„Meðan ég lifði var þetta leiðin!“
Dæmi- og kímnisögurnar af Nasreddin eru heimsþekktar. Hann er enda elskulegur karakter sem auðvelt er að þykja vænt um, hvort sem er í hlutverki trúðsins eða vitringsins.
Ein sagan fjallar um það þegar Nasreddinn ákvað að höggva grein af stóru tré. Hann settist á greinina og byrjaði að höggva hana milli sín og trjábolsins. Maður gekk þar hjá. Honum ofbuðu aðfarirnar og því mælti hann: „Ef þú situr á greininni þegar hún fellur, dettur þú til jarðar og drepst!“ Nasreddinn hugsaði með sjálfum sér að þessi maður væri líklega einn af þeim sem ekkert hafa fyrir stafni sjálfir og ganga þess vegna um og segja öðrum fyrir verkum. Hann skyldi ekki hlusta á svoðleiðis bjána.
Það fór auðvitað eins og maðurinn hafði spáð. Greinin féll og Nasreddin með. Þar sem hann lá ringlaður á jörðinni endurskoðaði hann hug sinn til vegfarandans. Nú taldi hann ljóst að maðurinn hefði verið spámaður. Af því flyti að Nasreddin hlyti að vera dauður. Hann lá því sem flatastur á jörðinni enda lítið annað hægt að gera í því ástandi.
Brátt kom fólk á vettvang. Vegsummerkin leyndu sér ekki. Hér hafði orðið banaslys. Nokkur hreystimenni biðu ekki boðanna og bjuggu um líkið og gengu af stað til að koma því í grafreit. Þeir komu að vegamótum. Skiptar skoðanir voru innan hópsins um hvor leiðin væri sú rétta. Eftir nokkurt þras fannst Nasreddin nóg komið. Hann reis upp við dogg, benti og sagði:
„Meðan ég lifði var þetta leiðin!“
Á íslensku Wikipediu segir um sögur Nasreddins að einhver saga hæfi nánast hvaða aðstæðum sem upp geta komið. Ég hygg að mikið sé til í því.
Ég skil þessa sögu því hér eftir fyrir þá stuðningsmenn fjórflokkanna sem draga vilja lærdóm af Nasreddin gamla og skilja ekkert í því að sleitulaus högg í óvininn frá hruni virðast skilja þá sjálfa eftir í frjálsu falli.
Athugasemdir