstuðning. Almennan stuðning. Og stuðning frá samfélagi.
Það er ekkert leyndarmál að skólakerfi eru fæst hönnuð með allar manngerðir í huga. Slímsetur við borð, eilífir fyrirlestrar, einhæf viðfangsefni og krefjandi félagslegar aðstæður eru sumum erfiðari en öðrum. Það er ekkert sérstaklega auðvelt að vera ofvirkur eða einhverfur í almennum skóla. Nú er það svo að flestir algengir erfiðleikar eru margfalt algengari hjá drengjum en stúlkum. Ferfalt fleiri drengir en stúlkur glíma við ofvirkni, stam, lesblindu og einhverfu. Þrefalt fleiri hafa málraskanir. Það liggur ekki alveg á ljósu hver ástæðan er en í einhverjum tilfellum grunar menn að áhrif testósteróns á fósturþroska hafi þessi áhrif.
Miðað við þetta ætti ekki að koma á óvart þótt fleiri drengir fái stuðning vegna einhverfu, ofvirkni eða málraskana.
Hjá Reykjavíkurborg var þetta kannað. Þar nutu 20% stúlkna stuðnings en 32% drengja. Vegna námsörðugleika var hlutfallið 16%/21% og vegna ADHD, hegðunar- og tilfinningavanda var hlutfallið 4%/11%.
Þessar tölur benda alls ekki til þess að stúlkur fái lakari þjónustu í grunnskólum í stærsta sveitarfélagi landsins. Þvert á móti bendir þetta eindregið til þess að hærra hlutfall stúlkna fái hjálp en drengja.
Þá eigum við íslenska rannsókn á stuðningi við nemendur sem m.a. skilar þeirri niðurstöðu að það sé ekki hægt að skýra muninn á gengi kynjanna í skóla með mismiklum stuðningi. Bæði kyn telja sig upplifa jafnmikinn stuðning í skóla. Íslenska rannsóknin kemst að því leyti að sömu niðurstöðu og t.d. norsk rannsókn um sama efni.
Við vitum að drengir fá meiri athygli í skóla. Flest bendir þó til þess að sú athygli sé að oftar en ekki neikvæð og alls ekki drengjum til framdráttar.
Þá er eftir samfélagslegi stuðningurinn. Aftur er hann drengjum í óhag. Foreldrar hafa síður námslegan metnað fyrir hönd drengja. Raunar hefur samfélagið allt síður trú á drengjum í námi. Þeim er sjaldnar hjálpað með heimanámið og þeir eru frekar afskiptir en stúlkur.
Samt eru vanrækt stúlkubörn frekar tilkynnt til barnaverndar en drengir. Drengir eru tilkynntir þegar þeir gera eitthvað af sér. Kerfið er refsivöndull á þá. Málefni drengja komast síður áfram innan kerfisins og þeim er frekar lokað með bréfi en málefnum stúlkna.
Margir samverkandi þættir, þar á meðal þessir að ofan, hafa leitt til þess að við búum við það skólakerfi sem drengjum gengur erfiðast að fóta sig. Árangur þeirra er miklu lakari en stúlka í nærri öllum greinum og skólastigum. Þeir eru líklegri til að flosna upp úr námi. Þeir eru meiri sjálfsmorðshættu en tíðkast í vestrænum löndum (en stúlkur í minni). Og það er að flestu leyti mun erfiðara fyrir drengi að komast til þroska með aðstoð skólakerfisins en það er stúlkum.
Við höfum vitað þetta lengi. Ýmislegt hefur verið reynt og rannsóknir hafa verið gerðar til að reyna að varpa ljósi á vandann. En það er að mínu mati verulega óforskammað að taka einmitt skólann sem dæmi um það að drengjum sé hyglað á kostnað stúlkna.
Til að draga þá ályktun þarf maður að vera svo blindur á hina stærri mynd að maður er tilbúinn að hunsa það sem blasir við til þess að geta látið veruleikann passa við hugsjónina.
En stundum detta ismar í svona. Kapítalismi er tilbúinn að hunsa stórkostlegt óréttlæti og misskiptingu með því að sannfæra sig um að það sé smáfuglunum samt fyrir bestu að búa í svoleiðis samfélagi. Kommúnisminn var tilbúinn að hunsa það að samfélagsgerðin varð skrímsli sem í stað þess að tryggja öllu fólki mannsæmandi líf fór langt með að koma í veg fyrir það að nokkur gæti lifað eins og manneskja. Og femínismi hefur tilhneigingu til að telja allan mun kynjanna merki um kúgun kvenna.
Jafnrétti og jöfnuður er öllum samfélögum hollur. Samfélag sem dæmir heilu hópana úr leik fer á mis við nýtingu mannauðs. Því miður er skólakerfið okkar orðið dæmi um slíkt samfélag. Möguleikar þínir eru verulega takmarkaðir ef þú ert af röngu kyni. Það blasir við. Og það er sárt. Ástæðurnar eru margar og margvíslegar.
Ég persónulega neita að taka mark á fólki sem er svo blindað af ismum að það reynir að sannfæra mann um að það sem blasir við sé blekking, hlutirnir séu einmitt á hinn veginn.
Að því sögðu minni ég á orð dr. Hans Roslings um menntun og jafnrétti. Menntun er vondur mælikvarði á jöfnuð. Nú þegar situr hver kona í heiminum að meðaltali í 7 ár á skólabekk en drengur í 8. Það þýðir ekki að jöfnuður hafi náðst í sama mæli. Menntakerfið er aðeins eitt af mörgum kerfum samfélagsins og það tryggir ekki framgang eitt og sér. Það sem er alveg ljóst er að það er bæði menntakerfinu og samfélaginu skaðlegt að þar skuli hálf þjóðin eiga verri möguleika á að komast til þroska. Og í þessu tilfelli eru það drengir, ekki stúlkur.
Athugasemdir